vald.org

Næsta bylting

14. september 2009 | Jóhannes Björn

Mannkynið hefur upplifað nokkrar byltingar á sviði upplýsingatækni og í hvert skipti hefur heimurinn gjörbreyst. Þéttbýliskjarnar þróuðust eftir að menn komust upp á lag með að skrá nauðsynlegar heimildir um eignarrétt og annað. Í borgum Súmera var ótrúlega flókið regluverk “skjalfest” (grafið á steinsívalninga sem var rúllað á mjúkum leir þegar menn vildu lesa innihald þeirra) fyrir yfir 5000 árum.

Prentvél Gutenberg hrinti af stokkunum upplýsingabyltingu sem gjörbreytti heiminum. Venjulegt fólk gat loks lesið Biblíuna og áttaði sig á að prestastéttin hafði heldur betur farið frjálslega með staðreyndir. Það stóð t.d. hvergi í ritningunni að kirkjan hefði heimild til þess að selja fólki miða inn í himnaríki. Kaþólska kirkjan klofnaði í kjölfarið. Prentvélin gaf líka endurreisnarstefnunni byr undir báða vængi og húmanisminn náði fótfestu vegna hennar. Hvergi hafði Gutenberg þó meiri áhrif heldur en á vísindasviðinu, því eftir að byrjað var að gefa út fræðirit í mörgum eintökum gátu vísindamenn í fyrsta skipti viðrað nýjar hugmyndir á breiðum grundvelli og borið saman bækur sýnar án þess að beinlínis hittast.

Þegar fram líða stundir á örugglega eftir að koma í ljós að Netið er jafnvel enn mikilvægari bylting en sú sem Gutenberg stóð fyrir. Í þetta skipti verður spjótunum ekki beint að kirkjunni heldur peningaelítunni og bankakerfinu sem hún stjórnar.

Þegar bankakerfið allt að því hrundi fyrir nokkrum mánuðum—eftir að hafa grætt óstjórnlega á óheiðarlegu braski—þá sýndi elítan svart á hvítu hvaða aðilar raunverulega stjórna þessu kerfi. Tök þeirra á stjórnmálamönnum reyndust heldur ekki síðri. Eðlileg viðbrögð yfirvalda hefðu verið þau að gera stærstu bankana upp og viðurkenna í verki þá augljósu staðreynd að hluta- og skuldabréfaeigendur þeirra voru búnir að tapa stórt. Þannig ganga eðlileg viðskipti fyrir sig. Þess í stað gekk elítan í sameiginlega sjóði fólksins og lét seðlabankana taka við ruslabréfum upp á trilljónir dollara.

Í stað þess að tapa þá hafa stærstu bankarnir verið að sölsa undir sig minni keppinauta með peningum skattgreiðenda. Þetta víxlverkandi graf í New York Times segir alla söguna.

Þarna sjáum við að markaðsverð 29 stærstu banka Bandaríkjanna var samtals 1,87 billjónir (amerískar trilljónir) 9. október 2007. Í mars 2009 var það komið niður í 290 milljarða en er núna 947 milljarðar. Skattgreiðendur eru sem sagt búnir að gefa elítunni nærri $700 milljarða gróða á stuttum tíma og betri samkeppnisaðstöðu sem skilar sér í miklu meiri gróða í framtíðinni.

Fyrir nokkrum áratugum hefði peningaelítan sjálfsagt komist upp með þetta án þess að almenningur skildi hvað var að gerast. Loftfimleikar seðlabankans hefðu að mestu farið fram á bak við tjöldin og fjölmiðlarnir hefðu haldið sig á mottunni. Það er reyndar alveg nýtt—og sennilega vegna líflegrar umræðu á Netinu—að stóru fjölmiðlarnir yfirleitt fjalli um tæknileg útspil seðlabankans. En nú bregður svo við að milljónir manna skilja að auðugasta fólk landsins hefur vald til þess að bjarga eigin fjárfestingum á kostnað margra kynslóða. Þetta situr ekki vel í fólki sem sér fram á kjaraskerðingu, þverrandi kaupmátt og verðlækkun á húsunum sem það keypti.

Upplýsingastreymið á Netinu hefur líka frætt milljónir um eðli nútíma peninga. Peningasköpunin byggir á bókhaldsbrellum og seðlarnir eru ekki tryggðir með gulli eða nokkru öðru. Þeir eru búnir til úr engu. Vaxandi fjöldi er því líka að átta sig á að peningakerfið gerir ríkisstjórnum (hergangaframleiðendum) kleift að heyja styrjaldir sem annars væri ekki hægt að fjármagna. Stríð eru oftast borguð með því að grafa undan gjaldmiðlinum—stela sparifé fólksins.

Aðilar sem rannsaka innri strauma samfélagsins (trend analysis) segja að mikil og vaxandi reiði kraumi rétt undir yfirborðinu í mörgum löndum. Trend Research Institute í Bandaríkjunum gengur svo langt í síðustu spá sinni að gera ráð fyrir víðtækum óeirðum í borgum landsins ekki seinna en 2012. Við sjáum til, en það hlýtur auðvitað að velta töluvert á hagkerfinu hvort þessi spá rætist eða ekki. Fjöldi atvinnulausra einstaklinga sem hefur setið auðum höndum í 27 vikur eða lengur—hópur sem ætti að valda yfirvöldum verulegum áhyggjum—vex með ískyggilegum hraða og nálgast fimm milljónir (rauða strikið sýnir 10 ára meðaltal).

Bankakerfi sem byggir á hreinræktaðri peningaframleiðslu—framleiðir innistæður úr engu—stenst ekki til lengri tíma og sérstaklega ekki ef fámenn klíka getur spilað með kerfið að vild. Vaxandi hópur fólks um allan heim gerir sér fulla grein fyrir þessu, þökk sé Netinu, og þess vegna kemur fólkið til með að rísa upp á einhverju augnabliki. Þá verður nýtt kerfi búið til … eða lögreglu- og hervaldi beitt. Það verða ekki fleiri kostir í stöðunni.

Bankarekstur er lítið annað en vinna við bókfærslu, þ.e. að flytja innistæður frá einum manni til annars. Tilfærslurnar fara fram með tékkum. Tékkar eru gjaldmiðill (ekki lögboðnir peningar). Gjaldmiðill er peningar.

—Sir Edward Holden, yngri, breskur bankaeigandi.

Bankar búa til lánsfé. Það væri skyssa að ætla að lánsfé banka verði til að einhverju teljandi marki vegna innlána í þá.

—Fjórtánda útgáfa alfræðibókarinnar Encyclopædia Britannica, undir fyrirsögninni “Banking and Credit.”

Bankar búa til lánsfé. Það væri skyssa að ætla að lánsfé banka verði til að einhverju teljandi marki vegna innlána í þá.

—Encyclopædia Britannica, 14. útgáfa, þriðja hefti, bls. 48.

Bankarnir geta búið til og afmáð peninga. Lán banka eru peningar. Með þeim peningum framkvæmum við flest viðskipti okkar, ekki með þeim peningum sem við venjulega hugsum okkur peninga.

—Marriner Eccles, fyrrum formaður stjórnarnefndar Federal Reserve System.

… bankalán skapa innistæður. Sköpunin á sér stað þegar andvirði lánsins er lagt inn á reikning viðskiptavinarins, eða, þegar annar háttur er hafður á, þegar skuld eins viðskiptavinar verður innistæða annars.

—Chamber's Encyclopædia, annað hefti (1950), undir fyrirsögninni Banking and Credit

Þegar banki lánar þá býr hann til peninga. Á móti þeirri upphæð sem bætist við eignir hans vegur innlegg sem bætist við skuldir hans. En aðrir lánadrottnar búa ekki yfir þessu dularfulla valdi að skapa sér gjaldmiðil úr engu. Það sem þeir lána verða að vera peningar sem þeir hafa eignast í gegnum viðskipti sín.

—The Art of Central Banking

Magn peninga í umferð breytist aðeins með tilliti til aðgerða bankanna við að auka eða minnka innistæður og fjárfestingar þeirra. Við vitum hvernig þetta gengur fyrir sig. Öll lán, yfirdráttarheimildir og allar fjárfestingar bankanna skapa innistæður, en allar endurgreiðslur lána, yfirdráttarheimilda og sölur bankanna afmá innistæður.

—Reginald McKenna, forseti stjórnarnefndar Midland Bank 25. janúar 1925—skráð í bók hans Post-War Banking.

Hvernig getur banki lánað allt að nífalt meira fjármagn en peningaeign hans segir til um? Kannski er auðveldast að útskýra það með því að segja söguna um gömlu gullsmiðina, sem fengu gull til varðveislu, og gáfu út ávísanir fyrir því. Þessar ávísanir, staðgenglar gullsins, byrjuðu að ganga á milli fólks sem peningar. Þegar gullsmiðirnir sáu þetta, og að fólk handfjatlaði sjálft gullið sjaldan eða vildi það aftur, að því tilskildu að það tryði að það væn öruggt, þá hófu þeir að gefa út pappírsgjaldmiðil sem hægt var að skipta í gull, án þess að eiga gull fyrir honum."

—Anatomy of Credit, eftir Garet Garrett