vald.org

Ræða á Austurvelli 23. janúar 2010

23. janúar 2010 | Jóhannes Björn

Góðir fundargestir,

Það er deginum ljósara að pólitíska yfirstéttin og peningaelítan sem stýrir fjórflokknum tóku snemma hruns þá ákvörðun að fórna skuldsettum heimilum landsins. Þetta var gert á meðan skjaldborg var slegin um fjármagnseigendur og glæpaliðið sem setti landið á hausinn.

Flest bendir til þess að ráðamenn hafi ákveðið að draga almenning á asnaeyrunum með því að þæfa málið sem lengst—gefa út yfirlýsingar sem veittu fólki tímabundna von, en reyndust við nánari athugun ekkert annað en lengri hengingaról.

Við skulum hafa eitt grundvallaratriði á hreinu: Myntkörfulán, borguð út í íslenskum krónum, eru algjörlega ólögleg og verðtryggð lán eru bæði siðlaus og standast heldur ekki lög um eðlilega viðskiptahætti. Einstaklingar sem hafa verið flæktir í þetta skuldanet og óska nú leiðréttingar eru því ekki að biðja um ölmusu eða sérstaka fyrirgreiðslu—þeir eru einfaldlega að krefjast þess að lögum landsins sé framfylgt. Spurningin snýst raunverulega um hvort við búum í réttarríki eða bananalýðveldi.

Lög nr. 38 frá 2001 eru skýr. Gjaldeyristryggð lán eru ólögleg. En jafnvel þótt þessi lög væru ekki fyrir hendi þá gerði gjaldeyrisbrask bankanna 2008 verðtryggðu lánin marklaus. Í stuttu máli þá tóku bankarnir stöðu á móti viðskiptavinum sínum þegar þeir snarfelldu gengi íslensku krónunnar. Þeir græddu því bæði á fallandi gengi og hækkun allra gengistryggðra og verðtryggðra lána. Þetta voru ekki eðlileg bankaviðskipti heldur glæpastarfsemi og margur hefur verið settur í járn fyrir minna.

Í 36. grein laga nr. 7 frá 1936 segir orðrétt:

Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig …

Síðan segir í þessum sömu lögum:

Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag.”

Lögin eru skýr og nýlegur dómur sem féll lánafyrirtæki í vil í Héraðsdómi Reykjavíkur sýnir okkur aðeins að samtrygging valdsins hefur náð óþolandi stigi og réttarfar á Íslandi á enga samleið með kerfi landa sem við viljum bera okkur saman við. Orðið “bananalýðveldi” kemur aftur upp í hugann … en við hverju er að búast í landi þar sem þjónar dómsvaldsins eru án undantekninga valdir samkvæmt pólitískri forskrift?

Verðtrygging lána er eitthvert mesta glapræði seinni tíma. Á áratugunum fyrir 1980 ríkti algjör óstjórn á íslenskum fjármálamarkaði. Verðbólgan æddi áfram og ráðamenn annað hvort skildu ekki hvað var að gerast eða vildu ekki skilja það. Í staðinn fyrir að beita raunhæfum lausnum, t.d. draga úr útlánum bankanna með hærri bindiskyldu, þá var kerfið sett á sjálfstýringu með verðtryggingunni. Þetta var taktísk viðurkenning valdamanna á þeirri staðreynd að þeir kunnu ekki að stjórna hagkerfinu.

Verðtryggingin er ólögleg að því leyti að hún er ekki í anda eðlilegra viðskiptahátta. Hvernig getur það staðist að aðeins annar aðilinn taki alla áhættu af öllu sem kann að fara úrskeiðis í framtíðinni? Þegar bakakerfið bauð fólki verðtryggð lán á árunum fyrir 2008 lögðu “sérfræðingar” bankanna fram greiðsluáætlanir sem hljóðuðu upp á 3–5% verðbólgu næstu árin. Þetta ógildir skilmála verðtryggðra lána vegna þess að lög um trúnað og tillitskyldu við samningagerð segja að það sé óheimilt að bera fyrir samning vegna atvika sem voru til staðar og ekki eiga lengur við.

Sú staðreynd að bankakerfið sjálft rústaði landinu og keyrði gengið niður úr öllu valdi með viðeigandi verðbólguskoti tekur af allan vafa um lögmæti verðtryggðra samninga.

Í stuttu máli: Bankakerfið eyðilagði hagkerfið og ber fulla ábyrgð á því að verðtryggð lán hafa stórhækkað og gjaldeyristryggð lán jafnvel tvöfaldast. Og nú sparkar kerfið í liggjandi mann og heimtar að fólk ekki aðeins borgi okrið, heldur haldi áfram að borga af lánum af húsnæði og bílum sem það er búið að missa. Þetta er einhver hroðalegasta ósvífni allra tíma. Það er algjör lágmarkskrafa að fólk sem gengur frá ofurskuldsettum eignum sé þar með laust allra mála. Þingmenn sem standa í vegi fyrir þessari breytingu eru með frosin hjörtu og ekki mannlegar verur í þeim skilningi er við leggjum í það hugtak.

Elítan sem hefur hreiðrað um sig í skjaldborginni og sett fólkið út á gaddinn kemst upp með myrkraverk sín í skjóli leynimakks og pukurs sem lengi hefur viljað loða við íslenska stjórnsýslu. Þótt tugþúsundir Íslendinga hafi verið gerðir eignalausir þá heldur leynimakkið áfram. Hvar eru nákvæmir listar yfir alla pólitíkusa sem fengu kúlulán og aðra óeðlilega fyrirgreiðslu frá glæpagenginu sem setti landið á hausinn? Hvers vegna fær fólkið sem verður að borga fyrir glæpinn ekki nákvæmar upplýsingar um hvað bankarnir eru að afskrifa?

Íslenskir stjórnmálamenn hafa tilhneigingu til að hegða sér eins og danskir embættismenn í kringum aldamótin 1900. Sem stétt eru þeir andlýðræðislegir og hrokafullir. Þeir hika ekki við að halda mikilvægustu upplýsingum frá fólkinu. Raforkuverð til erlendra fyrirtækja—atriði sem varðar alla framtíðaruppbyggingu landsins—er t.d. leyndarmál. Gamlir samningar við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem mótuðu atvinnustefnuna í marga áratugi, eru líka leyndarmál. Munið að ríkisstjórnin vildi upphaflega að Alþingismenn samþykktu Icesave-samninginn án þess að lesa hann! Allt annað er í sama dúr.

Hér verður mikið að breytast ef mönnum er full alvara í þeim ásetningi að endurreisa landið. Gamla launhyggjan verður að hverfa og það verður að hrista duglega upp í embættismannakerfinu. Valið er einfalt: Annað hvort verður hér gjörbreytt kerfi þar sem nýir kústar sópa spillingunni út … eða hálfgerð skálmöld, stórskert lífskjör almennings og gífurlegur landflótti. Það er búið að ganga eins nálægt réttlætisvitund fólks og mögulegt er.

Ef stjórnvöld halda áfram á sömu braut þá blasir allt annað og verra Ísland við okkur eftir nokkur ár. Okurvextir, óraunhæfar afborganir af erlendum skuldbindingum og atvinnuleysi eiga eftir að orsaka enn frekari gjaldþrot og flóknari erfiðleika. Þetta er óþolandi vítahringur og þróun sem strax ber að stöðva. Það verður að höggva á hnútinn. Afnema verðtryggingu lána, breyta gjaldeyrislánum í íslensk á því verði sem þau voru fyrir 15 mánuðum og stórlækka stýrivexti.

Okurvextir eru böl. Á meðan flest fyrirtæki á Vesturlöndum hafa aðgang að ódýrum peningum—og ekki veitir þeim af á þessum krepputímum—þá verða helsærð fyrirtæki á Íslandi að borga yfir þriðjung veltunnar í vexti. Aðeins hagfræðingum á framfæri ríkisins dytti til hugar að verja slíka sjálfsvígsstefnu.

Dæmið væri kannski skiljanlegt ef hér væri verið að reyna eitthvað hagfræðibrölt í fyrsta skipti, en margra ára og áratuga reynsla hefur sýnt okkur að vaxtaokrið virkar ekki. Okurvextir kynda undir verðbólgu í litlu hagkerfi vegna þess að innlend verðsamkeppni er allt of lítil. Okurvextir styrkja heldur ekki gjaldmiðilinn. Þeir láta umheiminn aðeins vita að hér bjátar eitthvað hræðilega mikið á.

Fimmtán mánuðum eftir að nokkrir glæpamenn—með hjálp pólitísku yfirstéttarinnar—rústuðu lífi tugþúsunda íslendinga, setti Saksóknari Ríkisins allt í gang og kærði nokkur ungmenni fyrir að ráðast inn í Alþingishúsið! Þetta er auðvitað eins og hver önnur martröð og henni fylgir ákveðin hætta. Þegar fólk þarf að berjast við vindmyllur—það glímir stöðugt við atburðarás sem gæti komið beint úr skáldsögu eftir Kafka—þá er stórhætta á að það missi móðinn. Það má aldrei gerast.

Við skulum hafa það hugfast að svo til allar framfarir sjá dagsins ljós þegar fólk vinnur bug á einhverjum erfiðleikum … og það er nánast náttúrulögmál að allt andstreymi skapar ný tækifæri. Eða eins og Shakespeare orðaði það: “Hve ljúft er að nota mótlætið sér í hag.”

Gömul kínversk saga segir frá bónda sem átti hest sem einn góðan veðurdag strauk af heiman. Þegar nágrannarnir komu til þess að votta honum samúð sína spurði bóndinn: “Hvernig vitið þið að þetta séu slæm tíðindi?” Nágrannarnir hristu hausinn og fóru, en næsta dag kom hesturinn til baka í fylgd með villtum hesti. Nú komu nágrannarnir til þess að óska bóndanum til hamingju með nýja hestinn, en hann leit á þá með undrun og spurði: “En hvernig vitið þið að ég hafi dottið í lukkupottinn?” Stuttu seinna var sonur bóndans að temja nýja hestinn og fótbrotnaði þegar hann kastaðist af baki. Aftur komu nágrannarnir til þess að votta samúð sína og aftur sagði bóndinn: “Hvernig vitið þið að þetta eigi eftir að koma sér illa?” Nágrannarnir kvöddu bóndann orðlausir … en næsta dag kom stríðsherra í héraðið og smalaði saman öllum heilbrigðum ungum mönnum og sendi út á vígvöllinn.

Góðir fundargestir. Bankahrunið gefur okkur gullið tækifæri til þess að skapa hér betra samfélag. Við höfum allt of lengi búið við forhert framkvæmdavald, grútmáttlaust Alþingi og rammpólitískt dómsvald. Ef við stöndum þétt saman þá missir klíkustéttin heljartakið sem hún hefur á kerfinu og við uppskerum betra þjóðfélag … réttlátara þjóðfélag … land sem við getum öll verið stolt af.