vald.org

Yfirlit

11. maí 2011 | Jóhannes Björn

Það verður ekkert nýtt á þessari síðu fyrr en í byrjun júní. Væntanlega birtast greinar eftir það með styttra millibili en verið hefur.

Margt bendir til þess að hagkerfi heimsins sé aftur að fara í gegnum svipaða kreppu og haustið 2008. Óeðlilegar sveiflur á góðmálmum, olíu og gjaldmiðlum eru til marks um að eitthvað óeðlilegt kraumar rétt undir yfirborðinu. Grikkland er gjaldþrota og þýskir bankar verða bráðlega að afskrifa háar upphæðir. Portúgal og Írland eru tæknilega gjaldþrota. Bandaríski seðlabankinn hefur verið að kaupa 70% skulda ríkisins og hver á að fjármagna þessar skuldir þegar bankinn neyðist til þess að hægja á peningaframleiðslunni?

Kínverska hagkerfið keppist við að byggja fasteignir sem enginn markaður er fyrir og mörg fyrirtæki hafa sankað að sér koparfjöllum til þess að fara í kringum lánahöft (geta slegið út á koparinn). Þetta getur ekki endað nema með kreppu á fasteignamarkaði og verðhruni á stáli, kopar og fleiri hlutum.

Jen, dollari og evra eru eins og þrjár mismunandi skítugar skyrtur sem strandaglópur á flugvelli getur valið um. Hann fer í þá sem virðist minnst skítug. Dollarar Kanada og Ástralíu eru betri, en þeir gætu þó fallið tímabundið ef kínverska hagkerfið lamast í eitt eða tvö ár. Norska krónan er fín, en svissneski frankinn virðist vera of dýr.

Það eru margar jarðsprengjur í hagkerfi heimsins og „áhugaverðir“ tímar framundan.