vald.org

Bankar með betlibauk

6. nóvember 2009 | Jóhannes Björn

Breskir skattgreiðendur byrjuðu líðandi viku með því að ausa peningum í Royal Bank of Scotland [RBS] og Lloyds—eina ferðina enn. Í þetta skipti runnu 40.000 milljónir sterlingspunda í svartholið ásamt ríkistryggingu sem dekkaði 282 milljarða punda af eitruðum lánum.

Síðast þegar skattgreiðendur punguðu út 45,5 milljörðum punda til þess að bjarga þessum bönkum (RBS fékk 20.000 milljónir punda og Lloyds 25.500 milljónir) þá gerðu stjórnendur þeirra sér lítið fyrir og borguðu völdum starfsmönnum himinháa bónusa! Þessi hegðun kom mörgum spánskt fyrir sjónir þannig að í þetta skipti komu fúlgurnar með því skilyrði að enginn hátekjumaður fengi bónus. Illar tungur herma hins vegar að farið verði í kringum þessi “höft” með því að bjóða völdum starfsmönnum upp á kauprétt hlutabréfa og frestun bónusgreiðslna. Alla vega var stjórnarformaður RBS ekki allt of hress yfir nánasarhætti ríkisins þegar hann sagði: “Hins vegar þjónar það hagsmunum skattgreiðenda best ef RBS getur haft hæft fólk í vinnu sem er samkeppnishæft á þessum markaði.”

Sem sagt, það þarf að borga aulunum sem settu bankann á hausinn stórfé til þess að halda þeim í vinnu!

Yfir höfuð virðast Bretar annars vera komnir í vonlausa stöðu. Eftir að hafa nýlega bókstaflega prentað 225 milljarða punda var á dögunum tilkynnt að aðrir 50 milljarðar væru að fara í gegnum prentvélarnar. Orðið “prentað” er notað hér til þess að skilgreina aðgerðir seðlabankans sem auka peningamagn í umferð með óeðlilegum aðferðum. Dæmi um þetta eru kaup seðlabankans á langtíma ríkisskuldabréfum sem fjármagna halla ríkissjóðs. Á venjulegum tímum eru þessi bréf keypt af fólki eða fyrirtækjum fyrir peninga sem þegar eru í umferð. Sala þeirra er því ekki verðbólgumyndandi og tekur jafnvel peninga úr umferð (þar til ríkið eyðir þeim). Þegar seðlabanki hins vegar kaupir fimm eða tíu ára ríkisskuldabréf er hann beinlínis að “prenta” peninga og afleiðingarnar geta verið skelfilegar þegar veltuhraði fjármagnsins eykst aftur.

Ástandið á breskum fjármálamarkaði bendir til þess að bankakreppan í heiminum sé enn í fullum gangi og björgunaraðgerðir seðlabanka og ríkisstjórna séu ekki að leysa vandann. Það er í sjálfu sér rökvilla að halda að auknar skuldir leysi vanda sem varð til vegna þess að kerfið framleiddi allt of mikið af skuldum til að byrja með. Í besta falli er verið að kaupa sér frið í einhvern tíma.

Ýmislegt bendir til þess að bandaríska bankakerfið verði aftur í hnút ekki seinna en á fyrsta ársfjórðungi 2010. Þrátt fyrir peningamokstur í kerfið lána bankarnir allt of lítið, sem aftur bendir til þess að staða þeirra sé miklu verri en gefið er upp. Ákveðin hegðun bankamanna vekur líka upp grunsemdir um að snaran sé farin að þrengja að.

Einn stórbanki sem þarf þó ekki að kvarta er Goldman Sachs, en ógeðfelld viðskipti hans á liðnum árum eru alltaf að koma betur í ljós. Á árabilinu 2006—2007 seldi Goldman ruslabréf fyrir $40 milljarða. Þetta voru skuldabréfavafningar sem voru auglýstir sem pottþétt fjárfesting (AAA) og seldir út um allan heim. Á bak við þetta rusl voru yfir 200.000 fasteignalán í íbúðarhúsnæði sem var dæmt til þess að hríðfalla í verði (þessi síða spáði því fyrir 2006) og Goldman gerði sér fulla grein fyrir því.

Á meðan bankinn var að lofsyngja þessa pappíra og pranga inn á viðskiptavini sína—og viðskiptin voru oft látin ganga í gegnum aflandseyjar í skattaparadís til að fela slóðina fyrir bandaríska fjármálaeftirlitinu—veðjaði hann á móti markaðinum með skortsölum og græddi milljarða á hruninu!

Þannig gengu kaupin fyrir sig á eyrinni. Bankakerfið græddi hundruð milljarða á ruslabréfum og setti hagkerfi heimsins á hausinn. Gjaldþrota bankar fengu því næst hundruð milljarða dollara frá seðlabönkum og skattgreiðendum. Hluti peninganna fór í að borga skussunum í bönkunum stjarnfræðilega bónusa. Hluthafarnir og handhafar skuldabréfa í þessum stofnunum græddu líka stórt. Enn þann dag í dag er bönkunum leyft að fela stórfellt tap í bókhaldinu og önnur bankakreppa er því líkleg.

Allir nema elítan stórtöpuðu þegar kerfið hrundi 2008 og í næstu umferð voru hlutabréfamarkaðirnir kjaftaðir upp. Sölumennirnir segja að kreppunni sé lokið og hagkerfið sé aftur byrjað að vaxa. Þetta er mjög villandi áróður vegna þess að miðað við peningaausturinn þá hefur hagkerfið varla haggast og atvinnuleysi er víða meira en það hefur verið síðan í kreppunni miklu. Það er enginn vandi að kreista fram smá hagvöxt með því að ausa trilljónum í bankakerfið og gefa milljónum manna peninga til þess að kaupa sér húsnæði eða bíl—allt með peningum sem eru framleiddir úr engu í formi nýrra skulda—en það er eins og að halda á sér hita með því að pissa í skóinn. Annað hvort snarhækka vextir þegar endurfjármögnun skuldanna keyrir úr hófi eða seðlabankar fjölda landa neyðast til þess að fjármagna sukkið og verðbólgan æðir upp. Þetta sjá margir og þess vegna hækkar gullverðið stöðugt þrátt fyrir litla verðbólgu í augnablikinu.

Það er einn sérstakur veikleiki sem gerir áróðursmeisturum kleift að draga fólkið endalaust á asnaeyrunum. Fólk almennt hefur tilhneigingu til þess að trúa stórlygum. “Ef Víetnam fellur hrynja lýðræðisríki Asíu eins og dómínó” … “Saddam Hussein lumar á atómsprengju.” … “Kaupið hlutabréf því nýtt blómaskeið er í uppsiglingu.” Dæmin eru endalaus.

Einfaldleiki fólksins gerir það frekar að fórnarlömbum stórlygi heldur en smálygi, vegna þess að það sjálft lýgur stundum um smáatriði, en myndi skammast sín fyrir að grípa til meiri háttar blekkinga. Það hvarflar aldrei að því að bera risalygar á borð fyrir aðra og það trúir því ekki að aðrir sýni slíka ósvífni. Jafnvel þótt staðreyndir málsins bendi augljóslega til þess að sú sé raunin, þá fyllist það efasemdum og heldur áfram að trúa að það sé einhver önnur skýring á málinu.

—Adolf Hitler, Mein Kamph