vald.org

Efnahagsbati eða kreppa 2011? … framhald

28. desember 2010 | Jóhannes Björn

Kínverska kerfið er fast í vítahringi þar sem stigvaxandi peningamokstur skilar sífellt minni hagvexti. Ný lán í umferð fara í meira mæli í að fjármagna fasteignabrask og aðrar spekúlantsjónir frekar en að byggja upp arðbæra framleiðslu. Fasteignabólan í Kína er blátt áfram ótrúleg.

Samkvæmt úttekt sem Business Insider lét gera, þar sem m.a. var stuðst við gervihnattamyndir, þá býr enginn í yfir 60 milljónum húsa og íbúða í Kína. Myndir sem voru teknar á kvöldin, áður en fólk gekk til náða, gáfu t.d. nokkuð góða hugmynd um fjölda húsa sem notuðu ekkert rafmagn. Myndir teknar í dagsbirtu sýndu margar draugaborgir, fullbyggð hús þar sem hvorki er hægt að greina fólk né farartæki.

Ordos er frægasta draugaborg Kína. Eina lífsmark sem hægt er að greina er í kringum ráðhúsið, en þar leggja pólitíkusar nokkrum bílum.

Nýi hluti Zhengzhou er stærsta draugaborg Kína. Hér er hverfi sem kostaði yfir 2200 milljarða kr. að reisa—og það er galtómt.

Íbúðaturnar í Zhengzhou standa auðir eins og gráir minnisvarðar um stærstu fasteignabólu heimsins.

Draugaborgin Dantu er hálfkláruð og hefur staðið mannlaus í áratug.

Langstærsta verslunarmiðstöð jarðarinnar hefur verið 99% tóm síðan hún opnaði 2005.

Fasteignabólan í Kína springur á næstunni—ekki endilega vegna þess að yfir 60 milljónir híbýla standa auð—heldur frekar vegna þess að meðaltekjur í landinu eru allt of lágar og ekki í neinu samhengi við fasteignamarkaðinn. Fólk hefur verið að fjárfesta í nokkurs konar keðjubréfum, kerfi þar sem síðustu fasteignakaup hjálpa braskaranum að fjármagna næstu reyfarakaup. Þetta er Ponzi–kerfi sem hrynur um leið og fasteignaverðið staðnar.

Þegar bandaríska fasteignabólan náði hámarki 2007 kostaði meðalverð íbúðarhúsnæðis 6,4 sinnum meira en meðalupphæð árlegra ráðstöfunartekna í landinu. Núna er þetta hlutfall dottið niður í 4,7 og er enn á niðurleið. Í stórborgum Kína er meðalverðið húsnæðis 22 sinnum hærra en meðal ráðstöfunartekjur, sem þýðir að verðið verður að lækka um 70–80% til þess að vera í takt við kaupið.

Kínverska hagkerfið er komið í ákveðinn hnút þar sem aukið peningamagn í umferð skapar verðbólgu frekar en að auka hagvöxt. Hærra hlutfall lána fer í spákaupmennsku, t.d. þegar fólk hamstarar fasteignir eða kopar, en raunveruleg framleiðsla stendur í stað eða dregst saman. Fyrir nokkrum árum, samkvæmt tölum frá Minggao Shen, hagfræðingi hjá Citigroup, þurfti peningamagn í umferð (M2) að aukast um 1,30% til þess að ná 1% hagvexti. Til að ná sama hagvexti í dag þarf að auka peningamagnið um 1,84%.

Fyrir utan fyrrnefnd mein, fasteignabólu og allt of mikið peningamagni í umferð, þá blasir enn eitt stórvandamál við kínverska hagkerfinu. Landið virðist hafa náð svokölluðum „Lewis vendipunkti“ (formúla sem nóbelsverðlaunahafinn Arthur Lewis smíðaði), en það er þróunarstig sem frumstæð hagkerfi komast á þegar þau „fullorðnast“—eru á góðri leið með að klára ódýrasta vinnuaflið og komin á hærra tæknistig með sérhæfðari starfsmönnum—og neyðst allt í einu til þess að greiða hærri laun.

Það eru miklar líkur á að Kína gangi í gegnum efnahagslægð 2011. Hagvöxtur sem mælist um 4% í Kína er í raun efnahagslægð og félagsleg tímasprengja. Ráðgjafafyrirtækið Oxford Economics rannsakaði hvað kemur til með að gerast á alþjóðlegum mörkuðum ef hagvöxtur í Kína fer undir 5%. Samkvæmt skýrslu fyrirtækisins gæti hráefnisverð fallið um 20%, hlutabréfamarkaðir í Asíu um 25% og hagvöxtur fátækari Asíuríkja gæti hugsanlega hrapaði um 2,6% (t.d. úr 4,6% í 2.0%).

Klíkan sem ræður Kína er greinilega dauðhrædd. Verðbólgan er byrjuð að fara úr böndunum og þá sérstaklega hækkun matvæla. Samt þorir klíkan ekki að hækka gengisskráningu gjaldmiðilsins, sem sjálfkrafa lækkar verð á innfluttum vörum en kemur sér að sama skapi illa fyrir útflutningsgreinarnar. Gömlu kerfiskarlarnir virðast aðallega ætla að nota eitt vopn, stýrivexti. Það skilar sennilega svipuðum árangri og hjá Seðlabanka Íslands hér fyrir hrun.

Dýpri efnahagslægð gæti hafist árið 2011 með hækkun vaxta á bandarískum skuldabréfum, vandræðum í Kína eða þjóðargjaldþroti í Evrópu. Trilljón dollara halli og peningaframleiðsla seðlabanka gæti tímabundið aukið eftirspurn á Bandaríkjamarkaði, en það er ekki líklegt og alla vega ekki nema í mjög stuttan tíma.

Írland, mörg fyrrverandi kommúnistaríki og flest lönd í sunnanverðri Evrópu eru tæknilega gjaldþrota. Verður lýst yfir formlegu gjaldþroti Evrópuríkis 2011? Það veit enginn og enginn getur heldur spáð fyrir um hvað seðlabankar og AGS gera til þess að halda ballinu gangandi. Tölurnar segja okkur þó að það eru ekki margir möguleikar í stöðunni. Ef peningakerfið sjálft verður ekki stokkað upp með viðeigandi afskriftum í bankakerfinu, þá blasa annað hvort við nokkur þjóðargjaldþrot eða millistéttin verður kerfisbundið þurrkuð út á næstu árum.

„Spánn er ekki Grikkland.“

Elena Salgado, fjármálaráðherra Spánar, febrúar 2010.

„Portúgal er ekki Grikkland.“

The Economist, 22. apríl 2010.

„Írland fetar ekki í fótspor Grikkja.“

Brian Lenihan, fjármálaráðherra Írlands.

„Grikkland er ekki Írland.“

George Papaconstantinou, fjármálaráðherra Grikklands, 8. nóvember 2010.

„Hvorki Spánn né Portúgal eru Írland.“

Angel Gurria, framkvæmdastjóri OECD, 18. nóvember 2010.

speculative-investor.com

Þegar stóra stundin rennur upp og Írland eða annað ríki fer fram á endurskoðun ríkisskulda (lýsir yfir gjaldþroti) þá vitum við það með nokkra daga fyrirvara. Forsætis- eða fjármálaráðherra viðkomandi ríkis boðar til blaðamannafundar, ekki til þess að vara við væntanlegu gjaldþroti, heldur til þess að lýsa því yfir að allt sé í himnalagi og landið sé ekki í sömu vandræðum og t.d. Spánn eða Portúgal.