vald.org

Horfurnar 2010—fyrsti hluti

30. desember 2009 | Jóhannes Björn

Flest bendir til þess að árið 2010 verði með afbrigðum örlagaríkt. Þá kemur í ljós hvort hagkerfi heimsins nær að klóra sig út úr kreppunni eða hvort atburðarásin frá 1929–1939 er að endurtaka sig. Kreppan dýpkar ef eitt eða fleiri ríki lýsa yfir gjaldþroti, peningabólan í Kína springur, alþjóðlegur stórbanki riðar til falls, fasteignamarkaðurinn í Bandaríkjunum byrjar aftur að lækka hratt eða vextir hækka verulega á heimsmarkaði.

Lítum fyrst á hvernig hlutirnir komust í þennan hnút.

Árið 1944 var nýtt peningakerfi sett á laggirnar að Bretton Woods og dollarinn var notaður sem kjölfesta og hann var gulltryggður gagnvart seðlabönkum annarra landa. Með öðrum orðum þá gátu margir erlendir seðlabankar skipt dollurum fyrir gull á ákveðnu verði í þeim bandaríska. Þetta fyrirkomulag átti að koma í veg fyrir taumlausa seðlaprentun. Breska pundið var um leið formlega sett út í kuldann og 40 ára efnahagslægð fylgdi í kjölfarið hjá gamla heimsveldinu—nokkuð sem Bandaríkjamenn ættu að hafa í huga áður en krónískur hallarekstur ríkisins eyðileggur viðmiðunarstöðu dollarans.

Þegar Nixon tók dollarann úr sambandi við gull 1971 breyttust allar forsendur kerfisins og kjölfestulaus peningageirinn byrjaði að tútna út miklu hraðar en gamla hagkerfið sem framleiddi vörur og þjónustu. Þróunin varð síðan svipuð og í sögunni um púkann á fjósbitanum. Sífellt ríkari bankar og peningafyrirtæki mynduðu sterkari þrýstihóp og þægir pólitíkusar gáfu þeim smám saman frelsi til þess að gera svo til allt sem þeim sýndist. Bankaveldið vann síðan stærstu sigrana þegar veggurinn á milli áhættukapítals og venjulegrar bankastarfsemi (Glass-Steagall) var fjarlægður í stjórnartíð Clinton og bindiskylda brasksjóða var rýmkuð úr öllu hófi upp úr síðustu aldamótum.

Sviðið var nú sett fyrir mesta peningasvindl allra tíma þegar fjárfestingadeildir banka og öflug peningafyrirtæki byrjuðu að braska með fasteignalán. Fyrirtækin keyptu milljónir lána á nokkrum árum (aðallega á Bandaríkjamarkaði) og “pökkuðu” í þúsundir eininga. Með flóknum afleiðuviðskiptum var margsinnis slegið út á þessa pakka og hver milljón í raunverulegum verðmætum ungaði út öðrum 30 milljónum og stundum jafnvel hærri upphæðum. Skuldabréfavafningar og tengd töfrabrögð færðu bankakerfinu ótrúleg auðæfi.

Þessi nýja gullgerðarlist varð eðlilega til þess að stórauka eftirspurn eftir fasteignalánum og þúsundir banka og minni lánafyrirtækja uppgötvuðu að meira að segja ruslapappírar voru nú gjaldgeng söluvara. Reglur sem menn höfðu fylgt frá upphafi vega—t.d. að ganga í skugga um að lántakendur væru borgunarmenn fyrir upphæðunum—voru grafnar og allir sem drógu andann gátu fengið lán. Tölum var hagrætt á lánaumsóknum, en samkvæmt FBI áttu lánafyrirtæki í um 80% tilfella sökina á að pappírar voru falsaðir. Allt var þetta mögulegt vegna óþrjótandi eftirspurnar eftir skuldapappírum af aðilum sem breyttu þeim í vafninga.

Auðvitað myndaðist fljótt gífurleg eftirspurn á fasteignamarkaði. Allir höfðu skyndilega efni á að kaupa. Hringrásin magnaðist, þeir sem keyptu snemma sátu fljótlega í miklu dýrari húsum og gullgrafaraæði greip um sig hjá fólki sem hélt að fasteignaverðið væri í endalausri uppsveiflu. En það er lögmál að þegar mikill meirihluti fólksins heldur að eitthvað ástand vari endalaust þá er venjulega stutt í endalokin.

Haustið 2008 fóru allir stærstu bankar Bandaríkjanna á hausinn, tæknilega séð, en það er á slíkum augnablikum sem við sjáum hvar valdaþræðirnir raunverulega liggja. Í staðinn fyrir að gera þessa banka upp og selja síðan í smærri einingum, sem hefði verið miklu betra fyrir hagkerfið og líka ódýrara, þá fór allt opinbera kerfið af stað til þess að bjarga hákörlunum. Skattgreiðendur og seðlabankinn mokuðu trilljónum í svartholið, sem hlýtur að hafa verið einhver versta fjárfesting fjármálasögunnar. Lögum var líka breytt, þannig að stórbankarnir þurftu ekki lengur að verðleggja ruslapappíra sem þeir sátu uppi með í bókhaldinu. Flestir stórbankar Bandaríkjanna eru sennilega enn gjaldþrota ef ruslapappírarnir eru reiknaðir inn í dæmið.

Þegar ríkið stundar óeðlileg afskipti og er með puttana í öllu á frjálsum markaði, þá gera óeðlilegar aukaverkanir fljótt vart við sig. Þegar markaðurinn sá að stóru bankarnir voru komnir á ríkisjötuna með tilheyrandi vernd, þá jókst peningastreymið til þeirra og vaxtakjör þeirra bötnuðu. Tryggingagjöld voru líka hækkuð á minni bönkum sem allan tímann höfðu stundað eðlilegan rekstur—bönkum sem líka töpuðu innistæðum til ríkistryggðu stórbankanna—til þess að bjarga þeim stóru. Peningastreymið til fjögurra stærstu banka Bandaríkjanna lítur svona út:

Stórbankarnir lána mjög lítið út í hagkerfið þessa dagana. Hvers vegna ættu þeir að lána fyrirtækjum eða einstaklingum þegar þeir geta tekið vaxtalaus lán út úr seðlabankanum og síðan lánað ríkinu á nokkrum prósentustigum? Skattgreiðendur björguðu bönkunum og bankarnir græða á að lána skattgreiðendum. Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast og fyrir vikið þykir yfirmönnum bankanna sjálfsagt að borga sjálfum sér bónusgreiðslur upp á milljarða dollara. Þeir eru guðir!

Obama hefur raðað fleiri fulltrúum Wall Street inn í fjármálaráðuneytið en nokkur annar forseti sögunnar. Hann fékk mikinn fjárstuðning frá fjármálageiranum og það er eðlilegt að spyrja hvort Wall Street hafi samið um ákveðnar embættisveitingar fyrir kosningar. Elítan hefur vissulega fengið allt sem hún hefur beðið um og virðist ráða því sem hún vill.

Hagkerfi heimsins nær engri varanlegri siglingu fyrr en það bandaríska byrjar aftur að sýna hagvöxt. Það er líka staðreynd að bandaríska hagkerfið vex ekki fyrr en fasteignamarkaðurinn hefur jafnað sig og ný hverfi byrja aftur að spretta upp. Örlítið jákvæðar hagtölur á síðasta ársfjórðungi eru hillingar sem peningaaustur ríkisins orsakaði. Örvæntingin er slík að ríkið borgar fólki $6500–$8000 til þess að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Yfir 80% allra nýrra fasteignalána eru baktryggð af bandaríska ríkinu, sem virðist tilbúið að taka á sig hundruð milljarða tap í gengnum Fannie Mae, Freddie Mac og hliðstæðar stofnanir. Þetta er ríkiskassinn sem þarf að endurfjármagna lán upp á $2,5 trilljónir á næstu tveim árum auk þess að slá ný lán.

Bandaríski seðlabankinn hjálpar líka fasteignamarkaðinum óbeint með því að endurkaupa (sumir segja ólöglega) fasteignalán með óbeinum aðferðum. Seðlabankinn er búinn að kaupa skuldabréf sem eru tryggð með fasteignalánum fyrir yfir trilljón dollara, en það skapar endurvinnslu (eftirspurn) sem lækkar vexti á nýjum lánum.

MBS: Mortgage backed securities. Fyrirtæki kaupa fjölda fasteignalána sem lánafyrirtæki hafa veitt fólki, pakka þeim og selja seðlabankanum tekjustrauminn sem lánin gefa af sér. Með því að kaupa þessa pappíra veltir seðlabankinn ferskum peningum inn á markaðinn og lækkar þannig vexti með handafli.

Framhald …