vald.org

Hvert stefnir hagkerfi heimsins?

18. júní 2010 | Jóhannes Björn

Ástandið er farið að minna óþægilega mikið á stöðuna eins og hún var haustið 2008. Bankar, aðallega í Evrópu, hanga á horriminni og skrimta aðeins vegna þess að seðlabankar kaupa af þeim rusl. Millibankalán eru að dragast saman og lánalínur yfir höfuð að þrengjast eða lokast. Ríkissjóðir margra landa eru tæknilega gjaldþrota.

Þetta er búið að vera eitt allsherjar klúður. Eftir að helstu stórbankar heimsins voru búnir að margfalda pappírsverðmæti í umferð með glæpsamlegum hætti—studd dyggilega af virtum matsfyrirtækjum sem fengu borgað fyrir að gefa ruslapappírum bestu einkunn—hrundi spilaborgin haustið 2008. Vandinn sem þá blasti við var í sjálfu sér ekki flókinn. Skuldirnar í kerfinu voru allt of miklar og eðlilegt framhald hefði verið að grynna á þeim með því að núllstilla helstu sökudólgana. Með öðrum orðum, það átti að gera upp alla gjaldþrota banka og selja þá síðan aftur í minni einingum.

En það er langt síðan sama elítan og ræður bankakerfinu keypti pólitísku yfirstéttina og þess vegna var skuldum bankakerfisins velt beint yfir á skattgreiðendur. Ofurskuldir bankanna breyttust einfaldlega í ofurskuldir fólksins. Í Bandaríkjunum, sem dæmi, þá hafa allir nema nokkrir risabankar (þeir sem settu kerfið á hausinn) tapað stórt—líka minni bankar vegna þess að þeir þurfa að borga hærri gjöld og tryggingar en ella í kjölfar hrunsins. Óréttlætið er hrikalegt, eins og Forbes bendir á, því 2009 græddu sex öflugustu bankar landsins, hrunbankarnir, $51 milljarða á meðan 980 minni bankar töpuðu peningum (sem heild)!

Það er aðeins ein skýring á þessari dapurlegu stöðu: Þingheimur er upp til hópa á spena peningaelítunnar.

Reynsla síðustu tveggja ára sýnir að bandaríska stjórnkerfið á sífellt erfiðra með að leiðrétta óréttlæti sem fjársterkir aðilar standa á bak við. Það má kannski segja að Hæstiréttur landsins hafi staðfest sérstöðu peningavaldsins þegar hann ákvað að fjárstyrkir til flokka og stjórnmálamanna flokkuðust undir málfrelsi. Peningaaustur í þingheim kemur í veg fyrir endurbætur á borð við þær sem voru gerðar við svipaðar aðstæður á milli 1930–1936, en samkvæmt Washington Post þá starfa þessa stundina yfir 1400 fyrrverandi þingmenn og fyrrverandi starfsmenn þingsins á góðu kaupi sem talsmenn (þrýstihópur) fyrir bankaveldið og fjármálafyrirtæki á Wall Street.

Vangadans pólitíkusanna við elítuna varð til þess að ríkissjóðir margra landa beinlínis gáfu bönkunum peninga skattgreiðenda. Það hafði aftur hafði þær eðlilegu afleiðingar að skattgreiðendur (ríkissjóðir) neyddust til þess að skuldsetja sig enn frekar með sölu ríkisskuldabréfa … sem þessir sömu bankar síðan keyptu og græddu á vexti!

Ríki Evrópusambandsins eru að sigla inn í nýja efnahagslægð. Bæði bankar og ríkisstjórnir berjast í bökkum og seðlabanki evrulands er búinn að kaupa rusl af bankakerfinu fyrir tugmilljarða evra á sama tíma og hann hefur verið að kaupa ríkisskuldabréf af Grikklandi, Portúgal og Spáni.

Flest ríki Evrópusambandsins hafa boðað mikinn niðurskurð, en enginn hefur enn útskýrt hvernig minni hagvöxtur og meira atvinnuleysi borgar fyrir skuldirnar. Grikkland er að selja hænurnar sem verpa gulleggjunum—vatnsréttindi, járnbrautirnar, póstinn og fleira—til þess að borgar upp skuldir. Hvaðan eiga tekjur landsins að koma í framtíðinni eftir að sameigninni hefur verið sóað?

Kostnaður við að tryggja ítölsk ríkisskuldabréf er að rjúka upp. Fyrir nokkrum dögum (4. júní) kostaði $49.000 á ársgrundvelli að tryggja 10 ára bréf að nafnvirði $10 milljónir. Fimm dögum síðar kostaði þessi sama trygging $250.000 á ári.

Fyrirtæki á Spáni eru ekki lengur gjaldgeng á alþjóðlegum lánamarkaði á meðan bankakerfi landsins er að hrynja og að stórum hluta á framfæri evrópska seðlabankans. Einshvers konar björgunarpakki er í sjónmáli fyrir Spán og næst kemur röðin að Portúgal.

Evruland er að gliðna í sundur og ástandið er lítið betra í Vesturheimi.

Þrátt fyrir mikil húrrahróp pólitíkusa og klappkór fjölmiðlafólks benda allar grundvallarstaðreyndir til þess að hagkerfi Bandaríkjanna hafi aldrei náð sér upp úr efnahagslægðinni sem hófst í kjölfar bankakreppunnar. Atvinnuleysi er enn meira en það hefur verið frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar og opinberar skuldir eru í sögulegu hámarki. Raunverulega er peningakerfið sjálft búið að missa dampinn vegna ofurskulda og þróunin virðist liggja í þá átt að það sé sífellt erfiðara að vinna sig út úr efnahagslægðum. Þetta línurit sýnir þessa þróun. Atvinnusköpun er hægari og hægari í hverri efnahagslægð (punktalínan sem kemur út úr rauða strikinu sýnir stöðuna ef tímabundnar ráðningar manntalsins eru dregnar frá).

Bandaríska hagkerfið nær sér ekki á strik fyrr en fasteignamarkaðurinn nær einhverju lífsmarki og þá sérstaklega þegar ný íbúðarhverfi byrja að rísa í einhverju mæli. Reynslan sýnir að allir uppgangstímar einkennast af hækkandi fasteignaverði þar sem fólk notar húsin sín eins og skyndibanka eða stökkpall til þess að komast í dýrara húsnæði. Lán sem fólk slær út á fasteignir sinar, prósentuhlutfall miðað við eyðslutekjur, sýna hvernig þessi þróun hefur verið. Allt fyrir ofan núllið sýnir hvenær fasteignir hafa dælt peningum inn í hagkerfið og allt fyrir neðan núllið á hvaða tímabili fasteignir hafa verið dragbítur á hagkerfinu.

Margir halda í þá von að Asía eigi eftir að bjarga hagkerfi heimsins. Það er frekar ólíklegt að lönd sem aðallega stóla á útflutning geti púkkað mikið upp á hagkerfi landa sem eiga að kaupa þennan sama útflutning. Stærstu hagkerfi Asíu í Japans og Kína eiga líka á brattan að sækja. Skuldir Japans nálgast 200% þjóðarframleiðslu og það er ólíklegt að erlendir fjárfestar sætti sig mikið lengur við minna en 2% vexti af 10 ára japönskum ríkisskuldabréfum. Kerfið hefur hingað til skrölt áfram vegna þess að innlend eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum er mjög mikil, en ört hækkandi meðalaldur er að draga úr þeirri eftirspurn.

Fasteignabólan í Kína er sú rosalegasta sem um getur í viðskiptasögunni og hún á tímabundið eftir að keyra niður hagkerfi landsins. Það er ekki raunverulegt fyrir flestum Kínverjum að fasteignir geta stundum lækkað í verði. Þeir hafa aldrei séð slíkar lækkanir. Það er ekki óalgengt að leigubílstjórar í minni borgum úti á landsbyggðinni hafi fjárfest í tveim til þrem íbúðum. Fólk sefur í röðum fyrir utan fasteignasölur, oft með plastpoka fulla af peningaseðlum fyrir útborgun, og slæst um að kaupa íbúðir sem ekki er byrjað að byggja. Fyrstu merkin um að loftið sé byrjað að leka úr þessari bólu komu nýlega þegar áhættuþóknun á endurseldum fasteignalánum hækkaði. Þegar verðhrunið á annað borð byrjar þá gerast hlutirnir oftast ótrúlega fljótt.