vald.org

Raunverulegar skuldir og óraunverulegar

1. október 2009 | Jóhannes Björn

Margir Íslendingar tala um skuldbindingar þjóðarinnar gagnvart Bretum og Hollendingum eins og hér sé siðferðismál á ferðinni. Það er vissulega virðingarvert þegar þjóðir eða einstaklingar kappkosta að standa í skilum, en í þessu tilfelli er málið ekki alveg svo einfalt. Þjóðin sem slík ber enga ábyrgð á ofþenslu banka út um allan heim á árunum fyrir hrun eða hvernig nokkrir Íslendingar notfærðu sér þetta ástand. Skuldir sem eru framleiddar með bókhaldsaðferðum í bankakerfinu eða skuldabréfavafningum hjá braskdeildum peningafyrirtækja sitja heldur alls ekki við sama borð og aðrar skuldbindingar. Eins og flest peningaævintýri á árunum fyrir 2007 þá var íslenska bankaútrásin upphaflega fjármögnuð með froðu—peningum sem risabankar og braskfyrirtæki unguðu út með því að trekkja upp ruslabréf.

Þegar fyrirtæki eða einstaklingar lána peninga eru það verðmæti sem þessir aðilar hafa eignast í gegnum viðskipti eða vinnu. Þau kostuðu blóð svita og tár. Bankakerfið lifir hins vegar á því að skapa nýjar skuldir í kerfinu og græðir á vöxtunum. Frekar en að hugsa um þetta kerfi sem fjármagnstilfærslur frá einum aðila til annars, þá er miklu nákvæmara að sjá það fyrir sér eins og blöðru sem ýmist er blásin upp eða hleypt úr. Fyrir þessa síðustu kreppu var allt of mikið blásið í blöðruna út um allan heim (lán veitt sem sköpuðu innistæður) og núna er verið að hleypa úr henni, t.d. með verðhruni fasteigna alls staðar.

Kerfi sem framleiðir skuldir ber töluverða ábyrgð þegar boginn er spenntur of hátt. Þeir sem bjuggu til allt þetta fjármagn græddu óskaplega á meðan vel gekk og eiga því líka að taka skellinn þegar syrtir í álinn. Viðvaningarnir sem ráku íslensku bankana á tímabilinu fyrir Icesave-glæpinn gerðu það samkvæmt formúlu sem reynslan hefur sýnt að tryggir gjaldþrot á einhverjum punkti. Skammtímalán voru notuð til þess fjármagna lengri tíma fjárfestingar. Þessi glannaskapur lá ljós fyrir og því í hæsta máta óeðlilegt að veita víkingunum öll þessi lán. Dópsalinn og neytandinn voru báðir sekir.

Sú einkennilega hugmynd er líka furðu áberandi að allir landsmenn beri einhvern veginn ábyrgð á hruninu. Við stjórnuðum kerfinu ekki rétt, segja þessar raddir, eftirlit vantaði, almenningur tók þátt í eyðslufylleríinu o.s.frv. Þetta eru fáránleg rök vegna þess að það var stanslaust logið að fólki og aðeins örfáir aðilar vissu hvað var raunverulega að gerast. Hinn almenni borgar ber enga ábyrgð á hruninu og á heldur ekki að láta hreppa sig í skuldafangelsi án þess að veita viðnám.

Skilyrðislaus uppgjöf íslenskra stjórnvalda fyrir Bretum og Hollendingum er óskiljanleg. Hvers vegna var aldrei leitað til þriðja aðila til þess að miðla málum eða dómstólaleiðin reynd? Hvað var það sem virtist lama stjórnvöld strax í upphafi? Það er hræðilegt til þess að hugsa, en einfaldasta skýringin er sú (nema að getuleysið sé algjört) að allt of margir pólitíkusar hafi eitthvað að fela og það sé þægilegra fyrir þá að setja þjóðina í áratuga þrældóm heldur en að opna ormagryfjuna. Dómsleiðin kallar væntanlega á tæmandi rannsókn þar sem ekki verður komist hjá óþægilegum spurningum lögfræðinga.

Hér næst aldrei þjóðarsátt ef mikilvægasta mál í sögu lýðveldisins verður afgreitt eins og prívatmál í reykfylltum bakherbergjum. Það verður að hreinsa andrúmsloftið og leggja allar staðreyndir á borðið. Hvaða einstaklingar í stjórnkerfinu fengu kúlulán eða aðra óeðlilega fyrirgreiðslu hjá útrásarvíkingunum, beint eða í gegnum sjálfseignarfélög, og hvaða upphæðir erum við að tala um? Hvað hafa skiptanefndir bankanna, starfsmenn á launum hjá skattgreiðendum, verið að gera? Hvar eru nákvæmir listar yfir alla aðila sem hafa fengið skuldir afskrifaðar ásamt tæmandi útskýringum á hvers vegna?

Íslenskir stjórnmálamenn hafa tilhneigingu til að hegða sér eins og danskir embættismenn í kringum 1900. Sem stétt eru þeir andlýðræðislegir og hrokafullir. Þeir hika ekki við að halda mikilvægustu upplýsingum frá fólkinu. Raforkuverð til erlendra fyrirtækja—hlutur sem varðar alla framtíðaruppbyggingu landsins—er leyndarmál. Gamlir samningar við Alþjóðabankann, sem mótuðu atvinnustefnuna í marga áratugi, eru líka leyndarmál. Annað er í sama dúr.

Hér verður mikið að breytast ef mönnum er full alvara í þeim ásetningi að endurreisa landið. Gamla launhyggjan verður að hverfa og það verður að hrista duglega upp í embættismannakerfinu. Annað hvort verður hér gjörbreytt kerfið eða hálfgerð skálmöld og gífurlegur landflótti. Það er búið að ganga eins nálægt réttlætisvitund fólks og mögulegt er.