vald.org

„Gerum þau höfðinu styttri“

26. janúar 2011 | Jóhannes Björn

Evrópa logar og ríkisstjórnir virðast fallvaltar. Allir nema bankaelítan og pólitíska yfirstéttin verða að herða sultarólina og borga fyrir mistök fjárglæframanna. Þótt þjóðargjaldþrot nokkra ríkja sé óhjákvæmilegt þá er haldið áfram að pína almenning og skera miðstéttina niður við trog. Hvenær kemur virkilega kröftugt bakslag? „Gerum þau höfðinu styttri,“ hrópuðu reiðir nemendur í London þegar hópur mótmælenda rakst af tilviljun á lúxusbíl kóngafólksins. Kannski var það fyrirboði um það sem koma skal.

Allt frá vordögum 2009 hafa stórblöð og aðrir fjölmiðlar í eigu risafyrirtækja stanslaust hamrað á því að hagvöxtur fari vaxandi. Síðast í gær, þegar hörmulegar tölur um lækkun bandarískra fasteigna voru birtar, benti Bloomberg fréttastofan á að sá markaður tæki ekki enn þátt í uppsveiflunni. Þegar tölur sýna að raunverulegt atvinnuleysi er meira en það hefur verið í 70 ár, þá er bara sagt að fyrirtæki séu ekki enn farin að ráða fólk í vinnu þátt fyrir greinilega uppsveiflu. Hvað er þessi hagvöxtur eiginlega að mæla?

Tölur um hagvöxt í Bandaríkjunum og Bretlandi eru marklausar vegna þess að verðbólgan er stanslaust vanmetin. Ef velta hagkerfisins eykst t.d. um 6% og verðbólgan er 3% á sama tímabili, þá er sagt að hagvöxtur sé 3%. Það er allt satt og rétt svo lengi sem verðbólgan er mæld á eðlilegan máta, en breskir og bandarískir blýantsnagarar hafa búið til furðulegar formúlur sem lækka verðbólguna á blaði. Frekar en að reikna út raunverulegar verðbreytingar á sem flestu, bæði vörum og alls konar þjónustu, reyna baunateljararnir að gera sér grein fyrir „meiri gæðum“ og öðru sem afsakar verðhækkanir. Gæði heilsuþjónustu (vegna betri tæknibúnaðar) er t.d. talin 5% betri en á síðasta ári, þannig að 8% hækkun er í raun 3% og 10% hækkun á nautalundum er engin hækkun vegna þess að fleiri ódýrir skyndibitastaðir opnuðu á tímabilinu. Breska kerfið lækkar líka verðbólgutölurnar með því að gefa tölvu- og rafeindabúnaði óeðlilega mikið vægi.

John Williams, sem heldur úti síðunni Shadow Government Statistics, heldur saman raunverulegum tölum um verðbólgu, atvinnuleysi og annað sem pólitíkusar reyna að fegra. Ef verðbólgan í Bandaríkjunum væri mæld með sömu aðferð og notuð var fyrir 1982 væri hún um 5% hærri (bláa strikið) en opinberar tölur í dag gefa til kynna. Þetta þýðir að hagvöxtur er enn neikvæður.

Raunverulegar tölur um raunverulegt atvinnuleysi staðfesta líka að þessi hagvöxtur sem búið er að auglýsa s.l. 18 mánuði er hrein ímyndun. Milljónir sem hafa komið inn á atvinnumarkaðinn síðustu árin (aukningin um 120.000 á mánuði) hafa ekki fengið vinnu en komast ekki á blað. Aðrar milljónir hafa dottið út eftir ákveðinn tíma og sjást ekki lengur á lista yfir atvinnulausa. Enn aðrar milljónir sem óska eftir fullu starfi eru í hlutastarfi. Bláa strikið sýnir að þegar þessir hópar eru með í myndinni er raunverulegt atvinnuleysi vel yfir 20%.

Við höfum lært af reynslu síðustu áratuga að hagkerfi heimsins (sem heild, en það eru alltaf einhverjar undantekningar) vinnur sig ekki út úr efnahagslægðum fyrr en það bandaríska byrjar að braggast. Reynslan hefur líka sýnt að bandaríska hagkerfið tekur ekki almennilega við sér fyrr en fasteignamarkaðurinn byrjar að hreyfast. Þegar ný íbúðarhverfi rísa myndast mjög kröftug keðjuverkun á ótal stöðum. Þrátt fyrir endalausar „væntingar“ á fasteignamarkaði og froðukenndan fréttaflutning allt síðasta ár, þá var minna byggt árið 2010 heldur en 1963, þótt íbúum landsins hafi fjölgað um 107 milljónir á tímabilinu. Verðþróunin sýnir að markaðurinn er enn á niðurleið.

Upplýsingar sem seðlabanki Bandaríkjanna hélt leynilegum þar til hann var neyddur til annars fyrir stuttu sýna að kreppan sem byrjaði fyrir alvöru haustið 2008 var miklu hrikalegri en nokkurn grunaði. Bankinn mokaði út—og hélt fyrir utan hefðbundinn efnahagsreikning—hærri upphæðum en nemur árframleiðslu Bandaríkjanna! Bankar, erlendir seðlabankar (allir sem þess óskuðu að virðist nema sá íslenski) og meira að segja fyrirtæki fengu lán. Þegar einkafyrirtæki eins og General Electric, PIMCO, McDonalds og Harley Davidson eru farin að sækja peninga beint inn í seðlabanka ríkis þá er kerfið heldur betur komið í hnút.

Risabankarnir settu hagkerfi heimsins á hausinn með glæpsamlegum viðskiptum. Þeir seldu verðlausa pappíra fyrir trilljónir, borguðu arð og bónusa upp á stjarnfræðilegar upphæðir … og hrundu. Enginn hefur enn farið í fangelsi í tengslum við þessa glæpastarfsemi. Almenningur var síðan látinn taka við skuldunum, en það var bara byrjunin á ferli þar sem gróðinn rennur beint til elítunnar og fólkið tekur við tapinu.

Gjaldþrot Írlands er gott dæmi um hvernig þessi leikur fer fram. Þegar bankakerfið þar var komið í þrot þurfti evruland að „bjarga“ Írlandi með láni upp á $113 milljarða. Almenningur tók þetta lán á háum vöxtum og fékk líka allar skuldir bankanna beint í hausinn. Ekkert mátti afskrifa hjá handhöfum bréfa sem bankarnir skulduðu—meðal þeirra Goldman Sachs, Credit Suisse, Barclays, HSBC og Société Générale—heldur ákveðið að ganga gengdarlaust á kjör fólksins. Lægstu tekjur voru lækkaðar um 12%, eftirlaunaaldur hækkaður, útgjöld til félagsmála snarlækkuð, skólagjöld hækkuð, skattar hækkaðir og bætt í virðisaukann. Fólkið situr uppi með helmingi hærri skuldir en það getur nokkru sinni borgað og landið er gjaldþrota.

Eini skatturinn sem ekki hækkaði var 12,5% skattur á fyrirtæki, einn sá lægsti í heiminum. „Það er alveg á hreinu í sambandi við HP“, sagði forstjóri Hewlett-Packard á Írlandi, Lionel Alexander. „Ef skatturinn hækkar þá endurskoðum við fjárfestingar okkar á Írlandi.“

Framhald …