vald.org

Hver stjórnar Íslandi?

5. júlí 2010 | Jóhannes Björn

Allar götur síðan hagkerfið hrundi haustið 2008 hafa ráðamenn þjóðarinnar verið ótrúlega úrræðasnauðir og allt að því lamaðir. Þeir hafa muldrað eitthvað um aðsteðjandi aðgerðir og ásetning um að slá skjaldborg um heimilin, en verkin hafa aldrei verið látin tala. Þetta aðgerðaleysið hefur verið bæði siðlaust og glæpur gagnvart tugþúsundum einstaklinga sem eru að sökkva í skuldafenið.

Nú hefur grútmáttlaus ríkisstjórn landsins gengið einu skrefi lengra. Frekar en að bara horfa aðgerðalaus á heila kynslóð sökkva hefur hún mannað sig upp í að reka þessu fólki bylmingshögg með því að breyta einhliða skilmálum gjaldeyristryggðra lána. Já, loksins þegar ríkisstjórnin fór að gera eitthvað róttækt (svörtuloft og handónýtt fjármálaeftirlit voru látin boða skítverkið) þá braut hún lög til þess að tryggja áframhaldandi píslargöngu skuldara.

Allir sem nenntu að lesa lögin vissu (og þessi síða benti oft á) að gjaldeyristrygging lána var ólögleg. Bankarnir brutu lög til þess að geta sniðgengið aðhald sem bindiskylda og háir stýrivextir áttu að tryggja. Eftir að Hæstiréttur dæmdi þetta ákveðna ákvæði lánasamninganna ólöglegt, stóðu önnur samningsatriði auðvitað óhögguð. Allar vangaveltur um að eitthvað annað komi til greina eru ekkert nema útúrsnúningar.

Til þess að afla þessari rökleysu fylgi hafa stjórnvöld gripið til gamals ráðs, að skapa togstreitu á milli tveggja hópa fórnarlamba, fólksins sem skuldar gjaldeyristryggð lán og hinna sem sitja uppi með venjuleg verðtryggð lán. Umræðan er látin snúast um óréttlæti þess að annar hópurinn sleppi betur, þegar hið eina rétta í stöðunni er að leiðrétta líka verðtryggðu lánin.

Hagkerfi sem leyfir verðtryggingu lána getur ekki talist frjálst eða á nokkurn hátt eðlilegt. Eins og alltaf þegar menn búa til annarlegar lausnir þá láta slæmar afleiðingar ekki á sér standa.

Verðtryggingin átti stóran þátt í að fasteignaverð hækkaði allt of ört árum saman. Verðtryggingin gerði bankakerfinu kleift að spila með gengi íslensku krónunnar 2008. Þetta glæpsamlega hringl með krónuna gróf undan trausti landsins á erlendum peningamörkuðum og átti sinn þátt í að kerfið loks hrundi.

Þegar fólk í öðrum löndum kaupir sér þak yfir höfuðið—og við skulum gleyma þessu stutta tímabili taumlausra lána sem setti kerfið víða á hausinn—þá ráða mánaðartekjurnar algjörlega ferðinni þegar boðið er í eignirnar. Ef eyðslutekjur hjóna (eftir skatta) eru 400.000 á mánuði þá er algeng regla að gera ráð fyrir að þau geti endurborgað lán sem ber 120.000 mánaðargreiðslur (30% ráðstöfunartekna). Það er lán upp á um 20 milljónir á 6% föstum vöxtum til 30 ára. Ef vextir hækka upp í 8% þá lækkar lánshæfni þeirra hjóna niður í 16,4 milljónir, þannig að við sjáum innbyggt viðnám gegn okurvöxtum. Eftirspurn eftir lánum dregst strax saman ef kostnaðurinn kemur strax fram.

Verðtrygging lána lækkar mánaðargreiðslurnar óeðlilega vegna þess að verðbólgan—sem aðrar þjóðir reikna beint inn í föst lán með hærri prósentu—bætist við höfuðstólinn og er því ekki eðlilegur hluti greiðslubyrðarinnar. Fólk býður því hærri upphæðir í húsnæðið en það raunverulega getur borgað. Timburmennirnir hlaðast bara upp á hinum endanum. Verðtryggingin hélt sennilega verði íbúðarhúsnæðis 10–15% of háu árum saman.

Verðtryggingin er líka siðlaus. Hvernig stenst það í frjálsu hagkerfi þar sem tveir aðilar semja að aðeins annar þeirra, lántakandi, taki á sig alla áhættu vegna verðbólgu og óstjórnar í framtíðinni? Og það leiðir okkur að öðru hrikalegu óréttlæti.

Bankakerfið gat leikið sér að því að fella gengið hvað eftir annað 2008 vegna þess að flest innlend útlán þeirra voru verðtryggð. Verðbólgan æddi náttúrulega upp með lækkandi gengi en þeim stóð nákvæmlega á sama. Bankakerfið hefði ekki grætt neitt á gengisfellingum ef útistandandi lán þeirra hefðu rýrnað um leið. Kerfið hefur sem sagt rétt til þess að græða á báðum endum.

Verðtryggingin er byggð á röngum forsendum vegna þess að hún kemur í veg fyrir að framboð og eftirspurn lækki eða hækki vexti þegar það á að gerast. Hún felur raunverulegan kostnað og eykur greiðslubyrðina þegar spurt er að leikslokum. Þetta er auglýst sem eitthvað gustukaverk en þjónar aðeins okurlánurum.

Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 yfirtók nýi Landsbankinn (og þá væntanlega hinir bankarnir líka) fasteignalán gamla bankans með miklum afföllum. Ef þetta er rétt þá er ljóst að það var nóg svigrúm á sínum tíma til þess að leiðrétta öll gengis- og verðtryggð lán og algjörlega ófyrirgefanlegt að það skyldi ekki hafa verið gert.

Menn—já, og meira að segja stjórnmálamenn—geta ekki klúðrað öllu sem þeir taka sér fyrir hendur. Líkindalögmálið segir okkur að jafnvel algjörlega óhæft fólk hljóti annað veifið að álpast á réttar lausnir. Samt hefur allt verið gert rangt þegar heimilin eru annars vegar. Eina skynsamlega skýringin er sú að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé hin raunverulega ríkisstjórn Íslands.

Allt sem hefur verið að gerast er í anda raunverulegrar stefnu sjóðsins eins og hún hefur verið úfærð víða um heim í marga áratugi. Tillaga á Alþingi þess efnis að fasteignaskuldir féllu niður þegar búið er að bera fólk út á götu var svæfð og óréttlátar skuldir halda áfram fylgja fólki ævilangt. Þegar Hæstiréttur dæmdi gengistrygginguna af höfðu fulltrúar AGS "áhyggjur" og ríkisstjórnin tók þegjandi við tilskipuninni. Það fór meira að segja fyrir brjóstið á AGS að einhver skyldi leggja til að fólk fengi að leigja húsin sín eftir að bankinn var búinn að stela þeim. Flutningsaðili tillögunnar var kallaður inn á teppið hjá sjóðnum og hundskammaður.

Hvenær ætla Íslendingar upp til hópa að rísa upp á móti þessum nýju nýlenduherrum og segja: Hingað og ekki lengra!