vald.org

Tvö ár … töpuð tækifæri

11. október 2010 | Jóhannes Björn

Tvö ár frá hruni og lítið sem ekkert hefur verið gert nema slá skjaldborg um kvótakónga og gangstera í bankakerfinu. Pólitísku skussunum hefur þó tekist að beina umræðunni í þann afstæðan farveg, að það sé eðlilegt að bjarga liðinu sem setti landið á hausinn á meðan endalaust sé reiknað út hvernig þolendur glæpsins skuli píndir. Hlutirnir gætu ekki verið öfugsnúnari.

Það var ekkert náttúrulögmál hvernig atburðirnir þróuðust. Það var ekkert eðlilegt lögmál að fjármagnseigendum skyldi bjargað og fólkinu sem stal fiskimiðum landsins hlíft á meðan heimilin voru kaffærð. Það var ekkert sjálfsagt við það að ráðast á tugþúsundir einstaklinga sem ekkert brutu af sér. Þetta voru pólitískar ákvarðanir. Núna er þetta sett upp eins og fastar stærðir sem þarf að reikna sig út úr—og það er bull.

Nýju bankarnir fengu fasteignalánin með góðum afslætti og þeim bar siðferðileg (ef ekki lagaleg) skylda til þess að afskrifa hluta þeirra. Þess í stað borguðu skilanefndir sjálfum sér ofurlaun og bankarnir héldu áfram að misnota aðstöðu sína. Strax í upphafi voru heimilin beitt hrikalegu óréttlæti þegar forsendubrestur lánasamninga var ekki viðurkenndur. Lánin voru ómerk eftir að glæpastarfsemi bankakerfisins hækkaði höfuðstólinn um helming, t.d. með því að taka stöðu á móti viðskiptavinum sínum þegar þeir felldu gegnið af ásettu ráði.

Fjórflokkurinn er dauður og sanngjarnir einstaklingar verða að sjá til þess að gripið verði til aðgerða sem tryggja framtíð landsins. Tími útreikninga er liðinn. Það skiptir engu máli hvað björgun heimila landsins kostar, aðgerðaleysi er ekki einu sinni valkostur í stöðunni. Í staðinn fyrir málþóf og útreikninga verður að setja hlutina í rétta forgangsröð.

Fólk sem á skuldlausar eignir og sparifé gæti freistast til þess að halda að vandi tugþúsunda heimila komi því lítið við, en með ríkjandi stefnu líður ekki langur tími þar til allir verða fátækari. Fólk sem hefur verið að bíða og vona er að missa máttinn og gífurlegur landsflótti tekur næst við. Sjáið hvað er nú þegar að gerast í Lettlandi og víðar. Best menntaða og hæfasta fólk yngri kynslóðanna er að flýja í stórum stíl. Blóðtakan er ólýsanleg fyrir atvinnulífið og framtíðar uppbyggingu nútíma atvinnugreina. Hagvöxtur verður minni en ella og tekjur ríkisins dragast saman í marga áratugi. Fasteignamarkaðurinn er í molum og verðfallið svimandi.

Ef pólitíska kerfinu á Íslandi og elítunni sem drottnar yfir því tekst að hrekja tugþúsundir úr landi er hagkerfið glatað. Fólk sem býr í sextíu milljóna húsi vaknar frekar fljótlega við þann vonda draum að húsið kostar nú þrjátíu milljónir—ef einhver álpast á að kaupa það—og peningarnir undir koddanum hafa verulega glatað gildi sínu. Gjaldeyrishöft verða varanleg í stöðnuðu hagkerfi og stéttaskiptingin óþolandi. Gjáin á milli ofurríkra og annarra þjóðfélagsþegna breikkar eðlilega þegar upprennandi máttarstólpar millistéttarinnar búa erlendis og elítan hefur unnið stríðið sem nú fer fram.

Forgangsröðin verður að vera rétt og við eigum raunverulega engra kosta völ. Það verður að leiðrétta skuldastöðu heimilanna strax. Allt annað er eins og skipa nefnd um afleiðingar þess að bjarga manni sem er að drukkna beint fyrir framan nefið á okkur. Það er enginn annar möguleiki í stöðunni. Með því að draga lappirnar erum við að halda á okkur hita með því að pissa í skóinn, en ef heimilin eru látin sökkva verða afleiðingarnar miklu verri séð til lengri tíma.

Það er hægt að afskrifa skuldir heimilanna, en sennilega er raunhæfari lausn að allir sem vilja geti gert tímabundinn samning þar sem skuldir eru afskrifaðar og einhvers konar kaupleiga tekur gildi. Það kemur í veg fyrir þá fáránlegu stöðu að tugþúsundir missi húsnæðið á markaði þar sem allt of mikið framboð er nú þegar verulegt vandamál. Kosturinn við kaupleigusamning af þessu tagi er sá (ef hann er t.d. gerður til 10 ára) að þótt lánastofnanir afskrifi skuldir á þessum krepputímum þá eiga þær góðan möguleika á að græða á sölu eignanna í betra árferði. Allir fá sitt. Fólk býr áfram í húsnæðinu og skuldar minna. Lánastofnanir spara sér kostnað við að henda fólki út á götu, hrekja viðskiptavini úr landi og endurselja eignirnar fyrir slikk. Eignirnar eru þá enn á bókum lánastofnana og hækka í verði þegar hagkerfið braggast.

Best væri sjálfsagt að þjóðnýta bankana aftur á meðan gengið er frá nýju kaupleigukerfi íbúðarhúsnæðis og kvótanum er skilað aftur til fólksins. Þessir tveir hlutir, skuldir heimilanna og gjöf fiskistofnanna til nokkra einstaklinga, eru Akkelísarhæll íslenska hagkerfisins. Bankakerfið mergsýgur báða þessa þætti og heldur sjálfsagt áfram á þeirri braut þar til ráðvandir einstaklingar taka í taumana.