vald.org

Tekur bankakreppan aðra dýfu? … Framhald

28. júní 2009 | Jóhannes Björn

Viðskipti með afleiður eru komin vel yfir þúsund trilljónir dollara (evrópskar billjónir) í útistandandi samningum. Það er nærri tuttugu sinnum hærri upphæð en nemur allri heimsframleiðslunni. Skráðar afleiður voru í desember 2007 $548 trilljónir, en stóra púðurtunnan, óskráðar og eftirlitslausar afleiður, hljóðuðu upp á 596 trilljónir. Langstærsti hluti óskráðra afleiðna, nálægt 400 trilljónir, voru í pappírum sem tengdust vöxtum eða vaxtagreiðslum af einhverju tagi.

Það eru nokkur hugtök á sveimi í hagfræðinni sem fólk stundum ruglar saman og því ekki úr vegi að skoða þau stuttlega.

Framvirkur kaupsamningur: Aðili X kaupir eitthvað af aðila Z á föstu verði á ákveðnum degi í framtíðinni. Dæmi: Stórt bakarí gerir samning um kaup á 10 tonnum af hveiti á 100 kr. kílóið sem afhendist 1. maí 2010. Bakaríið hagar kaupunum svona til þess að geta gert langtímaáætlanir og hveitibóndinn selur af svipuðum ástæðum. Viðskiptin eru venjulega óbein og fara fram á mörkuðum sem sérhæfa sig í alls konar framvirkum kaupsamningum. Þessir samningar eru bindandi.

Kaupréttur: Aðili, segjum fyrrnefnt bakarí, borgar umsamið gjald fyrir réttinn til þess að kaupa 10 tonn af hveiti á 100 kr. kílóið þann 1. maí 2010. Ef hveitið lækkar í verði á næsta ári þá getur bakaríið hætt við kaupin og tapar aðeins gjaldinu sem kauprétturinn kostaði.

Þessir samningar eru ekki afleiður heldur samningar þar sem allar stærðir eru þekktar. Eins og nafnið bendir til þá breytist verðgildi afleiðna stöðugt. Eitt leiðir af öðru og verðið ræðst t.d. af breytilegu kornverði á heimsmarkaði eða fjölda rigningadaga á vormánuðum í ákveðnum héruðum. Þetta eru oft gífurlega flóknir pappírar.

Einföld afleiðuviðskipt gætu gengið svona fyrir sig: Lánadeild bílaframleiðanda er með $100 milljónir í fimm ára lánum sem bera 5% sveigjanlega vexti. Þetta eru sveigalegir vextir vegna þess að þeir breytast þegar vextir á 10 ára ríkisskuldabréfum hækka eða lækka á frjálsum markaði. Fjármálastjóri lánadeildarinnar telur nokkuð öruggt að vextir fari lækkandi á næstu árum og hann vill því negla niður eins mikið af peningaflæðinu og mögulegt er. Hann gerir því afleiðusamning við einhvern annan aðila sem telur vaxtalækkanir ólíklegar. Vextir á ríkisskuldabréfum ráða því nú hver græðir á þessum samningi næstu árin.

Afleiður eru alltaf veðmál á milli tveggja aðila. Þær hafa ekkert að gera með raunverulega framleiðslu og þjóna mjög litlum tilgangi í hefðbundnu hagkerfi. Þótt afleiðuviðskipti myndi sinn eigin heim þá geta þau haft hrikalegar afleiðingar annars staðar. Fasteignabólan sem endaði með núverandi heimskreppu var stöðugt endurfjármögnuð í gegnum afleiðuviðskipti.

Þetta línurit sýnir glöggt hvernig peningaframleiðslan magnaðist á milli 2000 og 2006. Við erum að tala um $7 trilljónir í endurfjármögnun aðeins á Bandaríkjamarkaði áður en blaðran sprakk. Línuritið, sem ekki tekur verðbólgu með í reikninginn, sýnir samanlagðan eignarhlut bandarískra heimila í húsnæðinu sem það býr í.

Afleiðuviðskipti voru bönnuð í Bandaríkjunum á milli 1936 og 1983. Óprúttnir aðilar höfðu reynt að ná einokunarstöðu á landbúnaðarmarkaðinum (aðallega hveiti) og fólkið reis upp. Afleiður voru bannaðar með lögum 1935 sem gengu í gildi 1936.

Reagan leyfði afleiðuviðskipti aftur 1983 og það leið ekki á löngu þar til þetta spilavíti byrjaði að eitra út frá sér. Frægt gjaldþrot Orange County, sem er forrík útborg Los Angeles, skrifast á reikning afleiðuviðskipta. Eftir að frægur áhætusjóður, Long Term Capital Management, rúllaði af sömu orsökum 1998 töluðu ráðsettir menn um að koma einhverjum böndum á þessi viðskipti. Robert Rubin, Larry Summers og Greenspan komu þá í veg fyrir að nokkuð yrði gert. Í árslok 2000 læddi Phil Gramm síðan inn lögum sem gáfu áhættusjóðum fullt frelsi með þeim afleiðingum að fljótlega varð allt vitlaust á fasteignamörkuðum margra ríkja. Sjóðir, flestir með bólsetu á aflandseyjum, blésu stanslaust í bóluna.

Þessa stundina eru tvær bólur í hagkerfinu sem eiga líklega eftir að springa með háum hvelli: Afleiðumarkaðurinn og bandaríski ríkisskuldabréfamarkaðurinn. Þetta hangir dálítið saman vegna þess að afleiðumarkaðurinn geymir trilljónir í stuttum bandarískum ríkisskuldabréfum. Skammtímabréf koma að sömu notum og beinharðir peningar þegar veð eru annars vegar.

Þegar horft er á stóru myndina þá er afleiðumarkaðurinn ekkert betri en t.d. tryggingafélag sem ákveður að fara út í alls konar brask og tryggir sig fyrir hugsanlegu tapi með því að selja sjálfu sér tryggingar! Á einhverjum punkti birtist svartur svanur—óvænt og eyðileggjandi atburðarás—og kerfið klikkar. Veðmálin innheimtast ekki. Óvænt vaxtahækkun um t.d. 3% á tíu ára bréfum gæti nægt í þessu tilfelli.

Skuggahagkerfi af þessari stærðargráðu, sem gerir ekkert annað en framleiða endalausa veðmálssamninga, hlýtur að vera meiri háttar dragbítur á raunverulega hagkerfinu. Þar til fyrir tveim árum faldi fasteignaæðið líka ákveðna þróun í bandaríska hagkerfinu, þróun sem fáir hafa tekið eftir en er blátt áfram hræðileg. Það er að koma í ljós að hefðbundin lyftistöng hagkerfisins, einkageirinn, skapar nú orðið ekki nærri því nógu mörg störf. Opinberum starfsmönnum hefur fjölgað miklu hraðar, en það er auðvitað þróun sem ekki getur gengið endalaust.

Kalifornía er e.t.v. svartasti svanurinn sem svífur yfir vötnunum og líklegur kandídat til þess að keyra bankakerfið inn í nýjan öldudal. Fylkið er í raun eins og öflugt ríki með stærra hagkerfi en Kanada og Brasilía. En þrátt fyrir þessa miklu veltu þá er Kalifornía svo gott sem gjaldþrota og býr sig þessa dagana undir að borga fjölda aðila um þrjá milljarða dollara með víxlum (IOUs) sem kannski (orðalag fylkisins) verða greiddir í október. Það er öruggt að Kalifornía getur ekki endurfjármagnað skuldir sínar seinna á árinu, þ.e. nema ríkið hlaupi undir bagga. Ef Kalifornía getur ekki staðið við allar skuldbindingar sínar þá myndast keðjuverkun í kerfinu sem hækkar vexti á öllum opinberum skuldum og skuldum fyrirtækja.

Það styttist í að stór hluti efnahagssýslunnar í Bretlandi og Bandaríkjunum beinist að því að halda vaxtahækkunum í skefjum. Hrikaleg skuldasöfnum í þessum ríkjum kallar á sölu ríkisskuldabréfa í magni sem menn hafa ekki séð síðan í heimsstyrjöldinni 1939-1945. Hvert á að sækja þessa peninga án þess að lofa himinháum vöxtum? Hvernig er hægt að greiða þessar skuldir ef vextirnir hækka? Þetta er lokaður hringur.

Þrátt fyrir litla eftirspurn eru mörg hráefni byrjuð að hækka í verði. Ástæðan virðist vera sú að nógu margir sem versla á þessum mörkuðum treysta ekki pappírskerfinu lengur og líta á það sem betri langtímafjárfestingu að eiga t.d. framvirka olíusamninga. Þetta eru líklega skynsamlegar ákvarðanir því milljón dollarar í olíu sem afhendist 2013 hljóta að ávaxta sig betur en t.d. milljón dollarar í breskum ríkisskuldabréfum sem falla í gjalddaga á sama ári. Pundið hríðfellur þegar breska ríkið neyðist til þess að “peningavæða” skuldirnar (láta seðlabankann kaupa ríkisskuldabréf í stórum stíl). Flest hráefni og landbúnaðarvörur eiga á næstu árum eftir að spjara sig betur en hlutabréf eða önnur pappírsverðmæti.

Hækkanir á hráefni auka líka peningamagn í umferð og hluti þess fer aftur inn á skuldabréfamarkaðinn. En til þess að halda vöxtum niðri þarf miklu meira til og fróðlegt verður að sjá hvernig málin þróast með haustinu. Hræðsla virkar oft vel til vaxtalækkana í stöðugum eða hernaðarlega sterkum ríkjum. Með því að láta eitt eða tvö lönd flakka (alþjóðapeningakerfið kemur ekki í veg fyrir þjóðargjaldþrot), t.d. Lettland eða Úkraínu, þá myndast hræðsla um kerfishrun og peningar leita í “örugga” höfn. Eftir að Lehman fór á hausinn lækkuðu vextir í Bandaríkjunum af þessari ástæðu.

Ef bankakerfið tekur aðra dýfu þá getum við bókað fleiri styrjaldir. Hér er ekki endilega verið að segja að menn skipuleggi stríð til þess að ná tökum á kreppunni, heldur að dýpri kreppa skapar mikla eftirspurn eftir sökudólgum og pólitíkusar margra landa gera þá allt til þess að beina augum fólks eitthvað annað en að þeim sjálfum. Svona atburðarás stýrir sér sjálf.