vald.org

Gunnar Tómasson: Bréf til forsætisráðherra

30. júní 2010 | Gunnar Tómasson

Bethesda, Maryland

Bandaríkjunum

30. júní 2010

Hæstvirtur forsætisráðherra.

"Þótt tímabundin óvissa ríki um endanlega niðurstöðu dómstóla er mikilvægt að stöðuleiki á fjármálamarkaði verði áfram tryggður," segir í upphafi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um þau fyrirmæli sem Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið gaf fjármálastofnunum í dag að höfðu samráði við þær um viðbrögð við úrskurði Hæstaréttar um gengisbindingu höfuðstóls krónulána.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, og Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, létu undir höfuð leggjast að útskýra í inngangsorðum sínum á blaða- og fréttamannafundi um fyrirmælin í hverju meint "óvissa" felst. Augljóslega varðar hún ekki lögmæti gengisbindingar höfuðstóls krónulána sem Hæstaréttar úrskurðaði að bryti gegn lögum nr. 38/2001.

"Með tilmælum sínum eru eftirlitsstofnanirnar að lýsa því yfir að það sé eindreginn skilningur þeirra […] að í tilfellum þar sem lánasamningur hefur verið dæmdur ólögmætur skuli uppgjör og endurgreiðslur taka mið af 18. og 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, nema aðilar semji um annað," sagði Arnór. Um það ríkir engin "óvissa" enda kveða lögin skýrt á um það.

Eftir stendur þá atriði sem Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, tjáði sig um 23. júní sl. á forsendum sem varða ekki lögfræðileg álitamál heldur hagfræðilega skilgreiningu á hugtakinu "vextir" annars vegar og "gengisáhætta" hins vegar. Hér vísast til eftirfarandi umsagnar seðlabankastjóra sem höfð var eftir honum á pressan.is:

Bætir hann við að aldrei hefði verið lánað með þessum vöxtum án gengis- eða verðtryggingar, hvorki á þeim tíma sem lánin voru veitt né nú.

Í bréfi mínu til seðlabankastjóra dags. 26. júní sl., með afritum til forstjóra Fjármálaeftirlitsins og alþingismanna, gerði ég eftirfarandi athugasemd við umsögn hans:

"[Umsögnin] byggir á misskilningi […]

Gengistrygging krónulána varðar gengisáhættu tengda erlendum lánum sem lánveitendur taka til að fjármagna krónulán sín.

Vextir á slíkum krónulánum jafngilda því endurgjaldi sem lánveitendur telja sig þurfa til að greiða vexti af viðkomandi erlendum lánum ásamt innlendum kostnaði og hagnaði af lánaviðskiptunum.

Endurgjaldið felst í nafnvöxtum krónulána en gengisáhætta er allt annars eðlis; að óbreyttu gengi hefur gengisbinding krónulána engin áhrif en vextir reiknast skv. lánasamningi.

Íslenzk fjármálafyrirtæki baktryggja sig gegn gengisáhættu dags daglega, en baktrygging kostar peninga.

Með gengisbindingu krónulána var gengisáhætta yfirfærð á lántakendur þrátt fyrir krystaltært bann gegn því í lögum nr. 38/2001.

En um leið tóku lánveitendur aðra áhættu: að íslenzkir dómstólar yrðu kvaddir til að staðfesta brot þeirra á umræddum lögum."

Varðandi hlutverk Fjármálaeftirlitsins við þessar aðstæður bætti ég m.a. við eftirfarandi:

"Úrskurður Hæstaréttar breytir engu um þann vaxtamun sem fjármálafyrirtæki töldu viðunandi að óbreyttu gengi.

Það eina sem breytist er að gengisáhætta sem var yfirfærð ólöglega á lántakendur lendir nú á viðkomandi lögbrjótum.

Yfirfærsla gengisáhættunnar á lántakendur með hækkun umsaminna vaxta jafngildir gengisbindingu krónulána.

Og hunsun viðkomandi ábyrgðaraðila á ákvæðum laga nr. 38/2001 og stöðu Hæstaréttar í íslenzku stjórnkerfi."

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur