vald.org

Rannsóknarréttur fólksins

29. október 2009 | Jóhannes Björn

Stjórnsýsla íslenska lýðveldisins einkennist af pukri og launhyggju. Þessi hræðilega hefð hófst þegar völdum gæðingum úr röðum vissra stjórnmálaflokka var úthlutað einokunaraðstöðu á Miðnesheiði og víðar þar sem hægt var að mjólka bandaríska herinn. Þetta fyrirkomulag myndaði fljótlega ákveðinn kúltúr launhyggju, sem alla tíð síðan hefur legið eins og mara á þjóðinni.

Þegar pólitíkusar komast upp með að halda mikilvægum upplýsingum leyndum þá gerast venjulega hræðilegir hlutir. Áherslurnar breytast þannig að hagsmunir innvígra aðila verða mikilvægari en hagsmunir þjóðarinnar. Stóriðjustefnan er lýsandi dæmi um þetta. Verktakar og aðrir hagsmunaaðilar keyra áfram áætlun sem allir hlutlausir einstaklingar sjá að gengur ekki upp. Þetta brjálæði heldur áfram ár eftir ár, aðallega vegna þess að stjórnvöld komast upp með að halda söluverði raforkunnar leyndu. Erlend álfyrirtæki vita nákvæmlega á hvaða verði íslenska orkan er seld. Það er eingöngu verið að halda þessum upplýsingum frá íslensku þjóðinni vegna þess að sannleikurinn myndi strax enda þennan sorglega kafla í sögu þjóðarinnar.

Stóriðjustefnan var mótuð í reykfylltum bakherbergjum af hagsmunaaðilum sem lengi höfðu stundað pukur og tekið ólýðræðislegar ákvarðanir. Mikilvægar staðreyndir, t.d. raforkuverðið og stefnumótandi samningar við Alþjóðabankann, komu skattgreiðendum einfaldlega ekki við. Nú virðist tímabil miklu hærra orkuverðs í heiminum skammt undan og Ísland stefnir í þá stöðu að þurfa að flytja inn miklu dýrara eldsneyti eftir nokkur ár á meðan innlenda orkan verður seld á spottprís.

Eins og “Jónsi” segir í athugasemd við grein á Eyjunni hefur þróunin verið eitthvað á þessa leið:

Íslendingar eru eins og dópaðar mellur. Þegar Bretinn kom og síðan Kaninn þá lagðist landinn í hermangið og seldi sig. Þegar kaninn gafst upp þá fóru Íslendingar að hórast í bönkunum og það endaði með að þeir misstu allt niður um sig og stóðu berrassaðir fyrir framan allan heiminn.

Nú er þrautalendingin að selja sig í stóriðju og álmang.

Það vantar útlenda fjárfesta til að “fylla upp í öll götin” á Fjallkonunni.

Þótt tugþúsundir Íslendinga hafi verið gerðir eignalausir þá heldur leynimakkið áfram. Hvar eru nákvæmir listar yfir alla pólitíkusa sem fengu kúlulán og aðra óeðlilega fyrirgreiðslu frá glæpagenginu sem setti landið á hausinn? Hvers vegna fær fólkið sem verður að borga fyrir glæpinn ekki nákvæmar upplýsingar um hvað bankarnir eru að afskrifa? Hvernig á land með ónýtan gjaldmiðil að borga skuldir upp á 310% af þjóðarframleiðslu (nýjasta talan en ekki sú síðasta) í erlendri mynt á vöxtum sem tvöfaldar höfuðstólinn á 13 árum? Þeir sem halda að Ísland verði komið með evru eftir örstuttan tíma og bjargi sér þannig ættu að hugsa málið upp á nýtt. Við eigum langt í land með að uppfylla sett skilyrði og skuldaklafinn gerir okkur enn erfiðara um vik.

Kannski er eina úrræðið að hugsandi Íslendingar taki höndum saman og stofni óháð félag, Rannsóknarrétt fólksins, sem miskunnarlaust fer ofan í saumana á öllu svínaríinu. Ef ekkert uppgjör fer fram þá getum við bókað að leynilýðræðið heldur sínu striki og röð spillingarmála flýtur upp á yfirborðið á næstu árum.

Umburðarlyndi sem gengur of langt er ekkert annað en sinnuleysi.