vald.org

Efnahagsbati eða kreppa 2011?

12. desember 2010 | Jóhannes Björn

„Peningaklíkan mergsýgur þjóðina á friðartímum og vinnur gegn hagsmunum hennar þegar syrtir í álinn. Hún beitir meira harðræði heldur en krúnan, meiri ósvífni en einræðisstjórnir, er eigingjarnari en embættismannakerfið. Hún fordæmir—og stimplar sem þjóðhættulega glæpamenn—alla sem efast um réttmæti gjörða hennar eða varpa ljósi á glæpaverk sem hún fremur. Aðeins með því að vekja upp réttlætisvitund þjóðarinnar verður henni haggað.“

—William Jennings Bryan

Þegar hagkerfi heimsins hrundi haustið 2008 kom berlega í ljós hvaða aðilar halda raunverulega í valdataumana. Atburðarásin sýndi glöggt að þeir einstaklingar sem leiddir eru til valda í lýðræðislegum kosningum ráða ósköp litlu þegar mikið liggur við. Þegar virkilega á reyndi gat peningaelítan gert sér lítið fyrir og rétt fólkinu tap upp á trilljónir—án þess að þurfa að breyta um lífsstíl í eina mínútu.

Bankar sem með réttu áttu að fara beint í gjaldþrot héldu áfram að borga starfsmönnum, já, sömu einstaklingum og settu kerfið á hausinn, ofurlaun og bónusa. Handhafar skuldabréfa í bönkum og peningafyrirtækjum gengu frá rústunum með allt sitt á hreinu. Eina sem gerðist var að gífurlegar skuldir voru settar á herðar almennings og a.m.k. tvær kynslóðir koma til með að borga brúsann. Ef ekkert breytist og dæmið verður látið rúlla áfram í sinni núverandi mynd þá er ljóst að stór hluti millistéttarinnar þurrkast út.

Frá sjónarhóli elítunnar var þetta auðvitað hrein snilld. Seðlabankar, sérstaklega í Bandaríkjunum og Bretlandi, voru notaðir eins og elítan ætti þá og pólitíkusarnir hlýddu líkt og þægir rakkar. Sumir embættismenn skildu ekki atburðarásina, en aðrir voru á jötunni hjá elítunni. Hvergi er þessu lýst betur en í kvikmyndinni Inside Job sem enginn hugsandi einstaklingur ætti að láta fram hjá sér fara.

Skuldabagginn sem peningageirinn velti yfir á skattgreiðendur er í mörgum tilfellum svo stór að dæmið gengur ekki lengur upp. Skuldir landa eins og Bandaríkjanna, Írlands, Bretlands, Japans og flestra ríkja í sunnanverðri Evrópu verða aldrei greiddar nema óðaverðbólga lækki raunvirði þeirra verulega. Ef vextir á skuldum japanska ríkisins, sem eru að nálgast 200% þjóðarframleiðslu, fara t.d. upp í 3% þá getur ríkiskassinn ekki lengur staðið í skilum nema seðlabankinn kaupi skuldirnar. Vextir eru nálægt núllinu þessa dagana í Japan og flest ríkisskuldabréf seld á innanlandsmarkaði, en þau hagstæðu skilyrði geta breyst á stuttum tíma. Meðalaldur í landinu er að hækka hratt, vegna þess að mjög fá börn fæðast og erlent vinnuafl er ekki velkomið, og slíkt ástand dregur úr sparnaði. Gamla fólkið selur frekar ríkisskuldabréf heldur en að kaupa þau. Aðilar sem eru líklegastir til þess að hlaupa í skarðið, innlendir og erlendir sjóðir, heimta örugglega miklu hærri vexti.

Ef við skoðum stöðu ríkissjóðs Bandaríkjanna blasa við tölur sem hreinlega ganga ekki upp. Útgjöld ríkisins eru fjármögnuð að stórum hluta—hvorki meira né minna en 43%—með lánum. Skattalækkanir og QE2 seðlabankans ($600 milljarða eða meiri kaup á ríkisskuldabréfum) eiga enn eftir að hækka hlutfall skulda ríkissjóðs á næstu árum.

Tölurnar standast ekki í hagkerfi sem nú þegar skuldar hátt í $14 trilljónir og er með aðrar skuldbindingar upp á tugir trilljóna. Sú staðreynd að stærsti aldurshópur í sögu Bandaríkjanna, glásin sem fæddist 1946 og í nokkur ár þar á eftir, er að fara á eftirlaun hjálpar heldur ekki upp á sakirnar.

Undanfarna 18 mánuði hafa leiðandi fjölmiðlar—stórblöð, risasjónvarpsstöðvar og fjölþjóða fréttastofur—hamrað á ákveðnu stefi. Flestar viðskiptafréttir eru túlkaðar í einkennilega jákvæðu ljósi. Ef þessi fréttaflutningur hefði verið raunhæfur frá upphafi þá væri hagkerfið í bullandi uppgangi í dag, en í ljósi vaxandi skuldasöfnunar og atvinnuleysis í Evrópu og Bandaríkjunum er ekki óvarlegt að álykta að mikilvægir fréttamiðlar, sem flestir eru í eigu stórfyrirtækja, hafi verið notaðir gagngert til þess að reyna að auka neyslustigið.

Undanfarið hafa þessir fjölmiðlar fjallað um vaxandi bjartsýni neytenda og spá töluverðum hagvexti í Bandaríkjunum og víðar 2011. Það er mjög erfitt að sjá hvernig sú spá getur ræst frekar en allar hinar sem við höfum barið augum síðustu 18 mánuði.

Það spáir ekki góðu um hagvöxt 2011 að velta greiðslukortafyrirtækja er að dragast saman og 21% Bandaríkjamanna hafa lent í einhvers konar vanskilum á s.l. tveim árum. Í sögulegu samhengi er það gífurlega há tala. 11% voru að lenda í vanskilum í fyrsta skipti s.l. tvö ár en 10% voru aftur að lenda í vandræðum.

Fasteignamarkaðurinn í Bandaríkjunum—helsta uppspretta eyðslupeninga þegar vel gengur—er enn á niðurleið. Uppboðum fjölgar og verðið er enn að lækka, og þá sérstaklega á dýrara íbúðarhúsnæði. Á þessu ári gufa upp verðmæti að andvirði $1,7 trilljónir á þessum markaði, sem er svipað og öll framleiðsla Kaliforníu, en fylkið væri áttunda stærsta hagkerfi heimsins ef það væri sjálfstætt ríki. Um 55 milljónir lána eru í vanskilum eða í gjörgæslu. Nouriel Roubini segir að trilljón dollara tap blasi við bankakerfinu.

Rauða strikið sýnir prósentu lána í vanskilum. Græna strikið sýnir prósentu lána sem búið er að redda í augnablikinu, en reynslan sýnir að flest þeirra lenda aftur í vanskilum. Fjólubláa strikið leggur hin tvö saman.

Bandaríska heilbrigðiskerfið á líka eftir að draga úr raunverulegum hagvexti á næstu árum. Miðað við lönd sem eru með miklu betri þjónustu (löng fæðingaorlof, ókeypis endurhæfingu o.s.frv.) þá er kostnaður á hvert höfuð fáránlegur. Kerfið heldur áfram að vera dýrt og þunglamalegt á meðan lyfjafyrirtækin komast upp með að okra á þjóðinni (sömu lyf kosta oft helmingi minna í Kanada) og tryggingafélögin halda áfram að vera algjörlega óþarfur milliliður. Það kemur ekkert á óvart að þessir aðilar hækkuðu verðskrána mest í stjórnartíð Reagan og Bush W.

Í kreppunni miklu 1929–1939 reyndu margar þjóðir að slá skjaldborg um framleiðsluna með því að hækka innflutningstolla. Núna er sagan að endurtaka sig í aðeins annarri mynd og stríðið snýst um verðgildi gjaldmiðla. Mörg ríki eru að reyna að lækka gengið á meðan önnur berjast á móti gengishækkun. Nýleg ákvörðun bandaríska seðlabankans um að kaupa ríkisskuldabréf var sennilega tekin gagngert til þess að lækka gengi dollarans. Það hefur þó gengið illa vegna ástandsins í Evrópu og þrjósku Kínverja sem múlbinda sig við dollarann. Brasilía og lönd í Asíu hafa líka sett hömlur á dollaraflóðið til þess að koma í veg fyrir hækkun innlendra gjaldmiðla. Dollarar sem streyma út úr bandaríska seðlabankanum fara mest á flakk í leit að „heitum“ mörkuðum og þegar þeim er skipt hækka þeir staðbundna gjaldmiðla.

Opinberlega sagðist bandaríski seðlabankinn vera að lækka vexti með kaupum á ríkisskuldabréfum, en miklu meira dollaramagn í umferð hefur haft alveg þveröfug áhrif og vextir hafa verið að hækka. Þetta er e.t.v. byrjun næsta kapítula kreppunnar, tímabil hærri vaxta í heimi þar sem seðlabankar hafa framleitt trilljónir og þannig sáð verðbólgufræjum í frjóa mold.

Hinum megin á hnettinum í Kína hefur peningamagn í umferð (M1) ætt upp um 300% síðan í janúar 2004.

Framhald …