vald.org

Horfurnar—3

14. janúar 2010 | Jóhannes Björn

Harka Svía og Dana gagnvart Íslandi í tengslum við IceSave deiluna hefur komið mörgum spánskt fyrir sjónir, en ástæðan fyrir henni er mjög líklega sú að danskir og sænskir bankar hafa lánað stórfé bæði til Eystrasaltslandanna og Írlands. Ef Ísland fer dómstólaleiðina og vinnur málið, skapast frá þeirra sjónarhóli slæmt fordæmi og óvissa um lánin.

Eftir að Eystrasaltslöndin öðluðust sjálfstæði bundu þau miklar vonir við Evrópusambandið og fólk dreymdi um betra líf fyrir sjálft sig og næstu kynslóðir. Vandinn var þó sá að þessi ríki voru, eins og önnur í kommúnistablokkinni, afskaplega aftarlega á merinni á flestum sviðum framleiðslu og þau lumuðu ekki á miklum náttúruauðlindum eða öðru sem hægt var að flytja út. Fasteignir og sameignir þjóðfélagsins voru þó mikið til skuldlausar og erlendar lánastofnanir byrjuðu að ávaxta pund sitt á þessum mörkuðum.

Ferskt peningaflæði skapaði nýjar aðstæður og fasteignir byrjuðu eðlilega að hækka í verði. Eftir nokkurn tíma náði gullgrafaraæði yfirhöndinni og kynslóðir fólks sem aldrei höfðu séð fjárfestingabólur af nokkru tagi byrjuðu að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Frekar en að kaupa sér þak yfir höfuðið réði gróðasjónarmið brátt ferðinni hjá flestum. Bólan blés sig út sjálf, allir ætluðu að græða og erlendir bankar héldu áfram að framleiða peninga sem þeir lánuðu í braskið. Eins og alltaf gerist við slíkar aðstæður þá sprakk kerfið í loft upp einn góðan veðurdag.

Lettland er í raun gjaldþrota og hin Eystrasaltslöndin eru litlu betur sett. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn—handrukkari banka sem bera alveg eins mikla ábyrgð á fasteignabólunni og áfjáður almenningur—heimtar að Lettland slái erlend lán til þess að hægt sé að endurgreiða eldri erlend lán. Sænska ríkið heimtar hátt gengi vegna þess að margir Lettar tóku gjaldeyrislán sem verða óborganleg ef gengið lækkar. AGS heimtar svo skattahækkanir, niðurskurð opinberra útgjalda og kauplækkanir hjá öllum. Það er í besta lagi að loka sjúkrahúsum, stytta skóladaginn og drepa gamla fólkið úr næringarskorti svo lengi sem bankar í útlöndum fá sitt.

Ástandið er hrikalegt og Lettland á að hætta þessum vonlausa leik. Nægir tekjumöguleikar í erlendri mynt eru einfaldlega ekki til staðar. Landið á að hætta að borga útlendingum, taka gjaldmiðilinn úr sambandi við evru samhliða gengisfellingu, stórlækka stýrivexti, gera bankakerfið eins og það leggur sig upp og breyta skuldunum í hlutabréf í þessum sömu bönkum. Ríkið verður síðan að ráðast í stórverkefni (samgöngur, orku o.s.frv.) líkt og Roosevelt gerði í kreppunni miklu í Bandaríkjunum á sínum tíma.

Kreppan í Lettlandi heldur ekki vöku fyrir Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, en hann hefur verið manna harðastur gagnvart landinu og hótar öllu illu. Vanræktir sjúklingar eða fátæk gamalmenni sem krókna úr kulda skipta Anders Borg engu máli. Eina sem kemst að hjá honum er að Swedbank, SEB og Nordea tapa 131.000.000.000 sænskra króna sama dag og Lettland lýsir yfir gjaldþroti.

Danir hafa líka lánað til Eystrasaltsríkjanna, en gætu þó verið í enn meiri vandræðum á Írlandi. Danske Bank hefur síðan 2005 keypt bæði Northern Bank og National Irish Bank, en sá síðarnefndi hefur þurft að loka fjölda útibúa vegna kreppunnar á Írlandi. Bankakerfið á Írlandi er gífurlega upptrekkt og líklegt til þess að taka ríkissjóð með sér í fallinu ef bankakreppan dýpar á ný. Nýjustu tölur benda til þess að írska ríkið sé rekið með 14,7% halla á ársgrundvelli miðað við þjóðarframleiðslu, en halli af þeirri stærðargráðu gengur auðvitað ekki til lengdar.

Helsta púðurtunna Evrópu—hagkerfi sem hæglega getur sett allt á annan endann í Evrópusambandinu og orðið til þess að lækka gengi evrunnar—er þó Grikkland. Skuldir ríkisins fara upp í 140% þjóðarframleiðslu 2010 og landið er í frekar vonlausri stöðu. Það situr uppi með hátt skráða evru á meðan túristar flykkjast frekar til Tyrklands, sem er miklu ódýrara, og útflutningsatvinnuvegirnir berjast í bökkum. Það er líka dálítið hlálegt að grískir bankar hafa lánað hár upphæðir til gjaldþrota ríkis, Dubai, sem bráðum þarf að borga $80 milljarða skuld sem engin innistæða er fyrir. Möppudýr Evrópusambandsins hafa lagt hart að grísku stjórninni að lækka kaup almennings og skera niður alla félagslega þjónustu, en það myndi þýða enn lægri skatttekjur ríkissjóðs og dýpri kreppu.

Þetta er þó mikilvægast: Ef almenningur í Grikklandi sér útsendara Brussel fara í hart og knýja fram niðurskurð, þá líður örstuttur tími þar til allt landið logar í óeirðum. Ef það gerist á sama tíma og efnahagslegir erfiðleikar Ítalíu (skuldar 115% ársframleiðslu), Spánar (19,4% atvinnuleysi) eða Portúgals (sem deyr hægum dauða) komast í hámæli er nær öruggt að evran snarlækkar á gjaldeyrismörkuðum.

Margir telja að efnahagsundrið í Asía eigi eftir að keyra hagkerfi heimsins upp úr kreppunni. Ef við lítum raunsætt á málið þá er Kína eina landið sem gæti haft veruleg áhrif, en það virkar líka á báða vegu. Kína gæti hugsanlega haldið áfram að hlúa að innlendri eftirspurn og flutt inn gífurlegt hráefnismagn og aðrar vörur. En hagkerfið í Kína gæti allt eins lent í tímabundnum erfiðleikum og þannig komið af stað keðjuverkun sem dýpkar heimskreppuna. Japan er ekki lengur með í þessu dæmi.

Efnahagslægðin í Japan hefur staðið í 19 ár og verð hlutabréfa er 75% lægra en það var 1990. Ríkið slær öll met meðal iðnvæddra þjóða í að slá peninga, en skuldirnar eru 195% miðað við þjóðartekjur og fara brátt í 227%. Stjórnvöld þar í landi ákváðu nýlega að hressa upp á atvinnulífið með því að auka skuldirnar um sem svarar $1600 milljörðum (150 trilljón jen). Þetta dæmi gengur ekki upp í einangruðu samfélagi þar sem meðalaldur fer ört hækkandi. Kostnaður við að tryggja japönsk ríkislán hafa hækkað um helming (í 0,75%) á síðustu þrem mánuðum. Japanska jenið á aðeins eftir að lækka á næstu árum og áratugum.

Undirritaður telur yfirgnæfandi líkur á að kínversk yfirvöld missi tökin á hagkerfinu árið 2010. Allar tölur sem berast frá landinu eru einhvers staðar í háloftunum og lykta eins og risastór sápukúla. Verð fasteigana í Shanghai og fleiri stórborgum hefur hækkað um helming á einu ári og fólk braskar með ólíklegustu hluti í þeirri trú að verðþróun geti aðeins gengið í eina átt. Svínabændur hafa t.d. sankað að sér yfir 50.000 tonnum af kopar, vöru sem þeir nota ekki heldur líta á sem góða fjárfestingu!

Margir Íslendingar hafa verslað í Mall of America í Minnesota, sem skartar yfir 400 verslunum og 12.000 manna starfsliði, en fáir vita að Kínverjar hafa reist miklu stærri verslunarmiðstöð í óþekktri borg sem er ekki einu sinni nálægt frambærilegum flugvelli—Guangzhow. Fyrir utan starfsfólkið þá er byggingin tóm og veltan bókstaflega rétt fyrir ofan núllið. Ef tíu manns kaupa eitthvað þá er það góður dagur!

Galtóm verslunarmiðstöð er einn hlutur … en galtóm borg?!

Þegar rétt er farið að hlutunum í peningakerfi sem byggir á pappír frekar en gulli, þá fara nýir fjármunir í umferð í svipuðu hlutfalli og ný atvinnutæki og önnur varanleg verðmæti eru sköpuð. Þorp sem t.d. reisir nýja verksmiðju og ræður fjölda manns í vinnu þarf meiri peninga í umferð en annað þorp sem er staðnað eða fólk er að yfirgefa. Í tímans rás þá hefur aldrei tekist að snúa þessu dæmi við þannig að peningar hafi fyrst verið framleiddir og það hafi síðan leitt til velmegunar. Aldrei. Sagan er hins vegar full af dæmum um óhóflega seðlaprentun sem lyfti hagkerfinu í örstuttan tíma en rústaði síðan öllu.

Þegar útflutningur Kína dróst saman haustið 2008 fengu einræðisherrarnir í landinu hræðslukast. Þeir vissu að endalok klíkunnar kæmi fljótt ef tugmilljónir misstu vinnuna og tækju sér heykvíslar í hönd. Innsti hringurinn ákvað að örva innlenda eftirspurn á methraða til þess að skapa fleiri störf. Peningamagn í umferð æddi upp um 29,74% frá nóvember 2008 til nóvember 2009. En nýir peningar sem eru settir í umferð í þeirri von að þeir falli í frjóan farveg (frekar en að mæta markvissri þörf) fara venjulega í allar áttir og skapa jafnvel ójafnvægi í hagkerfinu. Þess vegna snarhækka spekúlantar fasteignaverðið og svínabændur hamstra kopar.

Loftbólurnar í kínverska hagkerfinu eru allt of margar og leiðrétting hlýtur að vera á næstu grösum. Það breytir því ekki að Kína á samt sem áður eftir að verða efnahagslegt stórveldi í framtíðinni. En ef kínverska bólan springur á næstunni þá lækkar allt hráefnisverð á alþjóðlegum mörkuðum og bankakerfið sekkur í nýjan öldudal.