vald.org

Ungverjaland mætir mafíunni

25. júlí 2010 | Jóhannes Björn

Þegar löndin austan gamla járntjaldsins fengu sjálfstæði eftir fall Sovétríkjanna voru hagkerfi þeirra í alla staði mjög aftarlega á merinni. Framleiðslutæknin var úrelt og allt skipulag í ólestri eftir áratuga miðstýringu og spillingu. Í auðninni glóði þó einn geimsteinn, fasteignamarkaðurinn, sem var svo gott sem skuldlaus. Erlendir spekúlatar voru mjög fljótir að stökkva á hann. Á sama tíma lögðu undir sig tryggingfélög landanna.

Sænskir bankar voru stórtækastir í Eystrasaltslöndunum og austurrískir bankar í gömlu kommúnistaríkjunum, sem hér áður fyrr tilheyrðu veldi Habsborgara. Þessir bankar græddu svívirðilegar upphæðir á því að þenja út fasteignabólu—og það var létt verk við ríkjandi aðstæður. Í nútíma peningakerfi eru bankarnir eins og blóðsugur sem dafna best þegar raunveruleg verðmæti, fasteignir eða fyrirtæki, hækka markvisst í verði. Tæknilega séð ganga hlutirnir þannig fyrir sig að bankarnir setja nýtt fjármagn í umferð með bókhaldsaðferðum—ný lán eru skuldir sem veitt er inn í hagkerfið og veðin sem koma á móti eru færð í bækur bankanna sem eign—og vextir og annar kostnaður situr eftir sem gróði.

Í gömlu kommúnistaríkjunum var þessi leikur óvenju auðveldur vegna þess að fasteignir kostuðu mjög lítið til að byrja með og almenningur skildi ekki hvað var að gerast. Fólk hafði aldrei upplifað fasteignabólu og hélt að eðlileg markaðslögmál réðu ferðinni. Annað bragð bankanna, og þá sérstaklega í Lettlandi, var að fá fjölda manns til þess að ábyrgjast lánin. Vinir og vandamenn skrifuðu undir í þeirri trú að bankamenn stunduðu eðlilega lánastarfsemi á eðlilegum fasteignamarkaði. Þegar markaðurinn sprakk—og gamla austurblokkin býr við sama óréttlæti og Íslendingar, þar sem lánin eru ekki aðeins tryggð með viðeigandi fasteignum, heldur loða þau við lántakendur og ábyrgðarmenn þeirra ævilangt—þá voru bankarnir í aðstöðu til þess að gera obba millistétarinnar gjaldþrota á einu bretti.

Í stuttu máli græddu erlendir bankar stórar upphæðir á píramídalánum í gömlu kommúnistaríkjunum, þar sem lánastefna bankanna sjálfra hækkaði fasteignaverð upp úr öllu valdi. Margfalt fleiri en beinir lántakendur gengu í ábyrgð fyrir þessum pappírum, sem í eðli sínu voru ekkert annað en Ponzi-svindl. Duglegasta og best menntaða fólkið (hóparnir sem alls staðar eru líklegastir til þess að kaupa sér þak yfir höfuðið eða fjárfesta í fasteignum) var þurrkað út og landflótti hæfustu einstaklinga landanna bættist við öngþveitið.

Það er grátlegt til þess að hugsa, að ef þessi lönd hefðu takmarkað erlenda bankastarfsemi og innlendir bankar hefðu leikið þennan leik, þá hefði verið frekar auðvelt að leysa vandann með bókhaldslegum tilfærslum. En erlendu bankarnir vilja fá borgað í evrum og þess vegna er verið að skera fólk niður við trog.

Sem dæmi þá hefur verð fasteigna í Lettlandi fallið um 70% á meðan laun hafa verið stórlækkuð og félagsleg þjónusta dregin saman. Þjóðarframleiðslan hefur skroppið saman um 22% á tveim árum, atvinnuleysi er yfir 20% og hrikalegur niðurskurður í námskerfinu ógnar afkomu þjóðarinnar um langa framtíð.

Í Litháen var virðisaukaskattur hækkaður úr 18% í 21%, eftirlaun lækkuð um 11% og ríkisútgjöld lækkuð um 30%. Þessi villti niðurskurður varð til þess að auka atvinnuleysi í 14% og lækka hagvöxt síðasta árs um 15%.

Lénsskipulagið er endurfætt.

Hér er ekki verið að halda því fram að erlendir bankar séu alltaf af hinu illa, heldur benda á augljósa hættu sem Íslendingar og aðrir ættu að hafa í huga áður en erlendum aðilum er hleypt í þá aðstöðu að búa til skulbindingar, búnar til með bókhaldsaðferðum, sem eingöngu byggja á raunverulegum verðmætum viðkomandi lands. Það sparar dýrmætan gjaldeyri að láta innlenda banka sjá um þetta bókhaldsvindl, en auðvitað væri best að breyta peningakerfinu og leggja niður "fractional" lánastarfsemi (þar sem bankinn á aðeins brot af því sem hann lánar og býr til nýjar innisæður í hvert sinn er hann lánar).

Ungverjaland hefur nokkur síðustu ár gengið sömu píslargöngu og flest gömlu kommúnistaríkin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið komu þar snemma inn í dæmið og fyrirskipuðu strax aðgerðir þar sem fórnarlömbum glannalegrar bankastarfsemi útlenskra banka var kennt um glæpinn. Þrátt fyrir stanslausan niðurskurð árum saman og skattahækkanir sem hafa dregið saman hagvöxt og aukið almenna fátækt, þá þykir varðhundum elítunnar, með AGS í farabroddi, aldrei nóg gert.

Nei, það er aldrei nógur niðurskurður eða skattheimta … þ.e. þar til ríkisstjórn Ungverjalands ákvað að leggja 0,5% veltuskatt í 36 mánuði á banka, peningastofnanir og tryggingafélög.

Eins og töfrasprota væri veifað var það allt í einu slæm hagfræði að skattleggja fyrirtæki, þ.e.a.s. fyrirtæki elítunnar! Erste og Raiffeisen, bankar með höfuðstöðvar í Vínarborg, kvörtuðu sáran: "Þessi skattur er aðeins skyndilausn", sagði Juraj Kotian hjá Ereste. "Hann veitir enga varanlega lausn hvað varðar kerfisbundna lækkun ríkisútgjalda." Möppudýr Evrópusambandsins heimtuðu "mikla leiðréttingu" því annars gæti skatturinn orsakað tekjutap sumra banka og minni hagvöxt (en það er í lagi að rústa heilu hagkerfunum með því að svelta fólkið). Hrottalegasti handrukkari hópsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, var þó ekkert að tvínóna við hlutina og tók til baka loforð um lán upp á 5,5 milljarða evrur. Hljómar kunnuglega?

Bankamafían er sannarlega bíræfin. Allt gerðist þetta á nokkrum dögum og nú síðast risu Moody's og Standard & Poor's upp á afturlappirnar. Það á að grípa til gamla bragðsins sem við Íslendingar þekkjum svo vel og lækka lánshæfnismat ungverska ríkissins. Þetta er algjör þversögn vegna þess að peningaskatturinn lækkar skuldir ríkissins og áhættumatið ætti því að ganga í hina áttina.

Bankamafían á eftir að reyna að refsa Ungverjalandi á eftirminnilegan hátt. Í augum þessara manna—sem settu hagkerfi heimsins á hausinn og létu síðan skattgreiðendur bjarga sér—má ekki skapa fordæmi sem sýnir að hægt sé að leika eftir öðrum reglum en þeim sem elítan hefur búið til. Elítan er tilbúin að herða þumalskrúfurnar þar til allt lendir á brunaútsölu. Bankastofnanir og tryggingafélög (sem líkt og bankar liggja alltaf með mikið fé viðskiptavina sinna) eru alltaf efst á óskalista elítunnar. Auðlindirnar koma svo næst. Höfum þetta stöðugt í huga og sláum alvöru skjaldborg um íslenskar auðlindir. Höfum líka vakandi auga á hverjir hljóta þau forréttindi að geta framleitt skuldir sem veðsetja auðæfi Íslands. Þetta síðasta atriði er gífurlega vanmetið.