vald.org

Íslenska stjórnmálastéttin er siðlaus

28. febrúar 2011 | Jóhannes Björn

Bráðum verða liðin tvö og hálft ár frá hruni og við getum farið að gera okkur nokkuð góða grein fyrir aðgerðum stjórnvalda, hvernig tekið hefur verið á málunum og hvernig framtíðasýnin lítur út. Í stuttu máli þá hefur fjórflokkurinn algjörlega brugðist. Verk frekar en blaður stjórnmálastéttarinnar sýna líka að hún er siðlaus.

Stjórnmálamennirnir brugðust þjóðinni annað hvort vegna ótrúlegar vankunnáttu í starfi eða spillingar sem múlbatt þá við glæpagengið sem rændi landið. Báðir möguleikar eru afleitir. Það leikur hins vegar enginn vafi á siðleysi stjórnmálamanna sem stilla hlutunum upp í þannig forgangsröð að saklaust fólk er borið út á götu í hrönnum á meðan sá hluti ríkisbáknsins sem snýr að þeim sjálfum færir engar fórnir.

Stjórnmálastéttin sem réði ferðinni fyrir hrun baðaði sig í kúlulánum frá glæpagenginu. Kúlulán eru óeðlileg og víðast ólögleg. William Black kallar þau mútur. Þegar menn slá lán án þess að leggja fram aðra tryggingu en lánið sjálft í einhverri mynd—einkum þegar lánið rennur í sérstaklega útbúið sjálfseignarfélag, sem kemur til með að halda eftir gróðanum, en lætur hugsanlegt tap hverfa—þá eru þeir að taka við mútum, sagði Black á fundi í Háskóla Íslands í maí 2010. Í stuttu máli, lán sem aldrei þarf að endurgreiða en getur skilað miklum gróða er ekki lán heldur mútur.

Það segir mikið um hefðbundið siðleysi hjá pólitísku stéttinni á Íslandi að hver og einn einasti þingmaður sem fékk kúlulán skuli ekki hafa tekið pokann sinn og hætt afskiptum af stjórnmálum. Við getum hengt okkur upp á að það hefði gerst á öllum hinum Norðurlöndunum.

Við vitum núna að lykilmenn í hrunstjórninni vissu með góðum fyrirvara að bankakerfið var að hrynja. Samt leyfðu þeir botnlausan þjófnað banka sem notuðu mjög grófar aðferðir. Útlendingar voru gabbaðir, íslenski seðlabankinn settur á hausinn, hrekklaust fólk platað til þess að færa örugga fjármuni í glæfrasjóði o.s.frv. Þetta var siðlaust—sumir myndu segja ólöglegt—afskiptaleysi yfirvalda. Eigendur bankanna og nokkrar blóðsugur fengu að „ganga í sjóðinn og sækja sér hnefa“ alveg fram á síðasta dag. Kannski virkuðu kúlulánin eins og leppar fyrir augum ráðamanna.

Í kjölfar bankahrunsins vissu stjórnvöld ekki sitt rjúkandi ráð og sýndu vanhæfni sem væri hlægileg ef málið væri ekki svo alvarlegt. Í stað þess að leita til alvöru sérfræðinga byrjuðu menn að skrifa bindandi undir plögg sem skikkuðu fólkið í landinu til þess að taka á sig óþolandi skuldbindingar. Í dag reynir þetta lið að endurskrifa söguna og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mótmælir því t.d. að ríkisstjórn Geirs H. Haarde hafi skuldbundið þjóðina til að greiða Icesave. Lesandi Eyjunnar, Valur, gerir hárrétta athugasemd við þetta 27. febrúar:

Hérna stólar Ingibjörg á gullfiskaminni þjóðarinnar. Svo er alltaf sama sagan með pólitíkusa, þeir viðurkenna aldrei neitt.Hér kemur sagan af því hvernig Ísland var skuldbundið í báðar hendur, ef svo má segja, af Ingibjörgu, Árna Matt, Geir H Haarde og Davíð Oddssyni.

Í október 2008 skrifaði Árna Matt fyrrverandi fjármálaráðherra sjálfstæðisflokksins og Baldur Guðlaugsson undir loforð þess efnis að Ísland myndi borga Icesave og standa við skuldbindingar sínar.

Davíð skrifaði svo undir annað loforð við AGS um að Ísland myndi standa í skilum við erlenda innistæðueigendur. Ekki nóg með það, Geir H Haarde og Ingibjörg Sólrún ítrekuðu við bæði Breta og Hollendinga að Ísland myndi borga.

Geir Haarde sendi svo Baldur Guðlaugsson fyrir hönd ríkisstjórnarinnar til að semja og niðurstaðan varð lán til 10 ára með 6.7% vöxtum. Töluvert verra en Svavars samningurinn innfól. Þetta er sagan öll.

Tugþúsundir einstaklinga eru að tapa húsnæðinu eða skulda hærri upphæðir heldur en hvíla á eignunum. Þetta fólk er saklaust og var platað til þess að taka ólögleg og ósiðleg lán. Meðal siðaðra þjóða hefðu stjórnvöld strax í upphafi horfst í augu við að forsendubrestur átti sér stað og lánin voru marklaus. Verulegur afsláttur sem nýju bankarnir fengu af fasteignalánum átti eðlilega að ganga beint til fólksins í byrjun 2009.

Á Íslandi var hins vegar ákveðið að reyna að bjarga hagkerfinu á herðum gjaldþrota fjölskyldna. Þessi hræðilega ákvörðun, staðfest með hliðarsamningi við AGS sem kvað á um óeðlilega hraðan niðurskurð hjá ríkissjóði, er sambærileg við að halda á sér hita með því að pissa í skóinn. Þjóð sem hrekur stóra hópa ungs hæfilekafólks úr landi tapar stórt þegar upp er staðið.

Íslenska stjórnmálastéttin heldur úti feikilega dýrri utanríkisþjónustu sem hægt er að skera niður um 90% án þess að nokkur verði var við það nema gæðingarnir sem mjólka kerfið. Ef nokkur hundruð launaðar nefndir á vegum ríkisins væru lagðar niður myndi það skila sér í sparnaði og meiri framleiðni í hagkerfinu. Þeir sem mjólka það kerfi eru aðallega dauðyfli sem tefja framsækna einstaklinga í atvinnulífinu.

Í hvert skipti sem fjölskylda sem kerfið hefur slátrað er borinn út á götu, sjúkradeild er lokað, heilu byggðarlagi stefnt í hættu og annarri lífsnauðsynlegri þjónustu fórnað í nafni „sparnaðar“—þá er það glæpur á meðan afdankaðir pólitíkusar og klíkubræður þeirra í sendiráðum og nefndum halda áfram að kýla vömbina.

Það er ekki nema einn stjórnmálaflokkur á Íslandi. Þess vegna reddaði Össur Skarphéðinsson flokksbræðrum sínum og stórleikurum í hruninu, Árna Matt og Halldóri Ásgríms, um feitar stöður í utanríkissukkinu. Er ekki kominn tími til að þjóðin taki í taumana?