vald.org

Gjaldmiðlar í vandræðum … framhald

26. mars 2011 | Jóhannes Björn

Kerfi sem stenst ekki í grundvallaratriðum er oft eins og skip sem byrjar að taka ranga stefnu. Í byrjun ber ekki mikið á mistökunum, en því lengra sem skipið siglir verður skekkjan augljósari. Evrópusambandið er byggt upp á forsendum sem standast ekki og brotalamir kerfisins verða því augljósari með hverjum deginum sem líður.

Hagkerfi landa Suður-Evrópu og margra ríkja sem hér áður fyrr voru austan járntjaldsins geta ekki keppt við Þýskaland og önnur háþróuð iðnríki á jafnréttisgrundvelli. Evran drepur þau. Þótt við gæfum okkur þá forsendu að þessi ríki borguðu sömu vexti og Þýskaland, þá væru þau samt ekki samkeppnishæf. Þegar okurvextir þyngja stöðuna enn frekar verður dæmið algjörlega vonlaust. Örlög ESB geta ekki verið önnur en þau að liðast í sundur og evran verður fyrir miklum áföllum í kjölfarið. Tölurnar ljúga ekki.

Írsk ríkisskuldabréf bera nú í fyrsta skipti síðan evran var innleidd yfir 10% vexti og atvinnuleysið er, þrátt fyrir mikinn landflótta, 13,5% og fer samkvæmt spám yfir 16% árið 2012. Pólitíkusarnir eru búnir að rétta fólkinu skuldir óreiðumanna í bankakerfinu upp á €46,3 milljarða á s.l. tveimur árum og nú vantar þetta svarthol tugmilljarða til viðbótar. Ofan á allt þetta bætist að írskir bankar eru að gefa út skuldabréf á sjálfa sig sem fólkið (ríkið) gengur í ábyrgð fyrir. Þjóð sem telur ekki nema 4,4 milljónir einstaklinga getur aldrei borgað þennan reikning, sérstaklega núna eftir að svívirðilegur niðurskurður er búinn að rústa hagkerfinu. Írska ríkið verður gjaldþrota og það er aðeins tímaspursmál hvenær það gerist.

Grikkland er í sömu klemmu og Írland. Markaðurinn heimtar okurvexti fyrir ríkisskuldabréf á sama tíma og hagkerfið dregst saman með auknu atvinnuleysi. Tekjumöguleikar Grikklands—svo ekki sé talað um aukna tekjumöguleika til að geta borgað ofurskuldir landsins—eru mjög takmarkaðir. Þjóðin flytur hlutfallslega lítið út og hátt skráð evra hefur stýrt ferðamönnum í vaxandi mæli til Tyrklands. Nú vilja Þjóðverjar „auka lífsrými“ sitt með því að taka grískar eyjar upp í skulir.

Ríkisstjórn Portúgal var að hrökklast frá völdum og það er alveg ljóst að landið biður fljótlega um „björgunarpakka“ (víxil sem fólkið skrifar upp á) sem fer hátt í €100 milljarða. Talan €70 milljarðar hefur verið nefnd, en ef fortíðin er einhver vegvísir hækkar sú tala hratt. Eftir „björgunarstarf“ evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fetar Portúgal væntanlega í fótspor Íra og Grikkja—beint í gjaldþrot. Frá sjónarhóli AGS er það hið besta mál ef bankaelítunni er bjargað.

Á einhverjum tímapunkti snýr markaðurinn sér að Spáni og heimtar hærri áhættuvexti. Það verður úrslitaorrustan. Ef Spánn þarf á björgunarpakka að halda erum við að tala um trilljón evrur eða tíu sinnum hærri upphæð heldur en Portúgal kemur til með að fá. Slík upphæð er einfaldlega ekki fyrir hendi.

Evrópusambandið er að gliðna í sundur á ótrúlegum hraða.

Bandaríski dollarinn gæti hækkað á næstunni, sérstaklega ef flokkur Angela Merkel fer illa út úr kosningunum í Baden-Wuerttemberg á morgun, en hann er fallvaltur gjaldmiðill sem gæti brátt tekið sína síðustu uppsveiflu. Þrátt fyrir fagurgala í fjölmiðlum virðist bandaríska hagkerfið vera staðnað og venjulegt fólk gerir sér fulla grein fyrir því. Tæknilega séð er dollarinn nálægt því að falla niður fyrir mikilvæg stuðningsmörk (línuritið sýnir gengi dollarans miðað við körfu helstu gjaldmiðla). Sennilega á evran þó eftir að blása lífi í dollarann einu sinni enn áður en hann loks hrapar í sögulegar lægðir.

Hagvöxtur í Bandaríkjunum er skelfilega lítill miðað við ofurskuldirnar sem stofnað hefur verið til. Halli ríkisjóðs á þessu ári verður $1,65 trilljónir og minni en trilljón dollara árlegur halli er ekki í sjónmáli næstu árin. Seðlabankinn lætur líka rigna peningum og kaupir um 70% allra ríkisskuldabréfa sem ríkið selur. Peningamagn í umferð æðir upp.

Neysla almennings keyrir áfram 70% bandaríska hagkerfisins og skuldir heimilanna, ekki raunverulegur hagvöxtur, hafa haldið hjólunum gangandi síðasta áratuginn. Hagvöxtur hefur verið kreistur fram með nýjum lánum, tækni- og fasteignabólu. Kaup hefur staðið í stað og skuldir heimilanna eru enn allt of miklar.

Peningakerfi sem byggir á óeðlilegri þenslu bankalána, frekar en raunverulegri verðmætasköpun, gerir gjaldmiðil viðkomandi hagkerfis verðlausan með tímanum. Kaupmáttur dollarans hefur verið á hraðri niðurleið síðan kreppunni miklu lauk 1939 og síðan Nixon tók hann úr sambandi við gull 1971 hefur verðgildið hrapað eins og grjót.

Eins og þessi síða hefur áður bent á þá er nokkuð ljóst að bandaríska hagkerfið tekur ekki almennilegan fjörkipp fyrr en ný íbúðarhverfi byrja aftur að rísa. Þannig hafa allar efnahagslægðir síðustu 66 ára endað og það er erfitt að sjá hvaða önnur starfsemi gæti skapað ámóta keðjuverkun á vinnumarkaði. Þótt íbúafjöld Bandaríkjanna hafi verið 190 milljónir 1963 og hann sé 307 milljónir þessa stundina, þá seljast miklu færri ný hús núna heldur en fyrir 48 árum. Fasteignabólan sem sprakk 2008 er enn að draga hagkerfið niður í skítinn.

Óeðlilega stórtæk peningaframleiðsla seðlabanka Bandaríkjanna er dálítið dularfull og ekki í neinu samræmi við forsendurnar sem bankinn auglýsir opinberlega. Þegar seðlabanastjórinn talar um skort á verðbólgu er það hreinn fyrirsláttur í heimi þar sem nær öll hráefni hafa stórhækkað á skömmum tíma. Atvinnuleysi er annað sem seðlabankinn nefnir, en peningaflóðið skilar sér í mjög takmörkuðu mæli inn á Bandaríkjamarkað. Þessu nýja kapítali er að mestu leyti varið til spákaupmennsku, t.d. á olíu og landbúnaðarafurðum, og stórar upphæðir renna inn á „heita“ markaði á borð við Kína og Brasilíu. Sumir halda því fram að seðlabankinn sé í raun að reyna að lækka gengi dollarans (til þess að auka útflutningstekjur landsins og gera skuldastöðuna bærilegri), en sú athyglisverða hugmynd hefur líka komið fram að bankakerfið fari beint á hausinn ef vaxtastiginu er ekki haldið niðri með handafli.

Í stuttu máli (samkvæmt skýrslu frá Office of the Comptroller of the Currency) þá liggja bandarískir stórbankar með afleiðupappíra upp á $223,4 trilljónir (árframleiðsla Bandaríkjanna er á milli $14 og $15 trilljónir!) og andvirði $188 trilljóna liggja í samningum sem tengjast hugsanlegum vaxtabreytingum. Flest afleiðuviðskipti ganga út á að menn tryggja sig fyrir vaxtasveiflum.

According to the Office of the Comptroller of the Currency’s Quarterly Report on Bank Trading and Derivatives Activities for the Second Quarter 2010 (most recent), the notional value of derivatives held by U.S. commercial banks is around $223.4 TRILLION.

Fjármál bandaríska ríkisins eru komin í nærri óleysanlegan hnút. Þegar ríkið eyðir 100 dollurum þarf það að fá $42 lánaða. Og hvaða aðilar eiga eftir að kaupa ríkisskuldabréf fyrir margar trilljónir á næstu árum? Kínverjar eru hættir að bæta á sig bandarískum ríkisskuldabréfum og Japan neyðist til þess að selja hundruð milljarða á næstunni. Auk seðlabankans, hvaða erlendir aðilar eiga flest bandarísk ríkisskuldabréf í dag?

Enginn á þessu súluriti getur með góðu móti bætt á sig bréfum. Kínverjar eru frekar að selja skuldabréf og hamstra í staðinn olíu, góðmálma og landbúnaðarvörur. Japan vantar hundruð milljarða til þess að endurbyggja eftir náttúruhamfarirnar. Breska hagkerfið er á hraðri niðurleið, olíuríkin í uppnámi og vogunarsjóðir ekki á höttunum eftir ríkisskuldabréfum sem gefa lítið í aðra hönd. Hærri vextir laða ekki einu sinni að meira kapítal vegna þess að fjárfestar vita að bandaríska ríkið getur ekki borgað hærri vexti af þessum fjallháu skuldum. Ef seðlabanki Bandaríkjanna lýsir yfir þörf á frekari peningaprentun í gegnum QE3—$600 milljarða kaup hans á ríkisskuldabréfum sem enda í júní ganga undir nafninu Quantitive Easing 2 eða QE2—þá er nærri víst að markaðurinn flýr dollarann eins og sökkvandi skip. Ekki löngu eftir það fæðist væntanlega nýr viðmiðunargjaldmiðill.