vald.org

Gull … framhald

2. ágúst 2010 | Jóhannes Björn

Samkvæmt Bretton Woods samkomulaginu frá 1944 var gengi Bandaríkjadals fest við gull og hver únsa kostaði $35. Seðlabankar utan Bandaríkjanna gátu skipt dollurum fyrir gull á ákveðnu verði og hugmyndin með þessu kerfi var að koma í veg fyrir óeðlilega mikla eða einhliða peningaframleiðslu einstakra ríkja, t.d. vegna þráláts ríkis- eða viðskiptahalla. Í þessu kerfi var dollarinn einfaldlega staðgengill gulls.

Frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar og þar til 1971 ríkti mikill stöðugleiki á helstu viðskiptamörkuðum heimsins og lífskjör fólks fóru almennt batnandi. Öll vel rekin hagkerfi kappkostuðu að viðhalda eðlilegu jafnvægi á milli inn- og útflutningstekna. Varasjóðir í dollurum (gulli) þóttu líka sjálfsagðir. Vegna þess að gull (dollarar) skiptu um hendur gátu einstök ríki ekki fylgt einhliða stefnu og t.d. flutt út vörur án þess að kaupa nokkuð til baka eða stundað innflutning án teljandi útflutnings. Gullskortur (mældur í dollurum) kom fljótt í veg fyrir að mikið ójafnvægi myndaðist á milli inn- og útflutningstekna.

Bretton Woods samkomulagið hafði marga kosti, en það dugði samt ekki í nema í aldarfjórðung vegna þess að kjölfesta kerfisins brást. Bandaríkin voru í þeirri einstöku aðstöðu að geta borgað útlendingum með því einu að herða á prentvélunum og nýtt ójafnvægi byrjaði að myndast. Ríkisstjórnir, og þá sérstaklega sú franska undir handleiðslu Charles de Gaulle, byrjuðu að ókyrrast og skiptu sífellt fleiri dollaraseðlum í gull.

Sumarið 1971 var orðið ljóst að gullbirgðirnar að Fort Knox myndu fljótlega klárast ef viðskiptahættir breyttust ekkert. Virtasti hagfræðingur landsins, Paul Samuelson, sem nýlega hafði fyrstur Bandaríkjamanna fengið Nóbelsverðlaun í hagfræði, mælti með gengisfellingu dollarans. Gullforðinn hafði rýrnað um meira en helming og nú var ekkert annað að gera en að hækka gullúnsuna úr $35 í einhverja raunhæfari tölu.

Flestum til mikillar furðu kaus Nixon að virða Samuelson að vettugi. Þess í stað gekk hann í smiðju til hræðilegasta hagfræðings allra tíma, Milton Friedman, sem fékk Nixon til þess (eins og það kom mörgum fyrir sjónir) að lýsa yfir óformlegu gjaldþroti Bandaríkjanna. Dollarinn var tekinn úr sambandi við gull með einu pennastriki og allar fyrri skuldbindingar um að skipta þessum pappír í eitthvað annað en meiri pappír voru látnar sigla sinn sjó.

Gull, reiknað í dollurum, var kjölfestan sem hélt hagkerfi heimsins stöðugu á milli 1944 og 1971. Ríkisstjórnir urðu að reiða sig á raunveruleg verðmæti í viðskiptum sín á milli og óraunhæfur viðskiptahalli leiðréttist sjálfkrafa. Eftir að kjölfestan var farin gátu bankar og fjölþjóðafyrirtæki hafið hömlulausa hnattvæðingu og elítan gat þanið peningakerfið margfalt. Hrunið sem hófst 2007 var beint framhald á kerfisbreytingunni sem Milton Friedman hvíslaði í eyra Nixon í ágústmánuði 1971.

Bandaríska hagkerfið hefur lengi verið rekið með krónískum viðskiptahalla, sem þýðir að dollarainnistæður hlaðast upp út um allan heim. Vegna þess að það er ekki hægt að breyta þessum innistæðum í gull á föstu verði þá umhverfast þær í það sem sumir hagfræðingar kalla fjárfestingarkapítal eða umframsparnað. Þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta aðeins dollarar sem hafa hlaðist upp vegna viðskiptahalla.

Allt gull sem hefur verið grafið úr jörðu s.l. 6000 ár er samtals tuttugu rúmmetrar, það er allt of sumt, eða 165.000 tonn. Málpípur bankaelítunnar sem græðir mest á taumlausri peningaframleiðslu—t.d. skóli Milton Friedman í Chicago sem stöðugt prédikar bæði nýfrjálshyggju og venjulegan fasisma—halda því stíft fram að það sé ekki til nægilegt gullmagn til þess að reka nútíma hagkerfi.

Þessi hugmynd, sem líka er kennd í hagfræðideildum flestra háskóla, er algjör fásinna og það eru tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi kennir lögmálið um framboð og eftirspurn okkur að skortur eða offramboð séu aldrei fyrir hendi í eðlilegu hagkerfi. Fast gullverð (ef t.d. karfa gjaldmiðla væri miðuð við gull) yrði að ráðast af framboði og eftirspurn og vera nógu hátt til þess vega á móti pappírsverðmætum í umferð. Það er verð en ekki magn sem segir til um hvort fullnægjandi gullmagn sé fyrir hendi í hagkerfinu til þess að tengja það gjaldmiðlum. Þetta er hagfræði 101.

Enn mikilvægara í þessu sambandi er sú staðreynd að gulltrygging gjaldmiðla, þegar henni er stýrt í gegnum greiðslujöfnunarstöð, útheimtir hlutfallslega mjög lítið gullmagn. Á milli 1944 og 1971 varð gulltrygging dollarans (og þar með óbein gulltrygging allra helstu gjaldmiðla) til þess að koma á betra jafnvægi á milli út- og innflutningstekna helstu iðnríkja heims. Þess vegna þurfti greiðslujöfnunarstöðin í London, Global Clearing House, aldrei að liggja með meira en nokkur hundruð tonn gulls. Þetta gerðist á mestu uppgangstímum allra tíma, þegar vinnuvikan var stytt og lífskjör venjulegs fólks bötnuðu til muna.

Eftir að fallið var frá gulltryggingu dollarans og allir gjaldmiðlar urðu um leið aðeins lögboðnir peningar—ótryggður pappír—þá byrjuðu bankar og peningafyrirtæki skiljanlega að tútna út. Í Bandaríkjunum, sem dæmi, þá runnu 3% þjóðartekna til fjármálafyrirtækja 1965. Árið 2007 var peningageirinn orðinn svo stór að hann sogaði til sín 7,5% þjóðartekna. Þróunin var svipuð í öðrum iðnþróuðum ríkjum.

Aukið ríkidæmi færði peningageiranum líka meiri völd og keyptir pólitíkusar breyttu leikreglunum elítunni í hag. Stærstu sigrarnir komu þegar fallið var frá Glass-Steagall (lög sem komu í veg fyrir að fjárfestingabankar gætu braskað með sparifé almennings) og leynileg (óskráð) afleiðuviðskipti voru leyfð.

Það tók elítuna áratug og hundruð milljóna dollara að losa sig við Glass-Steagall. Leiguliðar (launaðir fulltrúar þrýstihópanna), með Sanford Weil frá Citibank í fararbroddi, mokuðu peningum í þingmenn. Alan Greenspan, Robert Rubin, Larry Summers og fleiri strengjabrúður elítunnar lögðu lóð sín á vogarskálarnar til þess að þagga niður alla gagnrýni. Öflugasti talsmaður fjármálageirans, öldungadeildarþingmaðurinn Phil Gramm, lék þó aðalhlutverkið. Hann sagði nýlega að helsta vandamál bandarísku millistéttarinnar væri að hún samanstæði af væluskjóðum (bunch of whiners).

Eftir að gullið var tekið úr beinu sambandi við pappírspeninga upphófst stríð sem aðallega hefur verið verið háð að tjaldabaki. Í stuttu máli þá hafa margir seðlabankar, sérstaklega breski seðlabankinn og bandaríski alríkisbankinn, reynt að hafa neikvæð áhrif á gullverðið. Aðilar sem framleiða gervipeninga vilja skiljanlega ekki að fólk sé minnt á þá staðreynd að mannkynið notaði alvörupeninga í þúsundir ára.

Helsta vopn pappírsmanna í "stríðinu gegn gulli", eins og Antony Sutton kallaði það í samnefndri bók (War on Gold), hefur verið pappírsgull! Góðmálmadeildir Morgan, Goldman og annarra slíkra (Sir Eddie George, bankastjóri Englandsbanka, kallaði þá "miðlara") leigja gull af seðlabönkum og braska síðan með pappíra sem eiga að vera dekkaðir með þessu sama gulli. Pappírsflóðið virðist þó oft hafa keyrt úr hófi og "miðlararnir" stundum verið nálægt því að rúlla. 1998 og 1999 voru erfið ár.

"Hyldýpi blasti við ef gullverðið hefði hækkaði enn frekar. Hærra verð hefði sett einn eða fleiri miðlara á hausinn, sem í kjölfarið hefði getað sett þá alla á hausinn. Þess vegna urðu seðlabankarnir að halda gullverðinu í skefjum, stjórna því, alveg sama hvað það kostaði. Það var mjög erfitt að ná stjórn á gullverðinu, en okkur hefur nú tekist það. Bandaríski seðlabankinn var mjög stórtækur við að ná gullverðinu niður. Líka breski seðlabankinn"

—Sir Eddie George (seðlabankastjóri Englandsbanka 1993–2003), september 1999.

"Seðlabankar eru tilbúnir leigja út gull í vaxandi magni ef verðið hækkar."

—Sir Alan Greenspan (bankastjóri bandaríska alríkisbankans 1987–2006), 24. Júlí 1998.

Það eru allar líkur á að seðlabankarnir tapi þessu stríði á næstu árum og gullverðið hækki mikið. Pappírsgull glóir ekki eins og það gerði. Sífellt fleiri eru að átta sig á að sá markaður er ekki eðlilegur og eftirspurn eftir beinhörðu gulli er að stóraukast. Árásirnar á gullverðið eru að verða of augljósar. Þær byrja venjulega á pappírsmarkaðinum í New York um leið og markaðurinn í London (sem verslar meira með alvöru gull) lokar.

Gullstríðið endar þegar nógu margir hætta að braska á þessum fáránlega pappírsmarkaði og heimta alvöru gull.