vald.org

Ímynduð uppsveifla … framhald

26. nóvember 2009 | Jóhannes Björn

Þótt peningafúlgum er samsvara þúsundum milljarða dollara hafi verið mokað í bankakerfi nokkra landa og sumir seðlabankar hafi fjármagnað endurkaup ruslabréfa upp á enn hærri upphæðir, þá telur IMF að helmingur tapsins sé enn falið í bókhaldi bankanna. Þetta er bagalegt vegna þess að nú er búið að eyða öllu púðrinu í það eitt að viðhalda sjúku bankakerfi—frekar en að gera það upp og endurselja—og því verður fátt um fína drætti þegar næsta umferð krísunnar byrjar.

Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt. Á milli 2007 og 2010 aukast skuldirnar í hagkerfi heimsins um 45%. Helsta orsökin fyrir þessari glannalegu skuldasöfnun er peningamokstur í svarthol sem elítan stjórnar, en stjórnmálamenn þjóðanna virðast flestir eiga það sameiginlegt að vera í vasa þessa fólks. Pöpullinn situr síðan uppi með hrikalegar skuldir sem margar kynslóðir lenda í að borga.

Sumstaðar, eins og t.d. í Bandaríkjunum og Bretlandi, eru skuldirnar að verða svo stjarnfræðilegar að þær verða sennilega aldrei borgaðar öðruvísi en að láta gjaldmiðla ríkjanna hríðfalla. Fjárlagahalli Bretlands er kominn upp í 14,5% af þjóðarframleiðslu og bókhald breska seðlabankans lítur út eins og lélegur brandari eða línurit dauðvona sjúklings:

Breska ríkið þarf á næstu árum að selja gífurlegt magn skuldabréfa til þess að fjármagna hallann og endurnýja gamlar skuldir. Það verður enginn frjáls markaður fyrir hendi til þess að kaupa þessi bréf á vöxtum sem breska ríkið ræður við og seðlabankinn neyðist því til þess að kaupa miklu meira magn ríkisskuldabréfa. Það ævintýri endar aðeins með óðaverðbólgu. Bretland er tæknilega gjaldþrota.

Bandaríkin eru í þeirri óskastöðu að geta prentað viðmiðunargjaldmiðil, en nú er dollarinn að falla og mörg ríki eru farin að tala um að búa til nýja peningaeiningu fyrir alþjóðaviðskipti. Gullkaup seðlabanka Indlands, Kína og Rússlands eru hugsanlega liður í þessari áætlun.

Gífurlegur hallarekstur bandaríska ríkisins og krónískur viðskiptahalli landsins vinna á móti dollaranum, en nýleg lækkun hans er þó mjög tæknileg. Vegna núllvaxtastefnu seðlabankans hefur svokölluð “carry-trade” með dollara blossað upp, þar sem menn nota ódýra dollara til þess að fjármagna viðskipti út um allan heim. Dollarinn lækkar vegna þess að þessir aðilar ná sér í kapítal með því að selja dollara sem þeir eiga ekki með framvirkum samningum. Þegar “carry-trade” í dollurum endar (t.d. þegar vextir hækka) þá snarhækkar dollarinn tímabundið vegna þess að spekúlantarnir verða að kaupa þá til baka til þess að standa við fyrrnefnda samninga.

“Carry-trade” með dollara mælist víða illa fyrir vegna þess að hún stuðlar að óeðlilegri verðmyndun á mörgum mörkuðum. Ódýrir peningar skapa oft andrúmsloft þar sem spákaupmennska blómstrar en lögmál framboðs og eftirspurnar láta í minni pokann. Sumir hlutir byrja að hækka og hækka aðeins vegna þess að þeir eru að hækka, en ekki vegna eftirspurnar sem má rekja til eðlilegra orsaka. Þetta er raunverulega kerfissjúkdómur sem hverfur ekki fyrr en allt gjaldeyriskerfi heimsins verður stokkað upp.

En hvað á bandaríski seðlabankinn að gera annað en halda stýrivöxtum á núllinu og kaupa ruslabréf fyrir trilljónir til þess að halda niðri vöxtum á fasteignalánum? Skuldirnar í kerfinu eru stjarnfræðilegar og dæmið gengur ekki upp nema hægt sé að skapa verulegan hagvöxt með vaxandi skatttekjum. Þess vegna er kór manna endalaust að reyna að kjafta kerfið upp úr lægðinni. En allar efnahagslægðir í Bandaríkjunum síðan 1946 hafa endað á sama máta: Vaxandi eftirspurn eftir nýju íbúðarhúsnæði kom hjólum atvinnulífsins aftur í gang (allar iðngreinar taka þátt í að reisa ný hverfi—sölumenn, arkitektar, verkfræðingar, rafveitur, gasstöðvar, símafyrirtæki, kaplastöðvar, kaupmenn og alls konar þjónusta—allir fá meiri vinnu, auk þess sem nýir kaupendur skapa aðra keðjuverkun þegar þeir selja gamla húsnæðið sitt). Þetta vita ráðamenn og þess vegna er allt gert, bæði peningaprentun og auglýsingakjaftæði, til þess að blása lífi í fasteignamarkaðinn … en ástandið er ekki fallegt.

Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að hagkerfið tekur fjörkipp þegar hverfi eru reist, en ekki þótt kaup og sala á gömlu húsnæði aukist eitthvað. Það er hálfgerður núllleikur vegna þess að kaupandi á gömlu húsi skilar markaðinum oftast auðu leiguhúsnæði. Fyrsta skóflustungan skiptir því mestu máli og eftirfarandi línurit sýnir að sá markaður á enn langt í land.

Til þess að geta keypt sér þak yfir höfuðið þarf fólk að hafa atvinnu og nægar tekjur. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er meira en það hefur verið síðan í kreppunni miklu og fer enn vaxandi. Húsnæðisverð miðað við meðaltekjur landsmanna hefur verið að lækka síðustu ár (hús hafa víða lækkað um helming) en atvinnuástandið er aftur byrjað að snúa þessari þróun við. Hlutfallið þarf enn að lækka um yfir 10% kaupendum í vil til þess að geta talist eðlilegt.

Höfuðstóll nærri fjórðungs allra húsnæðislána í Bandaríkjunum—við erum að tala um samtals 10,7 milljón lán—er hærri en markaðsverð eignanna sem slegið var út á og 5,3 milljónir fjölskyldna skulda yfir 20% meira en eignirnar seljast á. Þessar tölur eiga enn eftir að hækka mikið á næstu árum.

Stundum er mjög slæm þróun á fasteignamarkaði notuð af klappkórnum til þess að auglýsa nýtt blómaskeið. Svokölluð Case-Shiller formúla mælir verðbreytingar í tuttugu borgum og er mjög góð, en menn verða að gera sér grein fyrir að hún byggir á tölum um endursölu eigna og meðalverð getur hækkað þótt allt sé á leið til fjandans. Hér er einföld skýring á þessu fyrirbæri.

Þetta flotta hús í Pasadena, Kaliforníu—fjögur svefnherbergi og þrjú baðherbergi—var keypt fyrir $245,000 í mars 2000. Á næstu sjö árum sló eigandinn hressilega út á eignina og í dag hvíla $925.000 á henni. Húsið hefur aldrei verið selt á þessu tímabili og sennilega er hægt að fá rúmlega hálfa milljón dollara fyrir það í dag, en ef það gerist þá reiknar Case-Shiller formúlan það sem yfir $250.000 hækkun þótt húsið hefði selst fyrir $950.000 sumarið 2007!

Í stuttu máli þá er fasteignamarkaðurinn í Bandaríkjunum, og þá sérstaklega í Kaliforníu þar sem mikill fjöldi ruslalána hvílir á dýru húsnæði, enn að versna þótt tölur um meðalverð eigi eftir að hækka (klappliðinu til mikillar ánægju). Lækkun á íbúðarhúsnæði hefst alltaf fyrst í ódýrari hverfum þar sem viðnámið er minnst. Fólk sem á dýrara húsnæði er venjulega þannig statt að það getur þráast lengur við að selja. En á einhverjum punkti brestur stíflan og það er nákvæmlega það sem nú er að gerast í Kaliforníu og víðar. Þótt húsin séu seld með miklum afslætti miðað við t.d. 2007 þá hækkar meðalverðið.

Þetta er allt einn allsherjar vítahringur. Atvinnulaust fólk kaupir sér ekki húsnæði og lamaður fasteignamarkaður kemur í veg fyrir keðjuverkandi atvinnusköpun. Trilljónirnar, sem hefðu getað hreinsað upp peningakerfið í fljótheitum (með sænsku leiðinni) eða hafið uppbyggingarstarf líkt og í kreppunni miklu, runnu í svarthol sem ofurríkt fólk passar. Trilljónirnar sköpuðu örlítinn hagvöxt í stuttan tíma—reyndar furðu lítinn hagvöxt miðað við eyðslu sem bætti 45% skuldabagga á hagkerfi heimsins—en nú er ekkert eftir nema draumur í pípu um áframhaldandi uppgang. Þegar hagkerfi vinnur sig út úr kreppu eru það venjulega lítil fyrirtæki (skilgreind í Bandaríkjunum sem starfsemi með innan við 100 manns í vinnu) sem ryðja veginn. Það bendir eindregið til þess að kreppan dýpki brátt aftur að lán til þessara fyrirtækja fara minnkandi.