vald.org

Nýtt bréf til Alþingismanna—Gunnar Tómasson

24. ágúst 2009 | Gunnar Tómasson

Ágætu alþingismenn:

Í Icesave lánasamningi Bretlands og Íslands segir m.a.:

„Breski tryggingasjóðurinn hefur greitt út tryggingar til meirihluta innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London vegna krafna þeirra á hendur Landsbankanum og Tryggingasjóði innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999 og í staðinn hafa þessir innstæðueigendur Landsbankans í London framselt breska tryggingasjóðnum þessar kröfur.”

Hér er farið með rangt mál.

(a) Umræddar greiðslur voru að frumkvæði brezka tryggingasjóðsins án heimilda í viðkomandi tilskipun Evrópusambandsins (Directive 94/19/EC) og án samþykkis Tryggingasjóðs innstæðueigenda sem var skylt að fylgja lögboðnu ferli 4. gr. laga nr. 98/1999:

„Viðskiptavinir aðildarfyrirtækis skulu senda sjóðnum kröfur sínar skriflega ásamt þeim gögnum sem sjóðurinn metur nauðsynleg. Sjóðurinn tekur ákvörðun, í samráði við Fjármálaeftirlitið, um lengd þess frests sem viðskiptavinir aðildarfyrirtækis hafa til að gera kröfu á sjóðinn. Fresturinn má þó ekki vera styttri en fimm mánuðir í því tilviki þegar viðskiptavinir aðildarfyrirtækis eiga kröfu á sjóðinn í tengslum við viðskipti með verðbréf en eigi lengri en tveir mánuðir þegar innstæðueigendur eiga kröfu á sjóðinn. Ákvörðun um lengd frests skal auglýst í Lögbirtingablaðinu og dagblöðum.”

(b) Fjármálaeftirlitið gaf út formlegt álit sitt um greiðsluþrot Landsbankans þann 27. október 2008 í samræmi við Directive 94/19/EC að slíkt skyldi gert innan þriggja vikna frá greiðsluþroti (6. október 2008). Innstæðueigendur Landsbankans í London áttu því engar lögformlegar kröfur á Tryggingasjóð innstæðueigenda til að framselja brezka tryggingasjóðnum fyrr en í fyrsta lagi tveimur mánuðum síðar, eða 27. desember 2008.

Lagalegar forsendur fyrir kröfu brezka tryggingasjóðsins á Tryggingasjóð innstæðueigenda vegna ‘framsals’ viðkomandi krafna innstæðueigenda Landsbankans í London eru því ekki til staðar.

Í lánasamningi landanna er lágmarksupphæð innstæðutrygginga samkvæmt Directive 94/19/EC, Є20.887, talin jafngilda £16.873, og endurspeglar það gengisskráningu Seðlabanka Íslands þann 27. október 2008. Brezkir viðsemjendur íslenzku samninganefndarinnar virðast því hafa gert sér far um að hlýða ákvæðum Directive 94/19/EC þar sem því var við komið.

(c) Skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt lögum nr. 98/1999 eru skilgreindar í íslenzkum krónum. Samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er „ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenzkum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi”, segir í athugasemdum við viðkomandi lagafrumvarp.

Í lánasamningi Bretlands og Íslands eru krónuskuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta skilgreindar í sterlingspundum. Það jafngildir því að þær séu bundnar við dagsgengi erlends gjaldmiðils, sem er óheimilt að íslenzkum lögum. Hér er um afdrifaríkt lögbrot að ræða, sbr. 12.4% hækkun höfuðstóls brezka lánsins vegna gengisfalls krónunnar frá 27. október 2008 til 21. ágúst 2009.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur