vald.org

Bankaelítan rúllar yfir írskan almenning

28. nóvember 2010 | Jóhannes Björn

Fréttaflutningur er oft með ólíkindum. Þegar íslenskir fjölmiðlar fjölluðu á dögunum um nýjar lánalínur til Írlands voru orð eins og „aðstoð“ og „hjálp“ býsna áberandi. Helst mátti skilja þessar fréttir þannig að stofnanir ESB væru að rétta írskum almenningi hjálparhönd með því að bjarga bankakerfi landsins. Þessi túlkun er eins fjarri sannleikanum og hugsast getur.

Forsaga málsins er sú að nokkur einkafyrirtæki á Írlandi, bankar, græddu óheyrilegar upphæðir með því að slá skammtímalán á alþjóðlegum mörkuðum á lágum vöxtum og endurlána síðan innanlands til lengri tíma á hærri vöxtum. Þetta er vel þekkt Ponzi-aðferð og venjulega viss leið í gjaldþrot, vegna þess að þessi sérstöku tímabil—þar sem saman fara lágir vextir og mikið framboð lána—vara aldrei mjög lengi. Einn góðan veðurdag (og þetta gerist venjulega mjög hratt) kostar fjármagnið meira heldur en tekjustraumur langtímalánanna stendur undir.

Írsku bankarnir mokuðu peningum inn í hagkerfið og sköpuðu ofurbólu á fasteignamarkaði. Verðið hækkaði langt yfir öll skynsemismörk og allt of mikið var byggt. Íbúarnir eru aðeins 4,5 milljónir, en í dag býr enginn í 300.000 híbýlum. Fasteignaverðið fer hraðlækkandi yfir alla línuna.

Írsku bankarnir voru einkafyrirtæki sem árum saman græddu á ofurbólu sem þeir sjálfir sköpuðu með hjálp pólitíkusa sem innleiddu lægstu fyrirtækjaskatta sem fyrirfinnast á ESB-svæðinu. Bankaelítan og pólitíkusarnir voru samvaxnir tvíburar sem rökuðu inn peningum. Þegar bankakerfið hrundi tóku pólitíkusarnir þá ákvörðun að velta öllum skuldum og skuldbindingum yfir á skattgreiðendur. Já, jafnvel handhafar skuldabréfa í þessum bönkum fengu 100% greiðslur, aðgerð sem meira að segja AGS blöskraði—og þá er nú mikið sagt.

Grikkland, Portúgal og Spánn eru tæknilega gjaldþrota, en Írland er gjörsamlega gjaldþrota. Miklar afskriftir í bankakerfinu er eina leiðin í stöðunni til að afstýra algjöru hruni. Skuldir banka landsins og væntanleg „hjálp“—lán á vöxtum sem renna beint inn í erlenda banka sem þeir írsku skulda—lítur svona út á þessu frábæra myndgrafi (reiknað í breskum pundum).

Samkvæmt þessu hafa írskir bankar drekkt þjóðinni í skuldum þannig að hver einasti einstaklingur landsins skuldar yfir 21 milljón ef við reiknum dæmið í íslenskum krónum. Hvernig eiga skattgreiðendur að standa undir þessu oki með enn hærri lánum í hagkerfi sem er verið að keyra niður í svaðið á methraða? Þjóðarframleiðsla hefur þegar dregist saman um hátt í 20%, atvinnuleysi er að nálgast 14% og landflótti er hafinn. 34.500 írskir ríkisborgarar yfirgáfu landið á milli apríl 2009 og apríl 2010. Írland lækkaði kaup ríkisstarfsmanna um 14% árið 2008, lækkaði atvinnuleysisbætur, lækkaði barnabætur og hækkað skatta hjá venjulegu fólki.

Og þetta er aðeins byrjunin. Stjórnvöld ætla að snarhækka skatta á næstu árum og draga úr félagslegri þjónustu.

Investment Property Databank í London segir að markaðsverð á atvinnuhúsnæði á Írlandi hafi lækkað um 59% síðan í september 2007. Íbúðarhúsnæði hefur fallið hægar, um 36% síðan 2006, en breytt viðhorf fólks á eftir að flýta fyrir frekari lækkun. Með hverjum deginum sem líður þykir það minni skömm að fara undir hamarinn, þannig að þeim fer fækkandi sem svelta sig til þess að geta staðið í skilum við bankann.

Þar til fyrir nokkrum vikum var almennt talið að gjaldþrot Írlands yrði ekki á dagskrá fyrr en á næsta ári, en 29. október samþykktu leiðtogar ESB að taka á dagskrá hugmyndir Angela Merkel um ný vinnubrögð. Frúin vildi nefnilega að handahafar skuldabréfa töpuðu einhverju við hrun banka eða ríkisstjórna, sem var frábær hugmynd. Spákaupmenn eiga ekki að geta stólað á að elítunni sé alltaf bjargað.

Markaðurinn brást hart við („hvernig dirfist nýju járnfrúnni að leggja til að við töpum einhverju þegar allt hrynur?“), vextir á írskum skuldbindingum hækkuðu 13 daga í röð og skálmöldin byrjaði líka að draga Portúgal, Grikkland og Spán í svaðið.

Menkel lét í minni pokann og skrifaði 12. nóvember undir samkomulag þar sem slegið er skjaldborg um handhafa skuldabréfa þegar nýjar starfsreglur taka gildi 2013.

Sem sagt, bankar og hliðstæðar peningastofnanir geta haldið áfram að hegða sér nákvæmlega eins og þeim sýnist. Peningaelítan græðir á ofþenslu og tekur síðan stöðu á móti viðskiptavinum sínum, eflir eða fellir gjaldmiðla á víxl, keyrir vexti og áhættutryggingar upp úr öllu til þess að koma höggi á valin skotmörk—og græðir á öllum stigum leiksins.