vald.org

Þegar stórveldi falla 3

28. apríl 2010 | Jóhannes Björn

Stórveldi falla þegar þau teygja sig of langt, innra siðferði dvínar og þjóðarauðurinn safnast á of fáar hendur. Stórveldi komast sjálfkrafa í þá aðstöðu að framleiða gjaldmiðil sem hefur greiðan aðgang að öllum mörkuðum og þau undantekningalaust notfæra sér þau forréttindi í allt of ríku mæli. Það er óskaplega þægilegt að geta prentað stórar fúlgur árum saman til þess að greiða fyrir styrjaldarekstur og annað sem raunverulega er enginn peningur fyrir, en þegar skuldadagarnir renna upp eru afleiðingarnar blátt áfram skelfilegar. Þegar sterlingspundið datt úr hásætinu 1944, og glataði stöðu sinni sem viðmiðunargjaldmiðill, hófst skeið 40 ára efnahagslægðar í Bretlandi.

Indverski hagfræðiprófessorinn Raveendra Batra smíðaði einu sinni skemmtilega ópólitíska kenningu um hvernig stórveldi rísa og falla. Samkvæmt Batra ganga þau venjulega í gegnum fjögur tímabil.

Það er frekar einfalt að rekja þessa þróun, bæði í Rómarveldi og hjá breska heimsveldinu, en samkvæmt Batra voru viðskiptajöfrarnir búnir að ná völdum þegar Bandaríkin voru stofnuð og þeir hafa haldið þeim allar götur síðan. Viðskiptatýpan var mjög nálægt því að hrekjast frá við hrunið sem byrjaði 1929 (og magnaðist aftur 1937), en seinni heimstyrjöldin breytti síðan öllu.

Krónískur viðskiptahalli Bandaríkjanna, skuldasöfnun ríkissjóðs og vaxandi halli á næstu árum benda til þess að stórveldið sé í verulegri hættu. Það er kannski tímanna tákn að fyrirtæki Warren Buffett gat nýlega selt skuldabréf á lægri vöxtum heldur en bandaríska ríkið! Eftirfarandi línuriti sýnir nokkuð vel hvers vegna traust á bandarískum skuldapappírum getur á næstunni átt á brattan að sækja.

Þarna sjáum við (bláa strikið) hvernig hver bólan á fætur annarri (sparisjóðaskandallinn, hrun Long Term Capital, tæknibólan og loks fasteignabólan) hafa keyrt stýrivexti niður á núllið á meðan peningaframleiðslan skilar sér í formi sífellt hærri skulda í einkageiranum, sem prósenta af þjóðaframleiðslu (og náttúrulega enn frekar í ríkisrekstrinum, sem ekki er sýnt á þessu grafi). Það er dásamlegt að prenta peninga á meðan það er hægt, en á einhverjum punkti—já, jafnvel þótt stýrivextir standi því sem næst á núllinu—þá getur hagkerfið ekki borgað til baka. Aðeins stórlækkað vöruverð, innflutt frá Kína og öðrum þrælakistum, kom í veg fyrir að verðbólgan stöðvaði þessa peningaframleiðslu miklu fyrr.

Sjöl sem hafa verið að koma upp á yfirborðið, m.a. frá Goldman, Lehman og A.I.G. tryggingarisanum, sýna það sem marga grunaði. Þessi fyrirtæki voru á kafi í ólöglegri starfsemi og bera ásamt nokkrum öðrum fjármálafyrirtækjum sök á kreppunni. Lehman faldi tapið lengi með því að “leggja" verðlausum pappírum í gervifyrirtækjum í nokkra daga í senn rétt fyrir uppgjör. Það var nógu slæmt, en hitt e.t.v. enn skelfilegra að seðlabankinn vissi hvað fyrirtækið var að bralla. Þrotabú A.I.G. var líka notað til þess að ausa úr sameiginlegum sjóðum fólksins þegar elítan fékk, með samþykki seðlabankans (sem í tölvupósti bað A.I.G. að halda því leyndu), 100% upp í skuldirnar í stað 40–60% eins og venjan er í svona gjaldþrotum. Raunveruleg völd peningayfirstéttarinnar hafa sjaldan komið betur í ljós.

Ástandið í Bandaríkjunum er farið að minna óþyrmilega á síðustu daga Rómarveldis. Stríðsmaskínan gengur sjálfkrafa þrátt fyrir tóman ríkiskassa, embættismannkerfið stígur trylltan dans við peningaelítuna og millistéttin skreppur saman. Yfir öllu þessu þruma raddir öfgahópa á borð við Fox News og þeirra sem vilja byssur inn á hvert heimili. Yfir 10% allra barna landsins eru komin á geðlyf vegna þess að þau eru of fjörug eða haldin athyglisbresti. Fullorðnir deyfa meðvitundina fyrir framan imbakassann sem í vaxandi mæli dælir út ankannalegu efni eins og raunveruleikaþáttum, en margir þeirra hefðu sæmt sér ágætlega í rómversku hringleikjahúsi. Andlega heilbrigt og heiðarlegt fólk í Bandaríkjunum á sannarlega mikið starf fyrir höndum ef því á að takast að snúa þróuninni við … En kannski er of langt liðið á veisluna.