vald.org

Þjóðarskömm

26. ágúst 2009 | Jóhannes Björn

Síðustu þrjár ríkisstjórnir Íslands hafa algjörlega brugðist. Sú sem stjórnaði á árunum fyrir bankahrunið brást glæpsamlega. Eftirlit með fjármálamörkuðum var sama og ekki neitt og alls konar fígúrur komust upp með að þurrausa sjóði landsmanna. Samkvæmt reglum sem allar siðmenntaðar þjóðir starfa samkvæmt þá voru þetta ekki viðskipti. Þetta var ekkert annað en skipulagður þjófnaður.

Eftir að spilaborgin hrundi einkenndust viðbrögð stjórnvalda af máttleysi og dæmalausu skilningsleysi á stöðunni. Það er ljóst að Bretar og Hollendingar beittu svörtum áróðri (black propaganda) gegn Íslandi og stöðvuðu lánafyrirgreiðslur annars staðar frá. Hvort sem við áttum þetta skilið eða ekki, þá vita allir sem hafa lesið sér til um almannatengsl, að fyrsta skrefið í stríðinu við svartan áróður er að ná tökum á umræðunni. Svo lengi sem þú stýrir ekki umræðunni þá heldur óvinurinn áfram að læða inn áróðri og staðan versnar jafnt og þétt.

Það átti að kalla sendiherrann í London heim og benda réttilega á að beiting hryðjuverkalaga gegn banka tryggir 100% að hann fari á hausinn. Þetta á við um alla banka heimsins, vegna þess að kerfið er þannig byggt upp, að bankarnir eru aldrei með nema lítið brot veltunnar í beinhörðum peningum. Næst átti að benda á NATO og spyrja hvers vegna “vinir” okkar væru að kúga okkur. Lykilinn var að stjórna umræðunni frekar en að láta erlenda fjölmiðla mala endalaust um hrunið og að Ísland væri einn alherjar vogunarsjóður. Fyrirsagnir í erlendum blöðum á borð við Ísland segir Breta hafa rústað Icesave með beitingu hryðjuverkalaga og vilja að þeir taki við rústunum hefðu komið sér miklu betur fyrir okkur.

Kreppan er að verða ársgömul og það er ljóst að gamla gengið sem situr við kjötkatlana ætlar að krækja í allt bitastætt á meðan þjóðin sekkur. Smákóngar í skiptanefndum bankanna pukra í reykfylltum bakherbergjum á meðan fólk sem aldrei gerði neitt misjafnt missir aleiguna. Skattgreiðendur eiga þessa banka og það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að allt sem þessar nefndir eru að gera sé birt opinberlega. Breytum reglunum strax og leggjum öll spil á borðið.

Verðtryggð lán eru að gera stóran hluta þjóðarinnar eignalausan og gjaldeyristryggð lán eru jafnvel enn stærri glæpur. Yfirvöld eru svo værukær í þessu máli að maður gæti haldið að þau væru viljandi að storka þjóðinni. Er það virkilega mikilvægara að fella niður skuldir fjárglæframanna heldur en að koma í veg fyrir að heil kynslóð yfirgefi landið? Eða er verið að bíða eftir að almenningur mæti við Alþingishúsið með heykvíslar?

Verðtryggð lán og gjaldeyristryggð eru siðlaus og sennilega ólögleg. Fólk tók þessi lán við ákveðnar aðstæður og allar forsendur hafa síðan breyst. Sú staðreynd að bankakerfið sjálft spilaði fyrst með krónuna í marga mánuði fyrir hrun—og hækkaði þannig lánin með gengisfellingum og vaxandi verðbólgu í kjölfarið—og setti síðan landið á hausinn gerir þessi lán alveg marklaus.

Ef eitthvað á yfirleitt að breytast, þá verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að bankarnir eru gjörsamlega siðlausir. Nýjasta dæmið er barátta þeirra gegn frumvarpi sem bætir stöðu skuldara. Það nægir ekki bankakerfinu að hafa gert fólk gjaldþrota í stórum stíl, heldur vill það líka viðhalda rétti sínum til að ganga að öllum öðrum eigum (og væntanlega launatekjum) þeirra sem missa húsnæði (eða yfirgefa) sem stendur ekki undir skuldum.

Hugleiðum þetta aðeins. Fjölskylda keypti sér hús fyrir 5 árum og borgaði margar milljónir í peningum við undirskrift. Hún hefur borgað stanslaust í 5 ár og átti kannski 20–30 milljóna eignarhlut í húsinu fyrir ári. Næsta sem gerist er að bankakerfið rústar landinu, stelur þannig óbeint öllu sem þetta fólk á og lánin eru meira að segja orðin hærri en nemur söluverði eignarinnar. Bankakerfið er búið að kýla fólkið í jörðina og nú heimtar það að fá að sparka í það líka með innheimtuaðgerðum ef það missir húsið eða yfirgefur.

Samtök fjármálafyrirtækja, þrýstihópur sem berst fyrir því að fólk geti ekki skilað lyklunum og sé áfram í skuldafangelsi, ætti að hengja höfuð sitt í skömm. Einstaklingar sem þetta lið hefur gert eignalausa ætti raunar að snúa við taflinu og krefjast skaðabóta.

Það er full þörf á nýju pólitísku afli á Íslandi. Breiðfylkingu fólks sem annað hvort tekur á vandanum eða neyðir fjórflokkinn til þess að gera það. Við erum komin í tímahrak og það þýðir ekkert lengur að stjórna samkvæmt leikreglum sem leysa ekki vandann.

Málið snýst einfaldlega um að það verður að höggva á hnútinn og gefa hagkerfinu tíma til þess að jafna sig. Okurvextir og verðtrygging eru verðbólguhvetjandi. Þetta er böl sem mergsýgur hagkerfið og sogar til sín allt of mikið fjármagn. Fljótandi dvergkróna er dragbítur á kerfinu. Atvinnuleysi er ekki aðeins böl, heldur líka heimskulegt böl. Hvers vegna að borga fólki fyrir að gera ekki neitt þegar óteljandi verkefni bíða? Sendum þúsundir í að leggja hálendisveg sem skilar feikilegum verðmætum um alla framtíð frekar en að láta fólk á atvinnuleysisbótum glápa á sjónvarp.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og möppudýrin í evrulandi gætu maldað í móinn, en við segjum þeim þá að hér ríki neyðarástand og málið verði endurskoðað þegar skútan er aftur komin á eðlilega siglingu. Ef rammasamningur við Rússa er í höfn þá er ólíklegt að landstjóri AGS eða “vinir” okkar í Evrópu herði þumalskrúfurnar.