vald.org

Gull

19. júlí 2010 | Jóhannes Björn

Síðan íslenska bankakerfið hrundi og tók krónuna með sér í fallinu hefur umræða um gull og hugsanlega gulltryggingu gjaldmiðilsins verið nokkuð áberandi. Þessi umfjöllun hefur á köflum verið býsna ruglingsleg, sem bendir til þess að sumir sem hafa tjáð sig um málið hafi ekki kynnt sér sögulegt hlutverk góðmálma nógu vel. Eða hvernig gull tengjast tæknilegum hliðum nútíma peningakerfisins. Hnattvæðingin í sinni núverandi mynd—algjörlega stjórnlaust klúður sem örfáir hagsmunaaðilar hafa grætt mest á—hefði t.d. verið óhugsandi ef gullmyntfóturinn (tenging dollara við gull) hefði ekki verið afnuminn 1971.

Við upphaf líðandi aldar var ljóst að gullverð átti eftir að hækka mikið og síðan vald.org fyrst mælti með því hefur únsan hækkað um nær 300%. Flest bendir til þess að gullverðið eigi enn eftir að hækka mikið á næstu mánuðum og árum. Það er auðvelt að færa rök fyrir því að gullúnsan ætti að vera komin vel yfir $2000 í dag. Seðlabankar og pappírsgullsalar hafa hins vegar með stöðugum árásum komið í veg fyrir eðlilega verðþróun á þessum markaði.

Við lifum á miklum óvissutímum þar sem helstu gjaldmiðlar heimsins eru í kapphlaupi niður á botninn. Skuldabagginn sem hvílir á herðum hagkerfanna sem framleiða dollara, evrur, jen og fleiri gjaldmiðla er að knésetja kerfið eins og það leggur sig. Ofurskuldum elítu bankakerfisins hefur verið velt yfir á skattgreiðendur og nú blasir við hrikalegur niðurskurður sem bitnar á öllum nema þeim sem settu kerfið á hausinn. Á sama tíma er trilljónum ausið í tilgangslaus stríð—ófrið sem virðist endalaus vegna þess að óvinurinn skiptir litum eins og kamelljón þegar hann er aðeins skilgreindur sem hugtak (terror)—og allar líkur á að fleiri stríð séu í uppsiglingu. Við þessar aðstæður getur gull ekki annað en hækkað.

Þegar fólk almennt áttar sig á að skuldir margra ríkja verða "peningavæddar"—seðlabankar landanna kaupa ríkisskuldabréf í stórum stíl—þá hækkar gull eins og annað sem heldur verðgildi sínu. Ef Íran verður fyrir loftárásum stórhækka bæði olía og gull. Þegar nógu margir setja spurningarmerki við áframhaldandi sérstöðu dollarans, en það er aðeins er spurning um tíma, þá stórhækkar gullverðið.

Sannleikurinn er einfaldlega sá að pappírspeningar eru nær verðlausar þynnur, búnar til úr jurtatrefjum, sem búið er að sletta á bleki og fólki er skipað að nota í skiptum fyrir vinnu, vörur eða þjónustu. Það er ekkert á bak við þessa seðla og fólk notar þá af gömlum vana. Reynslan hefur sýnt því að aðrir taka líka við þessum pappírum—það er allt of sumt. Áður en bankamönnum tókst að slá ryki í augu fólks með nútíma gullgerðalist var hægt að skipta flestum pappírspeningum fyrir ákveðið magn gulls eða silfurs.

Vegna þess að peningakerfi nútímans byggist á sjónhverfingum, bókhaldsbrellum þar sem lán verða til úr engu og fáir útvaldir eru í aðstöðu til þess að græða vexti á þeim, þá lítur elítan á gull sem stöðuga ógnun. Ekker minnir fólk meira á fáránleika pappírspeninga heldur en hækkandi gullverð. Ekkert sýnir veikleka viðmiðunargjaldmiðilsins, dollarans, betur en hækkandi gullverð. Það eru líka pratískar ástæður fyrir stríðinu gegn gulli. Eins og bent er á í ritgert Larry Summers, valdamesta manns í fjármálaráðuneyti stjórnar Obama, og Robert B. Barsky, Gibson's Paradox and the Gold Standard þá eru bein tengsl á milli gullverðs og vaxtastigs ríkisskuldabréfa. Með öðrum orðum, gullið þvælist fyrir þeim sem reyna að stjórna skuldabréfamarkaðinum með handafli og þess vegna verður líka að reyna að stjórna gullverðinu með handafli.

Gullstríðið er vonlaust, eins og 300% hækkun á innan við sjö árum sýnir, en pappírskóngarnir gefast ekki upp fyrr en risastór pappírsgullmiðlari rúllar á hausinn. Það gerist fyrr en síðar. Seðlabankar hafa lánað þessum milligönguaðilum gull á gjafavöxtum, gagngert til þess að skapa framboð sem heldur verðinu í skefjum. Þessir miðlarar virðast hafa selt miklu meira gull í pappírsformi heldur en þeir eiga og þeir ráðast reglulega á markaðinn með skortsölum til að lækka heimsmarkaðsverðið.

Undanfarnar vikur hefur gullmarkaðurinn, tæknilega séð, verið að reyna að brjótast í gegnum $1260. Frekar óvæntar og glannalegar skortsölur hafa hvað eftir annað varið þetta mikilvæga vígi (hæðsta dollaraverð allra tíma þegar verðbólgunni er sleppt). Nýjasta útspil pappírsliðsins var að láta sjálfan seðlabanka seðlabankanna, Bank for International Settlements (gamla nasistabankann í Sviss sem er nokkurs konar fríríki og svissnesk lög ná ekki yfir!) taka veð í 380 tonnum gulls í ónefndum seðlabanka í skiptum fyrir gjaldeyri. Þessi tíðindi keyrðu gullverðið niður um yfir $60 á stuttum tíma, en til þess var leikurinn sennilega gerður.