vald.org

Þegar stórveldi falla

26. mars 2010 | Jóhannes Björn

Það er að verða nokkuð ljóst að draumurinn um eitt risastórt myntsvæði Evrópu getur ekki ræst. Svo lengi sem PIGS-löndin—Portúgal, Ítalía, Grikkland og Spánn—neyðast til þess að nota dýra evru verða þau ekki samkeppnisfær við ríki norðar í álfunni. Þetta fyrirkomulag gekk á meðan bankakerfi heimsins mokaði peningum í allar áttir, en brotalamirnar komu strax í ljós þegar kerfið skall í baklás.

Fólk sem býr í Evrópu sunnanverðri er sennilega lífsglaðara en íbúar á norðlægari slóðum, en það keyrir ekki hagkerfið áfram af sama aga og t.d. Þjóðverjar og Svíar gera. Þessi munur kemur meira að segja í ljós innan landamæra Ítalíu, þar sem Sikiley er hálfgerður hreppsómagi sem stöðugt sogar til sín styrki frá norðurhluta landsins. Suður-Evrópa getur einfaldlega ekki keppt við háþróuð hagkerfi ef gengi gjaldmiðilsins ræðst af framleiðslugetu Þýskalands og hliðstæðra ríkja.

Grikkland er tæknilega gjaldþrota. Sannleikurinn er sá að landið var aldrei í stakk búið til þess að taka upp evru. Yfirvöld fölsuðu bókhaldið á sínum tíma með því að gera flókna afleiðusamninga við Goldman og fleiri banka. Halli ríkissjóðs sýndist vera minni vegna þess að tekjulindir voru veðsettar langt fram í tímann. Nú er svo komið borgarastyrjöld blasir við ef yfirvöld skera niður útgjöld og lækka kaup fólks nægilega til þess að ná einhverju jafnvægi. En jafnvel þótt mikill niðurskurður væri mögulegur þá leysir það engan vanda. Hagkerfið dregst þá saman með minni skatttekjum og næsta alda erfiðleika ríður yfir.

Stórfelldur niðurskurður í Grikklandi og hinum PIGS-löndunum er heldur ekki framtíðarsýnin sem menn sáu þegar lagt var út í þessa efnahagssamvinnu. ESB hjörðin er hreinlega of sundurleit og Evruland verður aldrei það stórveldi sem menn ímynduðu sér.

Efnahagssambandið verður á einhverjum punkti að horfast í augu við þá staðreynd að evran getur ekki þjónað öllum jafnt. Grikklandi verður e.t.v. bjargað í augnablikinu, en vandinn er kerfisbundinn og skýtur væntanlega stanslaust upp kollinum í framtíðinni. Spánn kemur næst og síðan Ítalía eða Portúgal. Þetta er vonlaus leikur sem eyðir öllu pólitísku kapítali á stuttum tíma. Endurfjármögnunarþörf PIGS-ríkjanna kemur á færibandi á næstunni—eins og fallbyssukúlur.

Þótt skuldir þessara ríkja séu miklar miðað við þjóðarframleiðslu, þá eru þær nokkuð dæmigerðar fyrir ástandið eins og það blasir við víða um heim. Ofurskuldir bankakerfisins—sem hafa minnkað en eru enn til staðar í miklu magni—hafa einfaldlega verið færðar yfir á skattgreiðendur. Þeir sem halda því fram að rétt hafi verið haldið á spöðunum s.l. 18 mánuði og eðlileg efnahagsuppbygging sé í gangi í heiminum eiga eftir að verða fyrir miklum vonbrigðum.

Kreppan sem byrjaði fyrir alvöru haustið 2008 átti rætur sínar í allt of miklum skuldum. Bankakerfið þandi út fasteignamarkaðinn og kórónaði síðan allt með því að margfalda skuldirnar með sölu skuldabréfavafninga. Flóðgáttirnar opnuðust, fjármagnið streymdi í allar áttir og bólur mynduðust víða í hagkerfinu. Allir peningar fara í umferð í formi skulda (það er engin önnur leið) og eins og vænta mátti kom brátt slagsíða á peningakerfið. Eðlileg lausn hefði verið að eyða skuldum með því að endurskipuleggja stærstu bankana (þjóðnýta tímabundið með sænsku leiðinni) og láta fasteignaverðið falla.

Vandamál sem orsakast af of miklum skuldum verður ekki leyst með því að búa til nýjar skuldir. Það er aðeins verið að velta vandanum á undan sér og afleiðingarnar koma fljótt í ljós. Grikkland þarf að borga yfir 3% hærri vexti en Þýskaland af 10 ára ríkisskuldabréfum, og það er aðeins byrjunin. Japan og Bandaríkin standa bráðum auglitis við miklu hærri vexti eða ákvörðun um að láta seðlabanka ríkjanna endurfjármagna skuldirnar í vaxandi mæli og orsaka þannig óðaverðbólgu í framtíðinni. Það er mjög takmarkaður markaður fyrir ríkisskuldirnar sem víða eru að hrannast upp.

Efnahagsbatinn í heiminum er ekki lífrænn eða mjög raunverulegur vegna þess að hann byggist á gífurlegri skuldasöfnun sem skilar sér mjög illa í hagkerfinu. Ríki sem selja orku eða hráefni til Kína ganga ágætlega, t.d. Ástralía og Kanada, en það eru yfirgnæfandi líkur á að það sé tímabundið ástand. Kínverska hagkerfið virðist vera að ganga í gegnum klassíska bólu sem er rétt í þann mund að springa.

Útflutningur Kínverja dróst gífurlega saman eftir bankahrunið 2008 og elítan sem stjórnar landinu (kommar, iðnjöfrar og herforingjar) fékk hræðslukast. Einræðisherrarnir vissu að mikið atvinnuleysi gæti fellt stjórnina og þeir flýttu sér að setja neyðaráætlun í gang. Hugmyndin var að skapa miklu meiri innlenda eftirspurn og ný störf til þess að anna henni. Bönkum var skipað að lána og öllum borgum og héruðum var fyrirlagt að kreista út ákveðinn hagvöxt. Peningamagn í umferð æddi upp.

Það er gamalt lögmál að vaxandi framleiðsla kallar á meira peningamagn í umferð, en það er aldrei hægt að snúa dæminu við og auka hagvöxt varanlega með því að fyrst auka peningamagn í umferð. Aldrei. Sagan sýnir okkur að þegar aukið peningamagn í umferð er notað gagngert til þess að örva hagkerfið gengur allt vel í stuttan tíma, en síðan byrjar verðbólgan að gera vart við sig og hún magnast þar til allt fer í vitleysu.

Margir hagfræðingar og talsmenn fyrirtækja sem tjá sig í fjölmiðlum hafa tröllatrú á kínverska hagkerfinu og fullyrða að stjórnvöld landsins hafi getu til þess að toga í alla rétta spotta og þau séu fullfær um að stýra hagkerfinu í örugga höfn. Þetta eru sömu spekingar og stöðugt halda því fram heima fyrir að ríkisstjórnir eigi að veita einkageiranum fullt athafnafrelsi, enda séu ríkisstarfsmenn óhæfir um að skipta sér af atvinnulífinu. Sem sagt, vestrænar ríkisstjórnir þvælast fyrir einkaframtakinu … en níu gamlir kommar í lokuðu herbergi í byggingu flokksins í Peking gera allt rétt!

Bólan í Kína fylgir sömu uppskrift og aðrar bólur sem við þekkjum úr fortíðinni.

Kína er búið að ganga í gegnum öll skrefin, nema óðaverðbólgu og hrun banka, og stór gjaldeyrissjóður kemur ekki í veg fyrir kerfishrun. Varasjóður gerir þó enduruppbygginguna miklu auðveldari. Kínverska stórveldið verður fyrir miklum áföllum, en það breytir ekki þeirri staðreynd að Asía (að Japan undanskildu) verður mikilvægasta viðskiptasvæði heimsins eftir nokkur ár.

Framhald …