vald.org

Lífeyrissjóðir á villigötum

28. september 2010 | Jóhannes Björn

Gamla bankakerfið, sem illu heilli var einkavætt samkvæmt pólitískri forskrift, var versta slys íslenskrar fjármálasögu. Lífeyrissjóðakerfið er lítið betra klúður. Þarna sitja kerfiskarlar, oft áratugum saman, og braska með annarra manna peninga. Kerfið er byggt þannig upp að fólkið sem borgar inn í sjóðina hefur í raun sáralítil áhrif á hvernig farið er með peningana og pólitíska valdið í landinu hefur gjörsamlega brugðist. Siðaðar þjóðir láta eftirlaunasjóði starfa samkvæmt mjög stöngum reglum, en íslenska kerfið minnir miklu meira á brask áhættusjóða sem skrá sig á aflandseyjum.

Eftirfarandi pistill birtist á bloggi mbl.is föstudag, 10. september 2010:

Rán á lifeyri almennings stendur nú yfir.

Framtaksjóður Lífeyrisjóða er stofnun sem á að sjá til þess að ræna lífeyri almennings.

Þetta virkar þannig

Framtaksjóður kaupir gjaldþrota fyrirtæki á yfirverði

Segist gera það til að hagnast fyrir hönd þeirra

Til dæmis kaupir Húsasmiðjuna á 2 milljarða selur spillinguni það á 3 milljarða á kúluláni sem á að greiðast eftir 10 ár. Framtaksjóðurinn lítur vel út allir voða ánægðir.

Flottur hagnaður nema að sá sem kaupir mjólkar Húsasmiðuna af öllum eigum og greiðir aldrei neitt nema mútufé til stjórnar Sjóðsins á Tortola eða álíka.

Þetta er bara snilld.

Og við sem höldum að við eigum lífeyri

okkur er drullusama

Kveðja

Þorbergur Steinn Leifsson, verkfræðingur, skrifar m.a. um sinn lífeyrissjóð:

Þann 25. mars 2008 (þriðjudag eftir páska, rétt eftir fyrsta fall krónunnar) afhenti LV fyrir milligöngu Landsbankans, Svissneska bankanum UBS AG einn milljarð af eignum sjóðsins gegn því að bankinn borgaði 10,7 % álag á REIBOR vexti. Ef Landsbankinn, Kaupþing eða Glitnir færu á hausinn eða skuldartryggingarálagið á þá hækkaði eða krónan veiktist mætti Svissneski bankinn eiga milljarðinn. Ef staða Landsbankans veiktist gat UBS krafist meiri peninga. Þessi milljarður var tapaður í september 2008 og þá lagði sjóðurinn 1,5 milljarða til viðbótar á spilaborðið til að fá að vera með lengur. Þessir 2,5 milljarðar töpuðust síðan allir aðeins örfáum dögum seinna.

Ég veit að það eru væntanlega fáir sem trúa ofangreindu enda er ekki minnst á þetta í gögnum LV sem eru sjóðfélögum aðgengileg. Um þetta ótrúlega mál má hinsvegar lesa í 2. bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á blaðsíðu 23 til 25. Þarna var sjóðurinn samkvæmt rannsóknarskýrslunni við spilaborðið við hliðina á Jakobi Valgeir Flosasyni sem þó eins og í Stím málinu fræga fékk allt spilaféð lánað hjá Landsbankanum, og þurfti því ekki að hætta neinu fé.

Lífeyrissjóðurinn lagið hinsvegar fram alvöru peninga 2,5 milljarða, sennilega nálægt 10% af öllum greiðslum verkfræðinga í sjóðinn frá stofnun hans árið 1954, til þess að tryggja hagsmuni Svissneska bankans gagnvart þeim íslensku, og hjálpa þannig til að framlengja líf þeirra um nokkra mánuði.

Þessi ótrúlegi gerningur stjórnarinnar er gersamlega glórulaus. Hreint fjárhættuspil þar sem meira að segja er veðjað gegn allri heilbrigði skynsemi. Hvaða upplýsingar hafði stjórn lífeyrissjóðsins sem hinn reyndi Svissneski banki hafði ekki um Íslensku bankana sem sögðust starfa í alþjóðlegu fjárfestingarumhverfi. Hvernig datt 5 stjórnarmönnum LV í hug að þeir vissu betur en markaðurinn. Það verða þeir að upplýsa sjóðfélaga um.

Það verður gaman að heyra svör stjórnarmanna LV við spurningum Þorbergs. Það væri líka fróðlegt að fá svör við því hvaða aðilar fengu ríkisstjórnina sem sat vorið 2008 (fólkið sem vissi að allt var að fara til fjandans) til þess að leggja fram ótrúlega glannalegt frumvarp. Stjórnvöld lögðu til—og þetta var fimm mínútum fyrir hrun—að lífeyrissjóðirnir gætu stundað óbeinar skortsölur! Þeir sem þekkja til á fjármálamörkuðum vita að skortsölur eru hættulegasta brask sem hægt er að stunda og margir bandarískir þingmenn vilja láta banna þær. Miðað við allt sem á undan er gengið er ekki ósanngjarnt að álykta að glæpagengið sem setti landið á hausinn hafi ætlað að tæma lífeyrissjóðina með skortsölum (búa til veðmál sem sjóðirnir hefðu síðan tapað).

Meðaltap lífeyrissjóða landsins, samkvæmt glæru Þorbergs, var 21,8% á árunum 2008 og 2009.

Lífeyrissjóðirnir eru óskaplega ólýðræðislegar stofnanir. Sömu aðilar stjórna kerfinu oft áratugum saman og búa sjálfir til flestar leikreglurnar. Þeir tengjast inn í alls konar starfsemi, t.d. bankakerfið, og þetta fyrirkomulag beinlínis skaðar hagsmuni fólksins sem borgar í sjóðina. Vaxtapólitík kerfisins, sem hækkar fjármagnskostnað yfir línuna, er augljóst dæmi um hagsmunaárekstra.

Auðvitað áttu stjórnvöld strax í upphafi að setja reglur sem tryggðu réttarstöðu óbreyttra félagsmanna (hún er hverfandi í dag) og ströng lög varðandi fjárfestingar. Hjá siðuðum þjóðum stunda eftirlaunasjóðir ekki brask. Þeir fjárfesta í ríkisskuldabréfum og öðrum bréfum sem hafa fengið AAA gæðamat. Hvernig er annað hægt? Menn sem stjórna sjóðum geta ekki verið sérfræðingar á öllum sviðum atvinnulífsins. Eru þeir sérfræðingar í rekstri flugfélaga eða hvernig á að bjarga búðum sem eru komnar á hausinn?

Frekar en að standa vörð um sparifé sem fólk stólar á í ellinni, þá líta íslensk stjórnvöld á lífeyrissjóðina eins og verkfæri sem þau geta notað við hentug tækifæri. Sú staðreynd að við erum að tala um sparifé einstaklinga virðist aldrei þvælast fyrir pólitíkusum þegar þeir leggja til að sjóðirnir fjárfesti í ólíklegustu hlutum. Fólkið (á stóru jeppunum) sem stjórnar sjóðunum rennur saman við bankakerfið og um leið pólitísku stéttina.

Glannalegar fjárfestingar lífeyrissjóða byrjuðu löngu fyrir gullöld útrásarvíkinga. Draupnissjóðurinn hf, sem var stofnaður 1987, var áhættusjóður sem keypti hlutabréf í starfandi fyrirtækjum og tók líka þátt í að koma nýjum fyrirtækjum inn á hlutabréfamarkaðinn. Allt var þetta gert til þess að efla hlutabréfamarkaðinn, sem var hið besta mál, en ekki áhættuviðskipti sem pössuðu sjóðum sem varðveittu sparifé fólks. Samt áttu lífeyrissjóðrnir 30% í fyrirtækinu 1992.

Annað fyrirtæki, Þróunarfélagið hf, var líka áhættusjóður sem kom minni fyrirtækjum inn á hlutabréfamarkað. Á tímabili áttu lífeyrissjóðirnir 35,3% hlutabréfanna. Það skiptir engu máli hvort sjóðirnir græddu á þessu eða ekki, því fjárfestingarnar voru glannalegar og svipaðar fjárfestingar reyndust mjög dýrkeyptar haustið 2008.

Höfum eitt atriði alveg á hreinu. Þegar atvinnurekendur borga í lífeyrissjóð til móts við launþega eru þeir að greiða umsamin laun. Þeir eru ekki að gefa nokkurn skapaðan hlut eða leggja peninga í sameiginlegan sjóð. Þess vegna er það algjörlega út í hött að láta fulltrúa fyrirtækja sitja í stjórnum lífeyrissjóða. Þessi vangadans verkalýðsforingja og vinnuveitenda hefur komið sér ákaflega illa fyrir fólkið sem borgar þeim fyrrnefndu laun.

Verkalýðsforingjar á ofurlaunum (og stórum jeppum) eru fljótir að gleyma hlutverki sínu. Skammarlega lág laun fólksins fá á sig blæ óraunveruleika þegar þú situr í stjórnum brasksjóða og peningafyrirtækja. Vaxtatekjur sjóðanna verða mikilvægari en vaxtaokrið sem umbjóðendurnir verða að þola. Þetta fyrirkomulag, að láta sömu einstaklinga sitja í stjórnum bæði lífeyrissjóða og verkalýðsfélaga, hefur leikið láglaunafólk grátt og látið það dragast langt aftur úr hliðstæðum hópum í nágrannaríkjunum.

Stjórnvöld verða að setja ákveðnar reglur sem gilda um alla lífeyrissjóði. Fólkið sem borgar verður að fá miklu meiri völd og lögbundin réttindi. Það gengur ekki að stjórnir lífeyrissjóða geti einhliða ákveðið að lækka útborganir eða skerða réttindi maka (eins og dæmi eru um). Það á að banna lífeyrissjóðum að fjárfesta í öðru en ríkisskuldabréfum (helst margra landa) og öruggustu (AAA) pappírum. Það verður að taka fyrir bein tengsl stjórnarmanna við banka og fyrirtæki.

Best væri auðvitað að sameina alla lífeyrissjóði landsins í einn og skikka hann síðan til þess að kaupa eingöngu körfu ríkisskuldabréfa. Þannig fengist örugg ávöxtun með litlum tilkostnaði án þess að hleypa alls konar hagsmunaaðilum að kjötkötlunum.