vald.org

Áframhaldandi okurvextir

25. september 2009 | Jóhannes Björn

Seðlabankinn heldur áfram að reka nagla í líkkistuna. Á meðan flest fyrirtæki á Vesturlöndum hafa aðgang að ódýrum peningum—og ekki veitir þeim af á þessum krepputímum—þá verða helsærð fyrirtæki á Íslandi að borga yfir þriðjung veltunnar í okurvexti. Aðeins hagfræðingum á framfæri ríkisins dettur til hugar að reyna að láta slíka formúlu ganga upp.

Dæmið væri kannski skiljanlegt ef hér væri verið að reyna eitthvað í fyrsta skipti, en margra ára reynsla hefur sýnt okkur að vaxtaokrið virkar ekki. Okurvextir kynda undir verðbólgu í litlu hagkerfi vegna þess að innlend verðsamkeppni er allt of lítil. Okurvextir styrkja heldur ekki gjaldmiðilinn. Þeir láta umheiminn aðeins vita að hér bjátar eitthvað hræðilega mikið á.

Eitt tæknilegt atriði í þessu sambandi er líka grátbroslegt. Vegna þess að bankakerfið er uppspretta allra peninga þá verða þeir sem borga vexti af lánum að sækja nýja peninga í bankakerfið. Okurvextir tryggja því annað hvort áframhaldandi verðbólgu vegna þess að meira peningamagn fer í umferð eða frekari gjaldþrot þegar menn springa á limminu eða er neitað um meiri lán. Þetta er vítahringur þar sem allir tapa.

Íslensk hagstjórn er yfirhöfuð á villigötum.

Verðtrygging lána er siðlaus og sennilega ólögleg vegna þess að aðeins annar aðilinn er látinn taka alla áhættu af því sem kann að fara úrskeiðis í framtíðinni. Verðtryggingin er ekki eðlilegt hagstjórnartæki og þess vegna hefur hún skapað mjög óvenjulegt ástand. Nokkrir menn braska með sjóði landsmanna og næst verður þriðjungur þjóðarinnar eignalaus. Þetta nær náttúrulega ekki nokkurri átt.

Enn annað gæludýr Seðlabankans, fljótandi dvergkróna, er stöðugur dragbítur á þjóðinni. Dýrmætum gjaldeyri er sóað til þess að verja hana og sveiflurnar eru stöðug ógn við hagkerfið. Það er augljóst að íslenska hagkerfið er allt of lítið til þess að gera út krónu á mörkuðum þar sem spákaupmenn velta stjarnfræðilegum upphæðum eða að meðaltali $3,98 bandarískum trilljónum á dag. Íslensku bankarnir gátu meira að segja spilað rækilega með krónuna 2008. Hvað geta risasjóðir úti í heimi þá gert?

Fjórði riddari eyðingarinnar birtist í líki gengistryggðra lána. Þau eru jafnvel enn siðlausari en verðtryggðu lánin og nær örugglega kolólögleg. Það er óskiljanlegt hvers vegna stjórnvöld hafa ekki fyrir löngu síðan gripið í taumana og leiðrétt þetta óréttlæti. Tíminn er versti óvinurinn þegar menn kljást við svona mál og með hverjum deginum sem líður er erfiðara að snúa við.

Það verður að höggva á hnútinn. Stórlækka stýrivexti, afnema verðtryggingu lána, festa gengi krónunnar við körfu gjaldmiðla og breyta gengistryggðum lánum afturvirkt. Við eigum að slá skjaldborg um hagkerfið og verja það fyrir erlendum spákaupmönnum, útsendurum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins—sem viljandi eða óviljandi eru að eyðileggja hagkerfið—og öðrum handrukkurum.

Stefnan sem nú er í gangi stenst engan veginn og á aðeins eftir að kalla yfir okkur miklu fleiri gjaldþrot og vaxandi landflótta. Afdankaðar kenningar um háa stýrivexti og gengisfyrirkomulag sem gefur spákaupmönnum peninga gildir ekki lengur.

Það er kominn tími til að gægjast út úr boxinu.