vald.org

Biðin langa

17. mars 2010 | Jóhannes Björn

Annað hvort eru Íslendingar upp til hópa þolinmóðasta fólk jarðkringlunnar eða þeir skilja ekki einföldustu leikreglur samfélags sem byggir á lýðræði. Allt frá haustdögum 2008 hefur sauðsvartur pöpulinn verið að bíða eftir einhverjum aðgerðum. Bíða og vona að raunhæfar skuldbreytingar sjái loks dagsins ljós. Bíða eftir skjaldborginni. Bíða eftir að glæpagengið sem setti landið á hausinn gangi fyrir dómara. Og svo er það auðvitað biðin og vonin um að fá að sjá rannsóknarskýrslu sem kerfið hefur mánuðum saman haldið rétt utan seilingar.

Pólitíkusarnir eru í raun að sýna almenningi og lýðræðinu ótrúlega óvirðingu. Eftir óþolandi seinkanir er rannsóknarskýrslan loks komin í prentsmiðju, en samt er birting hennar enn dregin á langinn. Samkvæmt heimildum er ástæðan sú að beðið sé eftir að 3000 eintök verði prentuð. Hvers konar rök eru það? Skýrslan nær aldrei augum allra landsmanna nema hún verði sett á Netið og því fullkomlega eðlilegt að birta hana strax í því formi. Skrumið í pólitíkusunum er orðið ansi þunnt.

Helsti gallinn við aðgerðir síðustu þriggja ríkisstjórna gagnvart skuldsettum almenningi er í grundvallaratriðum sá að kerfið viðurkenndi ekki strax í upphafi að verðtryggð og gjaldeyristryggð lán urðu marklaus um leið og hagkerfið hrundi. Venjulegir lántakendur áttu enga sök á að krónan hrapaði og verðbólgan æddi upp á meðan kaupið stóð í stað eða lækkaði. Það var bæði ólöglegt og siðlaust að láta saklaust fólk bera ábyrgð á að lánin hækkuðu skyndilega upp úr öllu valdi. Forsendurnar sem þessi lán upphaflega byggðu á voru ekki lengur til staðar.

Auðvitað átti að núllstilla allan pakkann strax haustið 2008, en með því að slá því föstu í upphafi að fólkið raunverulega skuldaði okurlánin og hagga ekki frá þeirri skoðun allar götur síðan, þá hafa stjórnvöld stórflækt málið og sett í óleysanlegan hnút. Hengingarólin er lengd (tíma bætt við okrið) eða stytt (miklar afskriftir skattlagðar) og alls konar flækjur (t.d. dvalarleyfi í eigin húsnæði eftir að bankinn er búinn að stela því) koma inn í myndina. Ástand lánamála er orðið eitt alherjar klúður.

Ekkert svíður þó meira en óréttlætið sem birtist í afskriftum til sömu manna og settu landið á hausinn með því að blóðmjólka fyrirtæki landsins og alla sjóði sem voru innan seilingar. Vegna þessa eru mörg íslensk fyrirtæki á brunaútsölu í dag og sömu menn og rústuðu landinu virðast í sumum tilfellum vera að taka þátt í braskinu eftir að bankakerfið afskrifar skuldir þeirra!

Ísland er í raun stjórnlaust.

Fjórflokkurinn horfir aðgerðalaus á smákónga inna bankanna bera við bankaleynd þegar þeir stunda peningatilfærslur sem almenningur á heimtingu á að sjá. Fólk hefur orðið fyrir gífurlegum áföllum og á eftir að borga fyrir mistök bankanna um langa framtíð. Hvers vegna breytir fjórflokkurinn ekki lögum um bankaleynd svo hægt sé að varpa ljósi inn í reykfyllt bakherbergi bankakerfisins?

Hvað er fjórflokkurinn að fela? Það er varla hægt að skilja aðgerðaleysi pólitísku elítunnar öðruvísi en að hún sé sjálf á kafi í sukkinu og vilji óbreytt ástand. Það má greinilega ekki opna ormagryfjuna. Það verður að viðhalda leynimakkinu í bönkunum og halda áfram linkindinni sem glæpagenginu er sýnd. Sú staðreynd að tugþúsundir Íslendinga eru að sökkva er látin liggja á milli hluta.