vald.org

Raunveruleikinn nálgast

31. ágúst 2009 | Jóhannes Björn

Það er hætt við að haustið verði ekki fallegt á fjármálamörkuðum heimsins. Auglýsingaherferðin sem byrjaði í mars—samstilltur kórsöngur fjölda aðila um endalok kreppunnar—hefur hækkað hlutabréf um allan heim, en nú eru grundvallarstaðreyndir málsins byrjaðar að síast inn hjá vaxandi fjölda einstaklinga og meiriháttar leiðrétting blasir við.

Ástæðan fyrir auglýsingaherferðinni var örvænting og tilraun til þess að fá fólk til þess að eyða peningum, en það var aldrei neitt kjöt á beinunum. Umframframleiðslugeta verksmiðja er enn í dag meiri en hún hefur verið síðan í kreppunni miklu. Verksmiðjur í Japan framleiða 65% mögulegs magns, bandarískar 68%, evrópskar 70% og í mörgum löndum hefur framleiðnin farið niður í 50%. Uppsögnum er hvergi nærri lokið í þessum geira.

Tölur frá síðasta fimmtudegi sýna að útflutningur frá Japan, sem er annað stærsta hagkerfi heimsins, féll enn á ný í júlí. Útflutningur til Bandaríkjanna hefur fallið samtals um 39,5% og til Kína 26,5%. Þetta eru skelfilegar tölur í landi með hagkerfi sem aðallega stólar á útflutning, enda hefur atvinnuleysi ekki verið meira frá stríðslokum.

Það segir sig sjálft að aukin efnahagsumsvif koma strax fram í tölum um vöruflutninga á sjó. Svokallað Baltic Dry Index, sem sýnir hvað það kostar að flytja vörur sjóleiðis, hefur verið að hrapa í samfellt 11 vikur úr 4290 í 2778 síðasta fimmtudag.

Fullyrðingar um endalok kreppunnar í Frakklandi og Þýskalandi eru stórkostlega ýktar. Peningaaustur, tekinn af láni frá næstu kynslóð, hefur búið til gervieftirspurn (Þjóðverjar hafa t.d. niðurgreitt bíla sem eykur sölu tímabundið en dregur úr eftirspurn í framtíðinni), en útflutningsatvinnuvegirnir eru í stórvandræðum. Það er enginn eðlilegur vöxtur í hagkerfum þessara ríkja. Neikvæður hagvöxtur snýr aftur á fjórða ársfjórðungi 2009 eða fyrr.

Sannleikurinn er sá að hagkerfi heimsins tekur ekki við sér fyrr en það bandaríska braggast. Það er langstærst og brennir t.d. 25% orku heimsins. Gallinn við bandaríska hagkerfið er að það byggir allt of mikið á neyslu fólks sem verður að draga saman seglin miklu lengur en flesta hagfræðinga grunar. Eftir 20 ára eyðslufyllerí með viðeigandi skuldasöfnun blasir ekkert annað við en minni neysla og meiri sparnaður.

Skattar sem bandaríska ríkið innheimtir falla hratt og gefa enga vísbendingu um að kreppunni sé að ljúka.

Fjórðungur bandarískra bankastofnanna eru reknar með tapi og vandi kerfisins hefur ekki verið meiri í 15 ár. Það er líklegt að yfir þúsund bankar fari á hausinn á næstu tveim árum. Á öðrum ársfjórðungi 2009 voru 13% fasteignalána í vanskilum (á leið eða komin undir hamarinn), afskriftir vegna greiðslukortaskulda í kringum 10% (nýtt met) og vanskil vegna bílalána að nálgast nýtt met.

Tryggingasjóður bankakerfisins stefnir í vandræði. Grænu súlurnar sýna eignir á hverjum ársfjórðungi og rauða strikið útgjöld. Sjóðurinn á núna 0,22% upp í tryggðar innistæður og verður fljótlega að fá hjálp frá skattgreiðendum.

Á aðeins tveggja ára tímabili, frá 2007 til 2009, hrapaði meðalauður hverrar bandarískrar fjölskyldu (fasteignir, hlutabréf, sparifé, eftirlaunasjóðir o.s.frv.) úr $540.000 í $421.000. Þegar bætt er við vaxandi atvinnuleysi og þverrandi kaupmætti þá er auðvelt að sjá hvers vegna fólk er byrjað að draga úr neyslunni og spara meira. Í augum venjulegs fólks virðast þessar tölur um meðalauð nokkuð háar, en það stafar af því að ríkasta eitt prósent þjóðarinnar á gífurleg auðævi eða um 40% alls þjóðarauðsins.

Eftir að tæknidellubólan sprakk árið 2000 bjargaði bóla á fasteignamarkaði bandaríska neyslumarkaðinum í mörg ár. Ört hækkandi fasteignaverð hefur ótrúlega víðtæk áhrif á hagkerfið. Her sölumanna, lánamiðlara, matsmanna og annarra slíkra sprettur upp. Fleiri hús eru byggð og það kallar á vinnuafl á öllum stigum verksins. Timbur- og sementsala blómstrar. Vegir eru lagðir. Allar tegundir heimilisvéla renna út. Og meira að segja fólk sem keypti á lægra verði áður en æðið byrjaði slær peninga út á húsin sín, sem nú eru metin á miklu hærra verði, endurnýjar þau, ferðast og kaupir flatskjái.

Stundum segja myndir þúsund orð og það á vissulega um myndbandið hér að neðan. Forsaga málsins er sú að kona keypti sér hús í norðurhluta Miami árið 2004 að 2290 Bayview Ln. og borgaði $725.000. Þetta er veglegt hús, 212 m², þrjú svefnherbergi, þrjú baðherbergi og við síki sem liggur út í sjó. Það þurfti þó að endurnýja sundlaugina og bryggjuaðstöðuna, nokkuð sem hækkar verð húsa í svona hverfum um 20–30%. Eldhúsinnréttingin var líka farin að eldast. Á næstu tveim árum náði fasteignaæðið í Flórída stigi algjörrar vitfirringar og helsta tómstundagaman fólks snérist um að monta sig af nýfengnum fasteignagróða. Vinsæll sjónvarpsþáttur heimsótti fólk í fylgd “sérfræðings” sem færði því gleðifréttirnar.

Skoðum þetta dæmi aftur. Konan keypti 2004 fyrir $725.000. Árið 2006 segir “sérfræðingurinn” að verðmæti hússins sé $1,3 milljónir og hún skuli slá út á það til að laga sundlaugina, endurbyggja vegg við bátabryggjuna og kaupa nýja eldhúsinnréttingu. Þetta á að koma verði hússins upp í $1,6 milljónir. Frúin gerði eins og ráðlagt var, sló myndalega út á húsið og endurbætti.

Í dag fær hún á milli $600–$650 fyrir það [samskonar hús að 2351 Bayview Ln. seldist fyrir $650.000 í júní] og verðið er enn á niðurleið. Eftir að hafa bætt nýju láni á húsið er hún um $300.000 í mínus—ekki $700.000 í gróða eins og “sérfræðingurinn” lofaði. Þegar maður margfaldar þetta dæmi með milljónum húsa þá er ekki erfitt að sjá hvers vegna bandaríski neytandinn á ekki eftir að bjarga hagkerfi heimsins á næstunni.