vald.org

Gróa á Leiti

19. júlí 2009 | Jóhannes Björn

Ýkjur, lygasögur og hreinn áróður eru hlutir sem lengi hafa loðað við kauphallir heimsins. Ástandið er ekkert að batna því aukinn hraði og upplýsingaflæði í gegnum Netið hafa stórauðveldað starf Gróu á Leiti. Óstaðfestar fullyrðingar um einstök fyrirtæki geta farið eins og eldur í sinu um markaðinn og sveiflað verði hlutabréfanna upp eða niður áður en kjaftamyllan stöðvast. Þeir sem dreifa þessum sögum í upphafi og þekkja staðreyndir málsins græða hins vegar vel á ringulreiðinni.

Undanfarið hefur sá orðrómur verið býsna áberandi, að innan sex mánaða (jafnvel eftir 120–150 daga) skelli bankakerfi margra landa í lás um óákveðinn tíma. Illar tungur segja að bankar í Evrópu og Ameríku séu í svo vondum málum að stjórnvöld verði að skikka þá í “bankafrí” af svipuðum toga og var framkvæmt í Bandaríkjunum 1933.

Bankakerfið er vissulega í vondum málum og lumar á haug verðlausra pappíra sem, eins og stundum er sagt, eru verðlagðir í draumheimum. En spádómar um tímabundna lokun kerfisins eru þó aðallega byggðir á annarri kjaftasögu. Hún er svona: Samkvæmt einhverjum óljósum heimildum þá eru bandarísk sendiráð víða um heim að kaupa mikið af gjaldeyri í löndunum þar sem þau starfa. Mikið magn dollaraseðla hefur verið að berast frá Washington með fyrirmælum um að kaupa gjaldeyri, sem síðan er geymdur í peningaskápum viðkomandi sendiráða. Einhverjir sérfræðingar, segir sagan, gera nefnilega ráð fyrir víðtækum lausfjárskorti þegar bankarnir loka og að greiðslukort verði um leið ónothæf.

Ef þetta eru lygasögur þá er mögulegt að einhverjir aðilar séu að reyna að lækka verð hlutabréfa í ákveðnum bönkum eða þeir séu að spila á gjaldeyrismörkuðum. Hver veit? En önnur tegund villandi upplýsinga—og markmiðið með dreifingu þeirra er að “kjafta upp” markaðina—hefur líka verið mjög áberandi upp á síðkastið. Þessi aðferð byggist aðallega á því að taka nýjustu hagtölur úr öllu sambandi við sögulegt samhengi eða tíma og dubba þær upp sem gleðitíðindi. Einfalt dæmi um þessi vinnubrögð gæti t.d. verið frétt um 3% söluaukningu á húsgögnum á milli mánaða. Hagsmunaaðilar hamra svo á þessari tölu en “gleyma” að minnast á að salan hefur hrunið um 40% á einu ári.

Hér er raunverulegt dæmi. Framkvæmdir við að reisa ný einbýlishús í Bandaríkjunum (fyrsta skóflustungan) jukust um 3,6% í júní 2009 miðað við maí 2009. Allar helstu fréttastofurnar (og auðvitað félag fasteignasala) töldu þetta mikil gleðitíðindi og gáfu í skyn að fasteignamarkaðurinn væri að ná botni og næði sér bráðlega á strik. Bæði Bloomberg og Rauters töluðu um óvæntan bata og stöðugri markað. Stóra fréttin hér var þó að framkvæmdir höfðu dregist saman um 46% á 12 mánuðum!

Rauða strikið, sem sýnir meðaltal 12 mánaða og er langmikilvægasta mælistikan, stefnir beint niður. Sveiflur á milli einstakra mánaða eru marklausar og geta t.d. ráðist af veðurfari eða tölfræðilegri ónákvæmni (sem leiðréttist í meðaltali lengri tíma).

Heimskreppunni lýkur ekki fyrr en bandaríska hagkerfið nær sér á strik og það eflist ekkert við auglýsingaskrum eða óskhyggju. Menn geta allt eins reynt að reikna barn í konu! Öll línurit sem máli skipta sýna að bandaríska hagkerfið er enn í vondum málum og ekki neitt að taka við sér. Undirritaður verður fyrstur til þess að benda á “græna sprota” þegar þeir birtast.

Skatttekjur bandaríska ríkisins—mælistika sem sýnir efnahagsumsvif betur en nokkuð annað—snarlækka þessa dagana:

Og sömuleiðis skatttekjur einstakra fylkja landsins:

Fjöldi atvinnulausra einstaklinga sem keppa um hvert nýtt starf sem skapast í hagkerfinu er skelfilegur:

Atvinnuhúsnæði er að hrapa í verði og allt að 20% allra hótela BNA stefna í gjaldþrot á næstunni. Lánin sem hvíla á atvinnuhúsnæði fengur oft sömu meðferð og íbúðalánin. Þeim var pakkað og endurpakkað—þau voru seld og endurseld. Tap upp á trilljónir er í pípunum.

Kalifornía, áttunda stærsta hagkerfi heimsins, er tæknilega gjaldþrota og borgar milljarða þessa dagana með niðurlægjandi skuldaviðurkenningum sem gárungarnir hafa á milli tannanna. Ef Kalifornía getur ekki endurfjármagnað skuldir sínar seinna á árinu þá er nýtt 1933 bankafrí alls ekki svo fráleitt.

Og á meðan á öllu þessu gengur mokar bankakerfið—sem hefur verið á framfæri skattgreiðenda og seðlabanka í tvö ár—bónusum í snillingana sem settu þessar stofnanir á hausinn.