vald.org

Gunnar Tómasson—Aðsend grein

12. febrúar 2010 | Gunnar Tómasson

Ágætu alþingismenn:

Ágreiningur Kristrúnar Heimisdóttur og Indriða H. Þorlákssonar um staðreyndir Icesave-málsins gefur tilefni til athugunar á gögnum málsins varðandi „forfjármögnun" Breta á endurgreiðslum til eigenda Icesave innstæðureikninga.

Var þar um að ræða einhliða ákvörðun brezkra stjórnvalda án samráðs við íslenzk stjórnvöld, eða lántöku íslenzkra stjórnvalda með ótilgreindum skilmálum?

Það er vandséð að hér sé um neitt álitamál að ræða þar sem Alistair Darling lýsti því yfir í viðtali á BBC þann 8. október 2008 að „íslenzka ríkisstjórnin, þótt ótrúlegt sé, hefur sagt okkur, þeir sögðu mér í gær að þeir ætla ekki að heiðra [Icesave-] skuldbindingar sínar.”

„You know the problems we’ve had with Icesave which is owned by an Icelandic bank which has gone down and the Icelandic government, believe it or not, have told us, they told me yesterday that they have no intention of honouring their obligations here.”

Af yfirlýsingu Alistair Darling má ráða að sú ákvörðun brezku ríkisstjórnarinnar 8. október 2008 að tryggja Icesave innstæður var hugsuð sem nauðvörn gegn meintri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að heiðra ekki skuldbindingar sínar.

Þegar í ljós kom að Darling hafði farið með rangt mál var úr vöndu að ráða fyrir brezk stjórnvöld. Afturköllun á ákvörðuninni hefði afhjúpað fljótfærnisleg og óvönduð vinnubrögð þeirra í Icesave-málinu á kostnað brezkra skattborgara. Því var ákveðið að knýja íslenzka skattborgara til að axla þær byrðar sem glapræði þeirra félaga Gordon Brown og Alistair Darling hafði búið þeim brezku.

Í drögum að lánasamningi sem Bretar og Hollendingar sendu stjórnvöldum þann 4. desember 2008 er því réttu máli hallað varðandi þetta lykilatriði, en þar segir „að óskað hefði verið eftir því að Bretland og Holland aðstoðuðu TIF, íslenska innstæðutryggingasjóðinn, við fjármögnun.”

Starfsmenn utanríkisráðuneytisins virðast hafa haft forsögu málsins á hreinu, sbr. tillögu þeirra um breytt orðalag þar sem tilvísun til Bretlands er felld niður:

„… aðilar málsins hafa samþykkt að Holland skuli veita Tryggingarsjóðnum lán til að forfjármagna greiðslu á kröfunum…”

[„… the parties have agreed that the Netherlands shall make a loan available to the Guarantee Fund to prefinance and settle the claims … .“]

Af erindisbréfi samninganefndar íslenzkra embættismanna, sem fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon undirritaði 24. febrúar 2009, og umsögn Indriða í þá veru að ákvörðun Breta 8. október 2008 hafi verið tekin að beiðni íslenskra stjórnvalda virðist mega ráða að samningsdrög Breta og Hollendinga hafi villt þeim sýn varðandi forsögu málsins.

Íslenzkir embættismenn kunna því að hafa gengið til samninga við Breta og Hollendinga í góðri trú á falskar forsendur.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur