vald.org

Gjaldmiðlar í vandræðum

18. mars 2011 | Jóhannes Björn

Þegar litið er til næstu tveggja ára eða skemmri tíma, þá er nokkuð öruggt að þrír áhrifamestu gjaldmiðlar heimsins í dag—jenið, dollarinn og evran—eiga allir eftir að lenda í miklum vandræðum. Það er ekki útilokað að dollarinn tapi stöðu sinni sem viðmiðunargjaldmiðill á þessu tímabili.

Í kjölfar hörmunganna í Japan hækkaði gengi jensins gríðarlega og var hærra skráð gagnvart dollaranum en nokkru sinni fyrr. Samræmdar aðgerðir G-7 ríkjanna lækkuðu gengi þess síðan með handafli. Ástæðan fyrir hækkun jensins á sama tíma og þjóðin var að ganga í gegnum mestu hörmungar síðustu 66 ára, eyðileggingu sem hefði átt að snarlækka gjaldmiðilinn, var ekki, eins og fyrst var greint frá í mörgum fjölmiðlum, að japönsk tryggingafélög væru að færa erlendar eignir sínar heim. Sú frétt var dregin til baka. Rétta ástæðan var sú að bankar, fjárfestingafyrirtæki og aðrir spákaupmenn sem hafa verið að nota jen, keypt á 0% vöxtum, til þess að stunda „carry trade“ (viðskipti þar sem ódýrir gjaldmiðlar eru notaðir til þess að fjárfesta í hagkerfum sem búa við hærri vexti) voru að skera á öll bönd og flýja japanska jenið. Í fljótu bragði gæti maður ætlað að slíkur flótti lækkaði jenið, en í þessum einkennilega „carry trade“ heimi virka hlutirnir alveg öfugt. Þegar spekúlantarnir hófu viðskiptin á sínum tíma fjármögnuðu þeir dæmið með því að selja jen sem þeir áttu ekki með framvirkum samningum. Þegar dæmið gekk til baka urðu þeir að kaupa jen til þess að allir samningar stæðu á sléttu.

Jenið náði sögulegu hámarki 17. mars 2011 og sennilega verður það met ekki slegið í marga áratugi. Kannski aldrei. Sérstök skortsöluákvæði framvirkra gjaldeyrissamninga urðu til þess að fyrsta umferð flóttans hækkaði gengi jensins. Í næstu umferð lækka hýenurnar gengið þegar þær selja beint.

Jenið er í eðli sínu veikur gjaldmiðill og þar kemur margt til. Meðalaldur japönsku þjóðarinnar hækkar ískyggilega hratt og það er eitthvað mikið bogið við samfélagmyndina þegar svo stór hópur ungs fólks ákveður að eiga ekki börn. Þjóðin vill heldur ekki flytja inn erlent vinnuafl þótt öllum sé ljóst að það kæmi sér mjög vel fyrir hagkerfið. Skuldir japanska ríkisins duga þó einar til þess að snarlækka jenið á næstu árum og það er reyndar ráðgáta hvernig þjóðin ætlar að fjármagna fyrirsjáanlega enduruppbyggingu. Ríkið skuldar um 200% miðað við árframleiðslu landsins. Eins og málin stóðu fyrir jarðskjálftahrinuna og flóðin þurfti ekki mema en 3–4% vaxtahækkun til að koma ríkinu í gjaldþrot.

Alltaf þegar mikil eyðilegging á sér stað vegna styrjalda eða náttúrhamfara skýtur sú einkennilega hugmynd upp kollinum að hörmungar af þessu tagi séu góðar fyrir hagkerfið. Þetta er ótrúlega algengt viðhorf. Menn benda t.d. máli sínu til stuðnings á löng tímabil hagvaxtar eftir flestar stórstyrjaldir. Samkvæmt þessu væri brjálæður maður sem á einni nóttu brýtur allar rúður í verslunum við Laugaveg að hjálpa hagkerfinu. Að sama skapi væri hagfræðilega rétt að kveikja skipulega í öllum húsum á Seltjarnarnesi. Rökvillan, hugmyndin um að stríð hjálpi hagkerfinu, hverfur ef menn spyrja sig einfaldrar spurningar: Hvað annað hefði verið byggt upp ef ekki hefði þurft að eyða tíma, orku og efni í endurbyggja það sem eyðilagt var?

Henry Hazlitt segir í bók sinni, Economics in One Lesson, frá 1946: „Enginn maður brennir húsið sitt með þá kenningu að leiðarljósi að nauðsynleg endurreisn hússins auki hagsæld hans.“ Það sem á við einn einstakling á líka við um allt samfélagið.

Framhald …