vald.org

Uppsveifla með orðum … framhald

13. ágúst 2009 | Jóhannes Björn

Alltaf þegar yfirgengileg spákaupmennska af einhverju tagi gengur yfir þá er hún varin með þeim rökum að venjuleg markaðslögmál eigi ekki lengur við. Menn segja að hlutirnir séu öðruvísi en áður í “nýju” hagkerfi þar sem allt hafi breyst.

Þessa dagana er verið að slá enn eitt sápukúlumetið. Svokallað P/E Ratio á S&P 500 verðbréfum (verð einstakra hlutabréfa deilt í gróða fyrirtækja) æddi nýlega úr um 20 (eðlileg tala) upp í 143,9. Það er sem sagt búið að þynna út markaðinn helmingi meira heldur en árið 2000 þegar tæknibólan náði hámarki, en sölumenn á Wall Street segja að það sé ekkert að marka. Þeir segja kringumstæður “óvenjulegar” því meiri gróði sé þegar í pípunum. Með öðrum orðum, markaðurinn er búinn að reikna inn nýtt blómaskeið sem er rétt handan við hornið.

Það er ekkert skrýtið að heyra Abby Cohen (“drottningu nautanna”, eins og einhver kallaði hana), Cramer, Kudlow og Liz Sonders spá hagvexti án þess að færa nokkur rök fyrir máli sínu. En nú hefur Paul Krugman, maður sem undirritaður ber mikla virðingu fyrir, bæst í hóp þeirra sem sjá uppgang á næstunni. Krugman hefur spáð rétt oftar en flestir aðrir, en í þetta skipti hefur hann algjörlega rangt fyrir sér. Það er auðvitað bíræfið að halda þessu fram, maðurinn fékk jú Nóbelsverðlaun [reyndar veðlaun sænska seðlabankans sem eru veitt í nafni Nóbel], en maður verður að skoða staðreyndir eins og þær eru en ekki í því ljósi sem aðrir varpa á þær. Long Term Capital var með tvo Nóbelsverðlaunahafa í fastri vinnu og sprakk í einu frægasta gjaldþroti allra tíma.

Í dag erum við að horfa upp á bjarnarmarkað (þar sem langtímasveiflan liggur niður á við) sem er auglýstur sem nautsmarkaður.

Það eru ákaflega léleg rök að benda á hræðilegar hagtölur og segja að þær séu ekki eins slæmar og fyrri tölur og þess vegna hljóti bráðum allt að vera á uppleið. Þar til menn geta bent á hvað kemur til með að lyfta efnahagslífinu eru þessar vangaveltur gagnslausar. Hagtölur eru líka misjafnlega gagnlegar og skammtímatölur svo til marklausar. Bandarískar atvinnuleysistölur eru t.d. þannig, að ef fólk dettur af skrá vegna þess að það fær ekki vinnu eftir ákveðinn tíma, þá er það ekki lengur talið með í hópi atvinnulausra. Ef við hins vegar lítum á miklu marktækra línurit, sem sýnir hvaða prósentuhlutfall landsmanna hefur vinnu, þá blasir við þessi mynd.

Hluti batans eftir 1980 á ofangreindu grafi kom til vegna stöðugt vaxandi þátttöku kvenna á vinnumarkaði, en þau áhrif eru orðin óveruleg eftir 1995 og eftir það eru engin “truflandi” áhrif á grafinu. Þróun síðustu 10 ára er skelfileg og eins og næsta línurit sýnir þá var atvinnusköpun á núllinu.

Paul Krugman heldur því fram að fjárhagslegar örvunaraðgerðir ríkis og seðlabanka hafi bjargað hagkerfinu frá algjöru hruni. Það er ekki nema hálfur sannleikurinn. Bankakerfið hefur vissulega braggast við botnlausar peningaaustur og auðvitað seljast fleiri bílar þegar skattgreiðendur eru látnir verðlauna eigendur bensínháka með $4500 þegar þeir kaupa sér sparneytnari bíla, en öll þessi uppákoma flokkast undir bæði siðferðisleg og hagfræðileg mistök. Hvers vegna ættu allir skattgreiðendur að niðurgreiða bíla sem sumir kaupa, bíla sem þeir hefðu hvort sem er keypt eftir nokkra mánuði eða ár? Og hvernig er það siðferðilega rétt að moka trilljónum í bankakerfi sem ekkert lætur í staðinn? Hluthafar bankanna græddu. Handhafar skuldabréfa sem þessir bankar gáfu út græddu líka. En fólkið tapaði stórt. Hér er lífleg umræða um þetta efni:

Ríkistjórnir og seðlabankar búa ekki yfir einhverju töfravaldi. Þegar ríkið gefur ákveðnum aðilum peninga þá borga allir skattgreiðendur brúsann. Þegar seðlabanki prentar of mikið af peningum þá borga allir endanlega með földum skatti sem kallast verðbólga. Margir sem ekki sjá þetta samhengi halda líka að eyðilegging geti verið af hinu góða og styrjaldir eða hergagnaframleiðsla hafi hagstæð áhrif á hagkerfið. Þetta er ótrúlega útbreidd skoðun sem er byggt á grundvallarmisskilningi.

Frakkinn Frederic Bastiat skrifaði ritgerð árið 1850 sem hét “Það sem er sýnilegt og það sem er ósýnilegt.” Þar segir hann m.a. frá búðareigenda sem lætur skipta um gler hjá sér. Sonurinn hafði brotið glerið í ógáti og kaupmaðurinn bölsótaðist yfir að þurfa að borga glerskera fyrir verkið. Þetta er sýnilegur hluti atburðarásarinnar. Glerskeri fær vinnu. Það sem er ósýnilegt er að ef rúðan hefði ekki brotnað þá hefði búðareigandinn eytt peningunum í eitthvað annað, t.d. nýja skó á börnin. Sem sagt, enduruppbygging eftir eyðileggingu (t.d. stríð) kemur okkur aftur á reit eitt—og enduruppbygging er jákvæð og það sem við sjáum—en það sem við sjáum ekki er hvað þetta vinnuafl og fjármunir hefðu gert ef ekkert hefði verið eyðilagt til þess að byrja með.

Hvað hefði verið hægt að gera við allar trilljónirnar sem búið er að moka í bankahítina?

Fjármálakerfi heimsins byrjaði að hrynja 2007 vegna þess að bankakerfið var búið að framleiða allt of mikið af skuldum. Peningum var hreinlega ýtt að fólki og fyrirtækjum. Ef einhver gat andað móðu á spegil þá var það næg trygging fyrir bankann.

Í staðinn fyrir að hleypa úr blöðrunni og láta hagkerfið ná einhverju jafnvægi—þjóðnýta marga banka tímabundið og hreinsa ruslapappíra út úr kerfinu—þá var óráðsíu bankakerfisins velt beint yfir á skattgreiðendur. Hvað kom út úr þessu? Bankakerfið er enn sjúkt, ríkissjóðir margra landa eru reknir með miklum halla og seðlaprentun hefur gjörsamlega farið úr böndunum. Verðbólga er þó ekkert vandamál í augnablikinu vegna þess að veltuhraði peninga er mjög lítill. Það getur breyst mjög skyndilega þegar umsvif aukast.

Bandaríska hagkerfið hefur alla tíð klórað sig út úr efnahagslægðum með meiri neyslu (neytandinn sér um 70% þjóðarframleiðslu) og aukinni veltu á fasteignamarkaði. Í þetta skipti á það eftir að taka fasteignamarkaðinn mörg ár að jafna sig og neyslan á eftir að fara varanlega niður um nokkur prósentustig. Þrálátur viðskipta- og greiðsluhalli við útlönd sýnir að neyslan hefur verið óeðlilega mikil í langan tíma. Þar til nýlega stóð sparnaður heimilanna á núllinu. Fólk mjólkaði fasteignirnar til að viðhalda óraunhæfum lífsstíl, en í dag mjólka fasteignirnar fólkið.

Sparnaður er aftur að aukast og fólk er byrjað að grynna á skuldunum. Það er mjög gott mál þegar litið er til lengri tíma, en afleitt fyrir þá sem eru að búast við hagvexti á næstunni. Það er engin sápukúla í sjónmáli sem hægt er að blása út neitt í líkingu við fasteignabóluna. Kapítula ofeyðslu er lokið og nýtt tímabil sparnaðar er runnið upp. Hlutabréfamarkaður sem stólar á eyðslustig síðustu 20 ára verður fljótlega fyrir miklum vonbrigðum.