vald.org

Fallvalt kerfi

14. febrúar 2010 | Jóhannes Björn

Það er alltaf vissara að fylgjast betur með hvað menn eru að bauka frekar en hvað þeir segja. Þegar Goldman t.d. seldi ruslabréf út um allan heim hrósaði fyrirtækið þessum skuldabréfavafningum upp í hástert. En á sama tíma var önnur deild Goldman að græða stórfé með skortsölum á þessum sömu pappírum. Fyrirtækið veðjaði á móti viðskiptavinum sínum. Nú virðist þessi saga vera að endurtaka sig hjá öðrum banka. Talsmenn Citibank spá glimrandi hagvexti næstu misserin, en á sama tíma er afleiðudeild bankans að búa til nýja gerð pappíra sem veðja á nýtt hrun.

Það er ótrúlegt að banki sem skattgreiðendur hafa neyðst til að styðja með $300 milljarða skuldbindingu skuli komast upp með að hefja nýja tegund veðmála sem sennilega á eftir að lenda í kjöltu skattgreiðenda. Upphæðirnar sem tapast í nýju bankahruni verða að öllum líkum svo stjarnfræðilegar að spilavítið springur í loft upp og ríkið verður aftur að hlaupa undir bagga með stórbönkunum.

Chris Rogers við háskólann í Cambridge lýsir þessum nýju afleiðuviðskiptum þannig:

“Þetta eru í raun tryggingar. Aðalatriðið er: hve öflugir eru aðilarnir sem selja þær? Ef þeir þurfa að borga himinháar summur þegar harðnar á dalnum, geta þeir þá staðið í skilum? Þeir sem selja tryggingar geta endurtryggt sig, en einhver borgar á endanum—það eru takmörk fyrir upphæðunum sem einkaaðili getur borgað. Aðeins ríkisstjórn getur tekið á sig ótakmarkað tap.”

Það er heldur ekki eins og heimurinn þjáist af afleiðuskorti. Samanlagt eru skráð verðmæti þeirra meiri en samsvarar tífaldri ársframleiðsla jarðarinnar og þetta er núll-leikur sem skapar engin verðmæti. Afleiðubransinn er raunverulega eins og spilavíti þar sem lokaður hringur fíkla hamast við að tryggja og endurtryggja hvern annan. Vandinn liggur hins vegar í því, að einn góðan veðurdag dynja yfir risastór gjaldþrot sem ógna öllu hagkerfinu … og skattgreiðendur verða þá að borga fyrir ruglið.

Hagkerfi jarðarinnar er orðið svo skuldsett og það er svo kyrfilega undir hæl elítu sem hefur beinan aðgang að kjötkötlunum, að líkurnar á nýrri bankakreppu vaxa með hverjum deginum sem líður. Taugaveiklunin í kerfinu er komin á það stig að nýleg hækkun bindiskyldu banka í Kína um 0,5% lækkaði verð hlutabréfa út um allan heim! Hvað gerist þá þegar PIIGS löndin (Portúgal, Ítalía, Írland, Grikkland og Spánn) segja sig á sveit hjá ríkari nágrönnum sínum?

Evran hefur fallið um nærri 10% gagnvart dollara á síðustu vikum, en það er mjög líklegt að hún falli miklu meira á næstunni. Evran stenst varla lengur sem gjaldmiðill og það er að renna upp fyrir mörgum að gjörólík hagkerfi geta ekki til lengdar stuðst við sömu viðmiðun. Spánn er ágætt dæmi. Líkt og Grikkland og Portúgal hefur landið ekkert sérstaklega öflugan útflutningsiðnað, en þegar vextir lækkuðu upp úr 2000 með tilheyrandi peningaframleiðslu banka í mörgum löndum, streymdu vaxandi upphæðir inn á fasteignamarkaðinn á Spáni. Kaupæði greip um sig og verðið hækkaði og hækkaði. Erlendir og innlendir bankar mokuðu peningum í þetta ævintýri sem átti aldrei að enda. Aukinn hagvöxtur (byggður á bólu) hækkaði kaup almennings í landinu, en þegar fasteignabólan sprakk kom strax í ljós að þetta voru aðeins hillingar og Spánn gat ekki lengur keppt við sterkari hagkerfi í Evrópu eða Asíu.

Þetta er sami raunveruleiki og blasir við Grikklandi og fleirum. Evan gefur þessum löndum ekki nóg svigrúm til þess að vinna sig út úr vandanum. Þau ráða ekki við skuldabaggann og mikill niðurskurður hjálpar ósköp lítið vegna þess að aukið atvinnuleysi minnkar líka hagvöxt.

Eins og málin standa núna virðist líklegast að hundum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði sigað á Grikkland og síðan hin PIIGS löndin. Guð hjálpi þeim! AGS virðist vera komið í startholurnar og viðraði nýlega hugmyndir sínar um hærri verðbólgumarkmið. Á mannamáli þýðir það að skuldirnar verði að hluta til látnar brenna á verðbólgubálinu. Gullið á bjarta framtíð ef þessum hugmyndum verður hrint í framkvæmd.