vald.org

Markaðir á refilstigum

21. september 2009 | Jóhannes Björn

Þegar fasteignabólan var að ná hámarki 2007 sagði seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, að hún hefði sáralítil áhrif á hagkerfið sem slíkt. Ruslabréfin voru heldur ekkert sérstakt áhyggjuefni þegar þau flutu upp á yfirborðið og bankakerfið var stöðugt, sagði seðlabankastjórinn, skömmu áður en Lehman fór á hausinn. Núna segir þyrlu-Ben að kreppan sé mjög líklega yfirstaðin.

En töfralausnir eru ekki til og efnahagslægðin tekur ekki enda þótt kór seðlabankastjóra og hagfræðinga syngi um græna sprota og blóm í haga. Kreppan endar þegar ákveðnar efnahagslegar forsendur eru til staðar og þær eru hvergi í sjónmáli. Jákvæður hagvöxtur í nokkra mánuði (á meðan ekkert rofar til á vinnumarkaði) þýðir aðeins að örvæntingarfullur peningamokstur hefur keypt dálítinn frest.

Bandaríska ríkið eyddi 3000 milljónum dollara til þess að fá fólk til þess að kaupa sparneytnari bíla. Einstaklingar—sem flestir hefðu hvort eð er keypt sér nýja bíla á næstu mánuðum—flýttu sér náttúrulega að taka við $4000 tékk frá ríkinu. Litið til lengri tíma gera svona kúnstir ekkert fyrir hagkerfið nema auka skuldir ríkisins.

Bandaríkjamenn sem nýlega hafa verið að kaupa sér húsnæði, þ.e. þeir sem eru að kaupa í fyrsta skipti eða hafa leigt í þrjú ár, hafa fengið $8000 í gjöf frá ríkinu. Þessa upphæð má nota sem útborgun eða hluta af útborgun. Þessi peningamokstur hefur haft furðu lítil áhrif og aðeins á ódýrustu svæðunum. Allt sem kostar yfir $300.000 er pikkfast.

Fyrir utan spurningar um siðferði þess að láta alla skattgreiðendur beinlínis borga einhverjum hópum peninga þegar þeir kaupa sér bíl eða hús, þá hefur þessi eyðsla ekki lyft hagvextinum nema takmarkað. Bandaríski fasteignamarkaðurinn er líka mikið til búinn að segja sig á sveit og samkvæmt Inside Mortgage Finance þá koma yfir 80% allra nýrra fasteignalána með ríkisábyrgð af einhverju tagi.

Fáar grundvallarstaðreyndir gefa ástæðu til þess að ætla að kreppunni sé að ljúka og hækkanir á kauphöllum heimsins virðast flokkast undir það sem gárungarnir á Wall Street kalla sucker´s rally. Menn eru búnir að verðleggja hlutabréf allt of hátt vegna þess að þeir halda að atburðarás síðustu áratuga endurtaki sig og einkaneyslan æði bráðum upp eins og hún gerði eftir aðrar efnahagslægðir eftirstríðsáranna. Markaðurinn hefur ekki enn áttað sig á því að við erum að upplifa nýjan raunveruleika í gjörbreyttu hagkerfi.

Til að byrja með þá er lítill áþreifanlegur uppgangur í hagkerfinu þessa dagana. Sumar tölur líta aðeins betur út á yfirborðinu, en ávinningurinn er smávægilegur miðað við hvað hann hefur kostað í beinhörðum peningum. Í löndum eins og Bretlandi og Bandaríkjunum er þetta lánsfé sem erfitt verður að endurfjármagna á skikkanlegum kjörum. Hrikalegur halli ríkiskassa fjölda landa á eftir að sjá til þess að tími ódýrra peninga endar.

Ef þyrlu-Ben hefur rétt fyrir sér og við gefum okkur að bandaríska hagkerfið sé nú þegar að rétta úr kútnum, þá hljóta lán bankakerfisins til atvinnuveganna að hafa aukist að sama skapi. Þannig hefur kerfið ávalt virkað. En tölurnar benda í þveröfuga átt.

Heimsverslunin tekur ekki stökk upp á við fyrr en bandaríska hagkerfið byrjar aftur að vaxa. Markaðurinn reiknar með að bandarískir neytendur—sem þar til nýlega keyrðu 70% hagkerfisins—muni brátt bjarga málunum eins og þeir hafa gert eftir allar efnahagslægðir síðan 1945. Ný skoðanakönnun staðfestir hins vegar það sem marga grunaði. Hlutirnir hafa breyst. Aðeins 8% þjóðarinnar hefur hug á að eyða meiri peningum á næstunni, en 92% ætlar að halda í horfinu eða spara meira. 33% fólksins, sem þegar hefur dregið saman seglin, ætlar að spara enn frekar.

Atvinnuleysi er enn að aukast og í mikilvægasta fylki landsins, Kaliforníu, er það komið í 12,2% og þegar allt er talið með (t.d. fólk í hlutastarfi sem vill full störf)—23%! Vanskil á greiðslukortaskuldum í Bandaríkjunum eru að slá fyrri met (greiðslukort voru ekki til í kreppunni miklu) og ástandið á enn eftir að versna á næstu mánuðum. Afskriftir Bank of America eru komnar í 14,54%.

Það er augljóst að seðlabankastjórar og fleiri eru að reyna að tala líf í markaðina. Þeir eru að vona að hópsálin kaupi nógu mikið til þess að koma keðjuverkun neyslu og framleiðslu í gang. Þeir átta sig ekki enn á því að þótt gjafavextir hafi allar götur síðan 1945 nægt til þess að auka neysluna eftir efnahagslægðir, þá breyttist eitthvað í þetta skipti. Skuldasúpan fór yfir ákveðin mörk og kerfið klikkaði. Beljurnar reyndust þurrmjólkaðar.

Spár um nýja uppgangstíma geta verið hættulegar vegna þess að misvitrir pólitíkusar fara að gera ráð fyrir auknum þjóðartekjum og haga stjórnsýslunni samkvæmt því. Hvernig lítur t.d. IceSave samningurinn út ef við sjáum lítinn sem engan hagvöxt næstu fimm ár? Þetta er ekki rétti tíminn til þess að eyða fyrirfram ímynduðum tekjustofnum.

Raunverulega hagkerfið—ekki veröldin á Wall Street eða pappírsheimur bankanna—sýnir lítið lífsmark og flest línurit dansa á botninum. “Minna vont er meira betra,” segja talsmenn nýrra uppgangstíma, en það eru haldlítil rök. Ágætt dæmi um þessa lógíg voru hávær húrrahróp hagfræðinga yfir þeirri staðreynd að hafist var handa við að reisa fleiri íbúðarhús í Bandaríkjunum í ágúst heldur en júlí. Fasteignakreppan var búin … eða þannig.