vald.org

Næsta bankahrun

16. júní 2011 | Jóhannes Björn

Vitnisburðurinn var vægast sagt vandræðalegur. Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, sat fyrir svörum þingnefndar sumarið 2009 og fór stanslaust rangt með staðreyndir. Seðlabankinn hafði lánað evrópskum bönkum $550 milljarða—sem var svimandi upphæð, sama og samanlögð þjóðarframleiðsla Svíþjóðar og Danmerkur árið 2009, en bankastjórinn sagðist ekki muna hvert peningarnir fóru! Enn furðulegri var staðhæfing hans um að hækkandi gengi dollarans á sama tímabili og peningamoksturinn átti sér stað hefði verið tilviljun, en orsakasamhengið þarna á milli var borðliggjandi. Loks gaf hann í skyn að peningarnir hefðu aðeins runnið til annarra seðlabanka, en skjöl sem seðlabankinn neyddist síðar til þess að birta eftir málsókn sýndu að einkabankar gengu líka í sjóðinn. Stórtækastur var belgískur banki, Dexia, sem fékk yfir $30 milljarða. Vegna ástandsins í PIGS-löndunum hefur lítið borið á þeirri staðreynd að belgíska bankakerfið er í mjög vondum málum.

Þyrlu-Ben—en það er nafngift sem Ben Bernanke fékk eftir að hafa sagt, vonandi í gríni, að seðlabankinn gæti í versta tilfelli dreift nýprentuðum peningaseðlum úr þyrlum—skautaði fram hjá staðreyndum vegna þess að elítan er stöðugt hrædd um að pöpulinn sé of meðvitaður peningaplottið og geri jafnvel eitthvað í málunum (t.d. flykkist í gjaldþrota banka til þess að ná út sparifé sínu). Alltaf best að farþegarnir viti ekkert þegar dallurinn byrjar að leka.

Bankakerfi Evrópu var greinilega í molum um áramótin 2008–2009 og þurfti blóðgjöf frá bandaríska seðlabankanum, sem reynt var að gera sem minnst úr. Nú hafa aftur vaknað spurningar um hvort leynilegt hjálparstarf sé í gangi og ástand bankamála í Evrópu sé miklu alvarlegra heldur en látið er í veðri vaka. Á sama tíma og bandaríski seðlabankinn hefur auglýst að $600 milljarða QE2 (magnaukning peninga til kaupa á ríkisskuldabréfum) sé beint að innanlandsmarkaði, þá hafa erlendir bankar (aðallega evrópskir) sem hafa aðgang að „glugga“ bankans á sama tíma sankað að sér yfir $600 milljörðum.

Bókhald seðlabankans sýnir sama útstreymi.

Ef það er rétt að QE2 hafi runnið til evrópskra banka vaknar náttúrulega upp sú spurning hvaðan peningarnir komu sem keyptu bandarísk skuldabréf fyrir hundruð milljarða á tímabilinu.

Bankakerfi Evrópu er eins og keðjubréf sem ekki er lengur hægt að halda gangandi. Bankarnir skulda innbyrðis, þvers og kruss yfir landamæri, og eitt stórt gjaldþrot gæti sett allt kerfið á hvolf. Þegar AGS og Evrópusambandið settu á laggirnar €750 milljarða sjóð (mest á blaði í formi fyrirheita) til þess að mæta hugsanlegum erfiðleikum PIGS-landanna, þá átti helmingur upphæðarinnar fræðilega að koma frá ríkjum sem nú þegar geta ekki staðið í skilum.

Seðlabanki Evrópu er búinn að lána gríska ríkinu og grískum bönkum á milli €130 og €140 milljarða, auk lána út á ruslapappíra upp á upphæðir sem haldið er leyndum. Grikkland er eins og vígi sem ekki má falla, því þá beinast spjótin næst að Írlandi og Portúgal og loks Spáni. Ef Spánn fellur fer evran sömu leið.

Í ljósi atburðarásar líðandi stundar er augljóst að vald elítunnar, handhafa hluta- og skuldabréfa bankanna, er með hreinum ólíkindum. Heilu þjóðfélagsstéttirnar skulu liggja í valnum áður en elítan fellir niður nokkrar skuldir. Það liggur við borgarastyrjöld í Grikklandi, menntaðir Írar flýja land í stórum stíl og atvinnuleysi liggur eins og dökkt ský yfir Spáni. Samt heimtar elítan meiri niðurskurð og stórkostlegar fórnir.

Eins og miklu nánar verður farið út í síðar í þessum greinaflokki þá skapar nútíma bankakerfi sér gróða úr lausu lofti með veðsetningu raunverulegra eigna. Á Spáni, sem dæmi, gekk þetta þannig fyrir sig að bankar (margir erlendir) byrjuðu að veita hagstæð lán út á fasteignir. Bankarnir endurseldu eða slógu sjálfir lán út á þessi útistandandi lán. Aukin eftirspurn á fasteignamarkaði, keyrð áfram af hagstæðum lánum, hækkaði fasteignaverðið og gaf bönkunum tækifæri til þess að lána út á dýrari veð. Bankarnir héldu áfram að endurselja eða slá út á lán og allt flæddi í peningum. Bankarnir voru raunverulega að þenja út bólu og héldu áfram að græða þar til hún sprakk og markaðurinn hrundi. Á því augnabliki var ákveðið að rétta skattgreiðendum reikninginn.

Framhald …