vald.org

Ímynduð uppsveifla

11. nóvember 2009 | Jóhannes Björn

Sjaldan hafa hlutabréfamarkaðir heimsins verið í verra jarðsambandi við raunveruleikann. Á sama tíma og atvinnuleysi eykst og ráðstöfunartekjur heimilanna rýrna, auglýsa sölumenn á verðbréfamörkuðum væntanlega uppsveiflu og miklu hærra verð hlutabréfa. Þetta er farið að minna á gamlan brandara sem stundum er sagður um hagfræðinga.

Flugvél brotlenti á lítilli eyðieyju og þrír menn lifðu af slysið—eðlisfræðingur, verkfræðingur og hagfræðingur. Ekkert óx á eyjunni sem hægt var að leggja sér til munns, en svo vel vildi til að stór hluti farmsins sem lá í brakinu var dósamatur. Þegar þremenningarnir ætluðu að næra sig kom hins vegar í ljós að það var enginn dósaskeri um borð. Þá hófust miklar bollaleggingar og eðlisfræðingurinn velti því fyrir sér hvort hægt væri að safna saman gleraugum látinna farþega og búa til linsu sem safnaði sólarljósi og myndaði geisla sem gæti skorið dósirnar upp. Verkfræðingurinn taldi best að reikna út rétta sveiflu og láta dósirnar skella á kletti, þannig að þær opnuðust en innihaldið spýttist ekki í allar áttir. Hagfræðingurinn hlustaði óþolinmóður á þessar pælingar en baðaði loks út öllum öngum og hrópaði himinlifandi: “Ég er með lausnina. Gerum ráð fyrir dósaskera!”

Til þess að réttlæta verð bandarískra hlutabréfa—en sá markaður teymir alla aðra nema kannski þann kínverska—þá verða vitringarnir á Wall Street að gera ráð fyrir að miklir uppgangstímar séu í uppsiglingu. Vinsæl leið til þess að meta verðgildi hlutabréfa er svokallað P/E Ratio, sem sýnir hlutfall verðs hlutabréfa miðað við tekjur viðkomandi fyrirtækis. Eðlilegt hlutfall fer mikið eftir fyrirtækjum, gamall bílaframleiðandi ætti t.d. að vera með lægra hlutfall en fyrirtæki sem stundar miklar rannsóknir, en reglan er sú að hátt P/E Ratio bendi til þess að hlutabréfin séu of dýr. Síðan árið 1900 hefur hlutfall S&P 500 (meðalhlutfall 500 fyrirtækja sem verslað er með í kauphöllinni í New York) rokkað frá 4,75 upp í 44,20. Þann 30. október 2009 var þetta hlutfall 137,98!

S&P 500 Statistics as of October 30, 2009
Total Market Value ($ Billion) 9,124
Mean Market Value ($ Million) 18,248
Median Market Value ($ Million) 7,635
Weighted Ave. Market Value ($ Million) 75,767
Largest Cos. Market Value ($ Million) 344,431
Smallest Cos. Market Value ($ Million) 642
Median Share Price ($) 31.800
P/E Ratio* 137.98
Indicated Dividend Yield (%) 2.09

*Based on Reported Earnings (heimild).

Hvernig svara sölumenn sem koma fram í viðskiptaþáttum bandarískra sjónvarpstöðva svona beinhörðum staðreyndum. Jú, þeir sega að hlutfallið sé ekki nema 17 ef maður gerir ráð fyrir væntanlegum tekjum fyrirtækjanna!

Ef fyrirtækin eru almennt rétt í þann mund að fara að græða vegna meiri umsvifa, en ekki eins og þau hafa verið að gera að undanförnu—reka sem flesta sem hafa mannsæmandi laun—þá hljóta þau að vera að stækka og endurbæta starfsemina. Til þess þarf aukið fjármagn með tilheyrandi lánalínum. En bankar eru ekki að lána:

Til þess að selja vörur eða þjónustu þarf viðskiptavini og í nútíma hagkerfi fá þeir lán til þess að versla. En bankakerfið er að draga úr útlánum og þá sérstaklega skuldum sem stöðugt eru endurnýjaðar, eins og t.d. á greiðslukortum (bláa strikið). Rauða strikið sýnir hvernig föst lán hafa þróast.

Atvinnuleysi er að aukast í Bandaríkjunum og fór nýlega í 10,2%. En ef fólk sem er búið að gefast upp við að leita sér að vinnu eða vinnur hlutastörf (og vill fulla vinnu) er reiknað inn í dæmið, þá er atvinnuleysið 17,5%. Ekki beint tilvísun á aukna arðsemi fyrirtækja á Bandaríkjamarkaði. Skelfilegast af öllu eru þó tölur um einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir í 27 vikur eða lengur (nærri 5.6 milljónir).

Flest fylki Bandaríkjanna eru í fjárhagserfiðleikum og sum, eins og t.d. Kalifornía, ramba á barmi gjaldþrots, en talið er að atvinnuleysissjóður fylkisins verði rekinn með nær $30 milljarða halla 2011. Þetta dregur bæði úr atvinnu og neyslu. Eins og sést á rauðu línunni á næsta grafi eru tekjur sem renna til fylkjanna vegna skattheimtu í frjálsu falli (bláa línan sýnir breytingar á hagvexti landsins).

Miðað við aðrar efnadagslægðir síðan 1948 þá er yfirstandandi kreppa nú þegar sú versta og atvinnuleysið slær öll met (yfir 5% starfa hafa tapast og sú tala bætist við atvinnuleysið sem fyrir var).

Álagsmat sem var gert á bankakerfinu á síðasta ári reiknaði ekki með svona slæmu ástandi, jafnvel í versta tilfelli. Það er ávísun á frekari vandræði og sennilega aðra bankakreppu.

Ef sölumennirnir á Wall Street hafa rétt fyrir sér um að allt sé á uppleið þá hljóta góð tíðindi að vera rétt handan við hornið. Hvað með jólasveininn? Jólavertíðin, sem mikill fjöldi verslana lifir eða deyr með, virðist ekki lofa góðu ef miðað er við þann fjölda einstaklinga sem þessar verslanir eru að ráða fyrir vertíðina.

Bandaríski ríkiskassinn hefur ekki mikið svigrúm á næstunni því hann verður, sennilega áætlað í neðri kantinum, rekinn með $9 trilljóna halla næstu 10 árin [hvar er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þegar þú þarft á honum að halda, en hann krefst þess að íslenska ríkið verði hallalaust á þrem árum]. Það er búið að sóa trilljónum í vitleysu og hætt við að framhaldið verði ekki fallegt. Hagkerfið rétt flýtur á meðan hægt er að halda stýrivöxtum nálægt núllinu, líka óbeint með því að láta seðlabankann endurkaupa ruslapappíra fyrir trilljónir til þess að halda niðri vöxtum á frjálsum markaði, en guð hjálpi okkur þegar markaðslögmál framboðs og eftirspurnar ná yfirhöndinni á skuldabréfamarkaði.