vald.org

Langavitleysan Icesave

22. mars 2011 | Jóhannes Björn

Þrátt fyrir endalausar vangaveltur um Icesave hefur nokkrum lykilspurningum aldrei verið svarað. Það er t.d. alveg óskiljanlegt að glæpaklíkan skuli hafa fengið grænt ljós til þess að leggja út í þessa starfsemi og viðbrögð ráðamanna strax eftir hrun eru jafnvel enn einkennilegri. Hvað vantar í þessa mynd sem gerir hlutina skiljanlega?

Við vitum núna að topparnir í hrunstjórninni vissu að bankakerfið stóð á hengiflugi. Með það í huga var það hreinn glæpur að leyfa Icesave-ævintýrið. Glæpur gagnvart saklausu fólki sem var gert ábyrgt fyrir glannaskap sem var dauðadæmdur frá upphafi. Voru ráðamenn og heilir stjórnmálaflokkar í svo mikilli skuld við glæpagengið að skúrkarnir gátu gert nákvæmlega allt sem þeim sýndist?

Fyrstu viðbrögð ráðamanna eftir hrun voru vægast sagt dularfull. Fjármálaráðherra skrifaði undir hliðarsamning, sem enn virðist vera í fullu gildi, þar sem þjóðin var skuldbundin til þess að skera niður ríkisútgjöldin allt, allt of hratt. Verst af öllu þá sker pólitíska stéttin niður á viðkvæmum stöðum, en slær á sama tíma skjaldborg um utanríkissukkið og eigin hagsmuni.

Fyrsti Icesave-samningurinn flokkast undir hrein svik við fólkið í landinu. Hvers vegna var þetta flókna mál afgreitt með slíku óðagoti og hvers vegna skuldbundu ráðamenn margar kynslóðir til þess að borga himinhár upphæðir og okurvexti án þess að sýna nokkuð viðnám? Vankunnátta í starfi, sem vissulega var fyrir hendi í stórum skömmtum, varpar litlu ljósi á þessi einkennilegu vinnubrögð.

Við sundurgreiningu upplýsinga gildir sú meginregla að menn nota (þar til annað reynist réttara) einfaldasta svarið sem dekkar flestar staðreyndir. Ein tilgáta sem svarar flestum spurningum í sambandi við Icesave og útskýrir óðagot pólitíkusanna er eftirfarandi: Bresk stjórnvöld voru með persónulegar upplýsingar um leynireikninga kúlulánaliðsins á Alþingi og hótaði að birta þær. Þetta náttúrulega er hrein tilgáta, en það er þó vitað að breska fjármálaeftirlitið og leyniþjónustan fylgjast grannt með öllum peningafærslum til og frá Bretlandi og á aflandseyjum sem tengjast gamla heimsveldinu.

Við vitum að pólitíska stéttin var á kafi í kúlulánum og rannsóknarskýrslan birti lista yfir þá sem fengu yfir 100 milljónir. Hvers vegna voru ekki nöfn þeirra sem fengu t.d. 20, 30 eða 50 milljónir frá glæpagenginu? Eru það ekki raunverulegir peningar? Sennilega þorði rannsóknarnefndin ekki að birta slíkan lista vegna þess að þá hefði þjóðin séð að svo til allir þingmenn voru „on the take“ eins og sagt er í Ameríku. Stofnunin hefði ekki lifað það af.

Annað sem múlblindar pólitísku stéttina, og þá sérstaklega Samfylkinguna, er þráin eftir ESB. Þetta fólk mænir til Brussel og dreymir um að komast í feitar stöður á þeim slóðum. Hver vill ekki komast í utanríkissukkið? Þetta fólk sér Icesave sem hindrun og myndar sér skoðanir samkvæmt því.

Hvers vegna á íslenskur almenningur að borga fyrir skuldir sem einkafyrirtæki hafa stofnað til? Enginn dómstóll (nema hann sé hápólitískur) getur sett slíkt fordæmi og neytt saklaust fólk til þess að borga skuldir sem það hefur ekki komið nálægt. Talsmenn samningsins vaða reyk þegar þeir segja að erlendir aðilar hljóti að vera tryggðir vegna þess að innlendar innistæður voru varðveittar. Þetta er hrein fásinna og við erum að tala um tvö algjörlega aðskilin mál:

  1. Glæpamenn sviku út fé erlendis.
  2. Íslenska ríkið fylgdi langri hefð, sem er þekkt út um allan heim, og varði innistæðueigendur fyrir áföllum. Þetta er hlutur sem verður að gera við svona aðstæður, því annars hrynur hagkerfið til grunna. Bankarnir eru aldrei með meira en lítið brot peninga miðað við innistæður og þeir fara beint á hausinn ef fólk treystir þeim ekki.

Samkvæmt lögum og reglum um almennt siðgæði þá skuldar íslenskur almenningur ekki krónu fyrir hönd einkaaðila sem sviku fé út úr útlendingum. Ekki eina krónu.