vald.org

Gunnar Tómasson—Svar

22. október 2009 | Gunnar Tómasson

Háttvirtur alþingismaður Birgitta Jónsdóttir.

Þú spyrð hvernig ég túlki „svör Mark Flanagan varðandi skuldastöðu okkar—að við munum ekki eiga í vandræðum með þessa miklu skuldastöðu.”

Svarið við þessari lykilspurningu er margslungið en felst milli lína í svörum framkvæmdastjórnar AGS í gegnum Mark Flanagan, en þar les ég m.a. eftirfarandi atvikarás:

I. Hrun bankakerfisins fyrir ári kom Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og Evrópusambandinu (ESB) í erfiða stöðu. Aðkoma þeirra að lausn efnahagsvanda Íslands varð í orði kveðnu að samræmast yfirlýstum hugsjónum þeirra* án þess að stangast á við hefðbundna útfærslu þeirra í praktískum leikreglum.

II. Í þessu sambandi endurspegluðust yfirlýstar hugsjónir AGS og ESB í „umsömdum viðmiðum” sem aðilar málsins lýstu sig vera sammála í nóvember 2008 að skyldu ráða aðkomu þeirra að aðgerðaáætlun alþjóðasamfélagsins og íslenzkra stjórnvalda sem hér segir:

1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/EB.

Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

2. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.

3. Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.

III. AGS var því nauðbeygt til að taka afstöðu til þess í málsgögnum sem lögð voru fyrir fram við umfjöllun framkvæmdastjórnarinnar um lánabeiðni Íslands sl. nóvember hvort aðgerðaáætlun AGS samrýmdist fyrirsjáanlegu skuldaþoli íslenzka þjóðarbúsins:

Þar segir m.a.: „Erlendar skuldir verða enn geysimikill óvissuþáttur—ekki síst hvað gengið snertir. Frekara gengisfall um 30% ylli því að hlutfall skulda mundi snarhækka (og færi upp í 240% af vergri landsframleiðslu árið 2009) og yrði það vitaskuld ósjálfbært.“ („External debt remains extremely vulnerable to shocks—most notably the exchange rate. A further depreciation of the exchange rate of 30 percent would cause a further precipitous rise in the debt ratio (to 240 percent of GDP in 2009) and would clearly be unsustainable.“).

IV. Við praktíska útfærslu yfirlýstra hugsjóna AGS og ESB, m.a. í sambandi við Icesave-málið, vill svo til að fyrirsjáanlegu skuldaþoli íslenzka þjóðarbúsins er gróflega misboðið:

IMF Survey online: Will Iceland be able to repay its massive debt?

Flanagan: Iceland’s total external debt is expected to peak at about 310 percent of GDP while gross public debt will peak at around 135 percent of GDP. The external debt figure is much higher than initially appreciated in the aftermath of the crisis. The new number reflects better information about how residual banking sector liabilities are divided between residents and non-residents, and about corporate sector debt.

While the overall debt burdens are high, they are, in our view, sustainable. Let me explain why.

V. Ef ofangreind 310% skuldastaða miðast við núverandi krónugengi USD 1 = 125 IKR þá er hún ekki fyllilega sambærileg við 240% hlutfallið í umsögn AGS í nóvember sl. sem miðaðist við 30% hækkun krónuverðs dollars úr 135 IKR um miðjan nóvember í 175 IKR.

Sambærilegt hlutfall fæst með því að margfalda 310 með 175/125 = 434%.

VI. „The external debt figure is much higher than initially appreciated in the aftermath of the crisis,” segir Flanagan og vísar til þess mats AGS að erlend skuldastaða Íslands í árslok 2009 myndi jafngilda 160% af vergri landsframleiðslu.

Hér er komið að kjarna málsins: Staða AGS í alþjóðasamfélaginu helgast af útfærslu sjóðsins á „law and moral authority” þegar yfirlýstar hugsjónir stangast á við útfærslu þeirra í reynd, eins og t.d. í samskiptum Íslands við AGS og ESB í kjölfar bankahrunsins í október 2008.

Að láta sem hækkun fyrirsjáanlegrar skuldastöðu þjóðarbúsins úr „augljóslega óviðráðanlegum” 240% í augljóslega „viðráðanleg” 434% er í mótsögn við „law” (stofnsamning) og „moral authority” sem stofnanir (AGS og ESB) og einstaklingar (innan sem utan AGS, ESB og Alþingis) ávinna sér með virðingu fyrir lögum og rétti.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

* Sbr. umsögn Jacques de Larosière, fyrrverandi framkvæmdastjóra AGS, í eina tíð að staða AGS í alþjóðasamfélaginu helgaðist af „law and moral authority.