vald.org

Maybe I should have—fantagóð kvikmynd

3. febrúar 2010 | Jóhannes Björn

Okkur ber öllum skylda til þess að komast til botns í hvernig hagkerfi landsins hrundi og krefjast þess í framhaldinu að breytt regluverk komi í veg fyrir að rugl síðustu ára endurtaki sig í framtíðinni. Kvikmyndin Maybe I should have fjallar um flestar hliðar þessa svindls sem spannar hálfa jarðkringluna. Mikilvægast er þó kannski að myndin vottfestir um allan aldur hvernig venjulegt vinnandi fólk—saklausir áhorfendur—komu út úr þessu hræðilega klúðri.

Einstaklingar bregðast misjafnlega við óvæntum erfiðleikum. Sumir fara í afneitun, aðrir beygja sig í duftið—en menn á borð við leikstjóra og sögumann myndarinnar, Gunnar Sigurðsson, tvíeflast og taka málin föstum tökum. Eftir að myntkörfulán, sem allir (nema dómarar í Héraðsdómi Reykjavíkur) vita að eru kolólögleg, setti hann á hausinn, ákvað Gunnar að leggja land undir fót til þess að fá svar svið spurningunni: Hvað varð um alla peningana sem ég og aðrir Íslendingar töpuðum?

Myndin er hröð og ótrúlega skemmtileg miðað við viðfangsefnið. Leikurinn berst til margra landa og útrásardýrin jafnt sem fórnarlömb þeirra eru tekin tali. Viðtöl við venjulegt fólk á Guernsey, aðallega eftirlaunaþega sem víkingarnir rændu, og landstjórann á Tortola eru mjög merkileg. Líkt og dópsalar segjast bara vera að anna eftirspurn, þá halda talsmenn skattaparadísa því alltaf fram að augljóst siðleysi þeirra og feluleikur með peninga sé öðrum að kenna.

Spjallið við Björgólf Thor er í hæsta máta súrrealískt og með ólíkundum að heyra mann, sem tók svo virkan þátt í braski sem rústaði heimilum landsins, tala um “dána” peninga sem séu komnir til himnaríkis! Gleymum aldrei að þótt pappírsverðmæti hafi fallið í verði þá mokaði ákveðinn hópur fólks stöðugt peningum út úr flóknu neti pappírsfyrirtækja og enginn hefur enn gert grein fyrir gríðarlegum upphæðum sem runnu beint í vasa ákveðinna aðila.

Herbert Sveinbjörnsson, sem kvikmyndaði og sá um aðra tæknivinnu, á sérstakt hrós skilið. Það er ráðgáta hvernig einum manni tókst að leysa svo vel af hendi margþætt verkefni sem venjulega er unnið í hópvinnu. Og allt framkvæmt á tiltölulega skömmum tíma með sáralitlum tilkostnaði.

Maybe I should have á skilið góða aðsókn og vonandi eiga þeir félagar eftir að gera aðra kvikmynd. Efni ætti ekki að skorta. Rannsóknarskýrslan fræga sér brátt dagsins ljós, Icesave verður líklega hafnað og sífellt fleira saklaust fólk fer undir hamarinn. Það styttist í “fullkominn storm” og þá stund er stjórnvöld verða að sýna spilin. Þolinmæði fólksins er þrotin og málþóf pólitísku yfirstéttarinnar er byrjað að hljóma eins og ómerkilegur áróður.

Almenningur tekur því ekki mikið lengur þegjandi að sjá tugþúsundir Íslendinga halda áfram að sökkva í skuldafenið.