vald.org

„Gerum þau höfðinu styttri“ … framhald

11. febrúar 2011 | Jóhannes Björn

Vesturlönd og Arabaheimurinn sitja á púðurtunnu sem er byrjuð að fuðra upp. Gífurlegt atvinnuleysi fólks á aldrinum 16 til 30 ára—kynslóðar sem er hlutfallslega mjög vel upplýst og í stöðugu sambandi í gegnum internetið—hefur magnað upp reiði sem er byrjuð að krauma á yfirborðinu. Það má að stórum hluta rekja byltinguna í Túnis, væntanlegt fall Mubaraks í Egyptalandi og óeirðir víða í Evrópu til ungs fólks. Grasrótin í Túnis og Egyptalandi lagði grunn andófsins á Facebook, Twitter og YouTube.

Þetta er það sem Gerald Celente hjá The Trend Research Institute kallar Fjölmiðlafræði 2.0—ný tegund blaðamennsku þar sem milljónir einstaklina eru í stöðugu sambandi við atburðarás líðandi stundar og sín á milli. Fjölmiðlafræði 2.0 byggir á tækni sem kostar frekar lítið og flestir hafa aðgang að. Allir eru óformlegir blaðamenn og þeir sem skara fram úr eru mest lesnir. Allir sem halda á gemsa eru ljósmyndarar sem geta sýnt heiminum fréttnæmar myndir um leið og atburðirnir gerast.

Internetið á sér raunverulega aðeins eina hliðstæðu í sögunni. Prentvél Gutenberg hrinti af stokkunum upplýsingabyltingu sem gjörbreytti heiminum. Venjulegt fólk gat þá loksins lesið Biblíuna og það áttaði sig fljótt á að prestastéttin hafði heldur betur farið frjálslega með staðreyndir. Það stóð t.d. hvergi í ritningunni að kirkjan hefði heimild til þess að selja fólki miða inn í himnaríki. Kaþólska kirkjan klofnaði í kjölfarið. Prentvélin gaf líka endurreisnarstefnunni byr undir báða vængi og húmanisminn náði fótfestu vegna hennar. Hvergi hafði Gutenberg þó meiri áhrif heldur en á vísindasviðinu, því eftir að byrjað var að gefa út fræðirit í mörgum eintökum, gátu vísindamenn í fyrsta skipti viðrað nýjar hugmyndir á breiðum grundvelli og borið saman bækur sýnar án þess að beinlínis hittast.

Það er nokkuð öruggt, og þegar að koma í ljós, að internetið er mikilvægari bylting en sú sem Gutenberg stóð fyrir. Í þetta skipti ógnar hún mest peningaelítunni og bankakerfinu sem hún stjórnar. Spilltir pólitíkusar sem elítan hefur verndað í skiptum fyrir olíu og aðra hagsmuni eru byrjaðir að fjúka. Gaflarar (hittistes, slanguryrði sem merkir „atvinnuleysingjar sem halla sér að vegg“) í Túnis og shabab atileen (atvinnulaus ungmenni) í Egyptalandi eru aðeins byrjunin á því er koma skal út um allan heim.

Samkvæmt tölum frá Alþjóðavinnumálastofnuninni er atvinnuleysi meðal ungs fólks í Miðausturlöndum um 24%. Í Íran er 30% þjóðarinnar á aldrinum 15–29 ára og 29% Jórdana er á þeim aldri. Þegar þessir hópar, og aðrir svipaðir í nærliggjandi löndum, ná að stilla strengi sína og sameinast í gegnum internetið—og stór hluti þessa unga fólks er með góða menntun en samt atvinnulaust—þá heldur valdaklíkan víða ekki völdum mjög lengi. Eins og þjóðfélagsfræðingurinn Jack A. Goldstone orðar það: „Menntuð ungmenni hafa verið í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn valdinu síðan í frönsku stjórnarbyltingunni og jafnvel fyrr.“

Ef fjármálahrunið sem byrjaði 2008 hefði átt sér stað fyrir 20 árum hefði almenningur mjög líklega ekki haft neina nasasjón af óréttlætinu sem fylgdi í kjölfarið. Það var ekki fyrr en með tilkomu internetsins að fólk upp til hópa byrjaði að skilja hlutverk seðlabanka ríkjanna í peningakerfi sem byggir á framleiðslu skulda. Þetta er nokkurs konar gullgerðarlist þar sem ekkert er á bak við peninga sem eru settir í umferð. Nú skilur fjöldi fólks í Evrópu og Ameríku (svæðin þar sem flestir bankar hrundu) að einkabankar græddu á glannalegum viðskiptum sem settu allt kerfið á hausinn. Frekar en að láta þetta ofurríka fólk réttilega tapa peningum þá var skuldunum velt yfir á almenning. Þetta var gert með aðferðum sem margir góðir menn hafa útskýrt á netinu, raddir sem ekki hefðu heyrst hér áður fyrr.

Atburðir síðustu ára sýna að bankaelítan í raun stjórnar helstu seðlabönkum heimsins og er líka búin að kaupa flesta pólitíkusa sem máli skipta. Bandaríski seðlabankinn gerði sér lítið fyrir og hélt hátt í $20 trilljónum (árleg þjóðarframleiðsla BNA er rétt yfir $14 trilljónir) fyrir utan opinberan efnahagsreikning, gagngert til þess að lána bönkum út á ruslapappíra. Seðlabanki Evrópusambandsins braut Maastricht samkomulagið þegar hann byrjaði að kaupa ríkisskuldabréf, en öðruvísi var ekki hægt að halda elítunni á floti á meðan fólkið var kerfisbundið látið ganga í ábyrgð fyrir skuldunum.

Breska ríkið gerir allt sem bankaelítan biður um. Fólkið er skattpínt, öll þjónusta skorin niður og hagkerfið er í frjálsu falli. Bankar sem væru gjaldþrota ef ríkið hefði ekki hlaupið undir bagga borga sömu snillingum og settu þá á hausinn ævintýralega bónusa. Þetta er gert með hræðslupólitík þar sem reynt er að telja fólki trú um að himinn og jörð muni farast ef handhafar skuldabréfa í bönkunum (aðallega aðrir einkabankar) tapi einhverju á eigin gjaldþroti! Eða eins og fjármálaráðherrann, George Osborne, orðaði það: „Það myndi skapa öngþveiti á breskum fjármálamarkaði innan nokkra mínútna.“

Annar ástmögur bankanna, David Cameron, er búinn að gera ráðstafanir sem eiga eftir að kreista síðustu blóðdropana úr millistéttinni og gera efnaminna fólk beinlínis fátækt. Hann er að breyta skattalögunum þannig að bankakerfið bæði græðir gífurlegar upphæðir (á kostnað annarra skattgreiðenda) og sér sér hag í að flytja fjölda starfa úr landi. Breytingin er sett fram á máli sem helst enginn skilur, en er í eðli sínu frekar einföld:

Tekjuskattur á fyrirtæki er 28% í Bretlandi. Banki X sem er með útibú á eyju í skattaparadís borgar t.d. 10% skatt. Þegar hann flytur gróðann til Bretlands borgar hann mismuninn, 18%. Nú á að breyta lögunum þannig að bankinn borgi ekki neitt þegar hann færir gróðann til Bretlands. Til að bæta gráu ofan á svart þá geta aðalstöðvar banka X í London afskrifað (dregið frá skatti) kostnað við að stofnsetja banka X í skattaparadís!

Það þarf ekki að velta þessu dæmi lengi fyrir sér til þess að sjá að breska ríkið á eftir að tapa hrikalegum tekjum þegar bankarnir setja dæmið þannig upp að svo til allur gróði þeirra fæðist í skattaparadís. Það þýðir líka að ein best launaða stétt Bretlands, starfsmenn fjárfestingabanka, nærri því hverfur úr landi þegar erlend umsvif aukast. Bankamenn annarra landa fylgja náttúrulega fordæmi Breta undir kjörorðinu: „Við verðum að vera samkeppnishæfir.“

Nýtt lénsfyrirkomulag er í uppsiglingu og það er þróun sem ekki er hægt að fela. Upplýsingarnar flæða um jarðkringluna í stafrænu formi og vaxandi fjöldi fólks skilur nákvæmlega hvað er að gerast. Þess vegna eiga pólitískar sveiflur og öfgar eftir að aukast á næstu árum … Og köll mótmælenda í London um að gera Kalla prins og frú höfðinu styttri öðlast kannski sögulegt mikilvægi!