vald.org

Hindenburg fyrirboðinn

12. september 2010 | Jóhannes Björn

Menn sem vinna við að kaupa og selja hlutabréf hafa alla tíð reynt að búa til kerfi eða algórytma sem gefa þeim forskot á samkeppnina. Frekar en að liggja yfir ársskýrslum og öðrum upplýsingum sem varpa ljósi á stöðu einstakra fyrirtækja, þá smíða þessir aðilar tæknileg kerfi sem spá í sveiflur, tímabil og annað í þeim dúr. Eitt tæknilegt kerfi, Hindenburg fyrirboðinn, byrjaði að blikka rauðum aðvörunarljósum um miðjan ágúst og spáði gífurlegu hruni hlutabréfa á einhverjum tímapunkti, sennilega innan 40 daga eða eitthvað lengri tíma.

Helsti kosturinn við þetta kerfi er sá að það hefur spáð rétt fyrir um öll meiri háttar hrun síðan 1987. Það er hins vegar galli á gjöf Njarðar að kerfið hefur líka kallað úlfur í nokkur skipti þegar ekkert hefur gerst.

Þegar markaðurinn er á uppleið slær verð hlutabréfa margra fyrirtækja ný met á hverjum degi á meðan mjög fá þeirra seljast á lægsta skráða verði fram að þeim tíma. Þegar markaðurinn er almennt á niðurleið gengur þetta í hina áttina. Hindenburg fyrirboðinn byrjar hins vegar að vara við hruni þegar báðir hlutir gerast á sömu stundu, þ.e. fjöldi hlutabréfa er að seljast á toppverði á sama tíma og svipaður fjöldi lendir á brunaútsölu.

Með hliðsjón af stöðu fjármálamarkaða er ekki ólíklegt að hrun hlutabréfa sé skammt undan, en á móti kemur að seðlabankar margra ríkja eru leiknari en hér áður fyrr við að dæla trilljónum inn í kerfið með mjög stuttum fyrirvara. Þótt hrá peningavæðing leysi ekki vandann og einfaldlega lengi í hengingarólinni, þá gætu seðlabankarnir hugsanlega frestað hruni sem Hindenburg hefur réttilega spáð.

Hlutabréfamarkaðir eiga samt sem áður eftir að hrapa miklu meira en hingað til vegna þess að bankakreppan var aldrei leyst á eðlilegan máta. Mörg ríki eru tæknilega gjaldþrota. Þau eiga einhvern veginn að geta komist yfir að borga hækkandi vexti af svimandi lánum á sama tíma og hagkerfin eru skorin niður og hagvöxtur skreppur saman. Fyrir utan fjölda landa austan gamla járntjaldsins hanga Grikkland, Spánn, Portúgal og Írland rétt á horrimminni.

National Bank of Greece, stærsti banki Grikklands, lýsti því yfir í síðustu viku að hann þyrfti að taka lán upp á €2,8 milljarða. Markaðurinn ókyrrðist og vextir af 10 ára grískum ríkisskuldabréfum hækkuðu í 11,7%.

Vextir af 10 ára bréfum Portúgal hækkuðu um 1,8% í 5,9% s.l. þriðjudag. Samkvæmt víðlesinni skýrslu frá Barclays Capital getur ekkert skuldugt ríki Evrópusambandsins þolað 6% eða hærri vexti. Það er útilokað fyrir þessi hagkerfi að keppa á samkeppnisgrundvelli við þjóðir sem greiða miklu lægri vexti.

Þetta línurit sýnir vaxtabyrði nokkra ríkja af 10 ára ríkisskuldabréfum umfram það sem Þjóðverjar þurfa að borga.

Við sjáum að vaxtastigið er komið í svipað far og í maí þegar €750 milljarða björgunarpakki átti að koma öllu í lag. Það er líka athyglisvert að sjá hve vel Bretum tekst að handstýra vöxtunum. Verðbólgan er að aukast þar í landi og aðilar sem lána breska ríkinu peninga með kaupum á10 ára bréfum eru að tapa töluverðum upphæðum. Það er ekki nema einn aðili sem getur leyft sér slík viðskipti og það er seðlabankinn. Guð hjálpi lífeyrissjóðum, tryggingafélögum, öldungum og öðrum er stóla á að ávaxta pund sitt.

Bankaelítan slapp víða vel, en miðað við fólksfjölda má kannski segja að írskur almenningur hafi verið látinn axla meiri áhættu en nokkur dæmi eru um í þessari kreppu. Bankakerfið var hlutfallslega feikilega stórt og ríkið gekk í ábyrgð fyrir öllu klabbinu—líka skuldabréfum í þessum bönkum, sem var mjög umdeild ákvörðun. Írska bankaelítan og pólitíska yfirstéttin eru greinilega samvaxnir tvíburar.

Tölurnar eru hrikalegar og það styttist óðum í heimsókn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Aðeins lán frá evrópska seðlabankanum til írskra banka hljóða nú upp á 40% þjóðartekna landsins.

Þegar írska ríkið yfirtók Anglo Irish Bank hljóðaði lánasafn bankans upp á €75 milljarða en aðeins €12 milljarðar voru ekki í vanskilum! Standard & Poor´s áætlar að þessi eini banki eigi eftir að kosta írska skattgreiðendur um €35 milljarða. Það verður ekki eini kostnaðurinn því vextir af ríkisskuldabréfum hækkuðu upp í 6% í síðustu viku, strax eftir að ríkið tók á sig þennan bagga.

Gagnstætt því sem oft heyrist í fjölmiðlum er engin raunverulegur efnagagsbati á ferðinni í Evrópu eða Bandaríkjunum og bankakreppan er enn í fullum gangi. Sú var tíðin í Bandaríkjunum að bankar og önnur peningafyrirtæki tóku til sín 5% af heildargróða allra fyrirtækja landsins. Í dag er þetta hlutfall komið í 40% . Peningaelítan er búin að kaupa pólitíkusana og þess vegna var skuldum bankakerfisins velt beint yfir á almenning. Þrátt fyrir ótal ábendingar FBI (sem byrjaði að benda á skipulögð svik 2004) hefur enginn háttsettur bankamaður verið handtekinn, en yfir eitt þúsund slíkir lentu á bak við lás og slá í sparisjóðahruninu fyrir tveim áratugum.

Það kostaði $9,1 trilljónir að bjarga kerfinu eftir fasteignahrunið í Bandaríkjunum og Wall Street (bankar og önnur peningafyrirtæki) fengu $7,2 trilljónir. Hér er myndræn skýring á hvaðan peningarnir komu og hvert þeir runnu.

Þrátt fyrir þetta peningaflóð inn í bankakerfið sitja bankarnir enn á trilljón dollara tapi sem þeim er leyft að fela í bókhaldinu. Dæmi um þennan feluleik er milljón dollara hús sem banki fjármagnar. Lánið fer í vanskil og bankinn neyðist til þess að taka húsið upp í skuldina. Bankinn lætur húsið kosta milljón í bókhaldinu þar til það selst (gæti tekið ár eða lengri tíma eins og markaðurinn stendur) þótt raunvirðið sé nú nær $500.000. Tæknilega gjaldþrota bankar sem liggja með slatta af svona húsum geta haldið áfram að sýna gróða og bónusgreiðslurnar flæða.

Eftirfarandi tölur gefa nokkra vísbendingu um væntanlegt tap bankanna.

Sumarið 2006 var allt íbúðarhúsnæði í Bandaríkjunum metið á $22,8 trilljónir. Lán upp á $9,8 trilljónir hvíldu á eignunum. Hrein eign var því $13 trilljónir.

Sumarið 2010 var allt íbúðarhúsnæði landsins metið á $16,5 trilljónir. Lán upp á $10,3 trilljónir hvíldu á eignunum. Hrein eign var því $6,2 trilljónir.

Frekar en að segja að yfir $7 trilljónir (hrein eign) hafi tapast á fjórum árum er miklu nær sanni að benda á að glannaleg lánastarfsemi bankanna bjó til gervimarkað upp úr aldamótum sem framleiddi platpeninga. Bankarnir græddu, menn borguðu sjálfum sér hátt kaup og bónusa, en þegar blaðran sprakk hlupu skattgreiðendur undir bagga. Það lofar ekki góðu að fasteignaskuldir skuli hafa aukist(úr $9,8 trilljónum í $10,3) á sama tíma og milljónir einstaklinga eru að tapa húsunum sínum. Ólíkt því svívirðilega óréttlæti sem ríkir á Íslandi, þá falla fasteignaskuldir niður eftir að fólk hefur tapað húsnæðinu.

Sennilega hefur William Black rétt fyrir sér þegar hann segir að þetta hafi frá upphafi verið skipulagður glæpur.