vald.org

Næsta bankahrun 2

18. júní 2011 | Jóhannes Björn

Almennar umræður í tengslum við bankakreppuna benda til að fjöldi fólks geri engan greinamun á venjulegum skuldum og skuldum sem bankakerfið stofnar til. Venjulegir einstaklingar (eða fyrirtæki) sem lána verðmæti verða fyrst að afla sér þessara verðmæta, en bankakerfið er hins vegar í þeirri einstöku aðstöðu að geta lánað peninga sem eru búnir til úr engu. Sparifé sem lagt er inn í bankakerfið hjálpar til við að þenja út blöðruna, en það hefur, tæknilega séð, ekkert með útlán að gera.

Peningaframleiðsla kerfisins byrjar í seðlabanka viðkomandi ríkis. Þegar fyrstu seðlabankarnir voru stofnaðir hafði almenningur lítinn skilning á hvað var að gerast. Seðlabankarnir voru lengi vel í einkaeign og stjórnað af eigendur öflugustu einkabanka samtímans. Englandsbanki var t.d. stofnaður 1694 og var í einkaeign í 252 ár.

Eigendur stórbanka og fyrstu alþjóðlegu bankanna gerðu sér fljótt grein fyrir að ekkert gaf meira í aðra hönd heldur en gjaldþrota ríkisstjórnir, sem, þegar öllu var á botninn hvoft, höfðu vald til þess að skattleggja almenning. Bankamenn gerðu sér líka grein fyrir að ekkert tæmir ríkiskassa hraðar en styrjaldir og þær hækka líka útlánsvexti verulega. Þegar Amschel Meyer Rothscild ávarpaði fund 12 ríkustu manna Prússlands í Frankfurt árið 1774 sagði hann:

„Styrjöldum skal haga þannig að báðar stríðandi þjóðir verði okkur sífellt skuldbundnari.“

Tæknilegar hliðar bankalána voru tíundaðar í bókinni Falið vald árið 1979. Hér er 8. kafli bókarinnar með nýrri innskotum.

VIII. Peningagaldur—Hvernig bankarnir skapa sér auð úr engu

Patman: Hvernig útveguðu þið ykkur peninga árið 1933 til að kaupa þessi ríkisskuldabréf, sem kostuðu tvo milljarða dollara?

Eccles: Við bjuggum þá til.

Patman: Úr hverju?

Eccles: Réttinum til að skapa lánsfé.

Patman: Og er ekkert á bak við það, eða hvað, nema þessi innistæða ríkisstjórnarinnar?

Eccles: Út á þetta gengur peningakerfi okkar. Ef það væru engar skuldir í peningakerfinu, þá væru heldur engir peningar fyrir hendi.

(Þingmaðurinn Wright Patman yfirheyrir Marriner Eccles, forseta stjórnarnefndar Federal Reserve System, 30. sept. 1941—House Committee on Banking and Currency.)

[„Kublai Khan kom til ríkis 1256 … Hann átti fjölda eiginkvenna og hver um sig hafði hirð 10.000 manna …

„Í borginni Kambalik er myntslátta stórkhansins, og óhætt mun að fullyrða, að hann verði ekki yfirstiginn í gullgerðarlist, því að hann kann að búa til peninga sem hér segir: Hann lætur flétta hýðinu, sem er milli barkarins og viðarins á mórberjatréinu. Hýðið er bleytt og því næst steytt í keri, unz það er orðið eins og grautur. Úr grautnum er búinn til pappír, og hann er skorinn niður í hér um bil ferhyrnd blöð. Gildi sumra seðlanna er hið sama og feneyskra silfurpeninga, en annarra á við 1, 2, 5, og 10 byzantínskra gullpeninga. Skreyting þessara pappírspeninga er gerð með sömu umönnun og vandvirkni eins og peninga úr skíru gulli og silfri. Á hvern seðil ritar ákveðinn fjöldi sérstakra embættismanna nafn sitt, og setja þeir við hann innsigli sín. Þegar þessu er lokið, eftir settum reglum, drepur æðsti myntsláttustjórinn keisarans sérstöku innsigli, sem honum er afhent, í sinnóberrauðan lit og innsiglar seðilinn. Ef einhverjir reyna að eftirmynda seðla þessa, varðar það dauðarefsingu. Peningaseðlar þessir eru í umferð hvarvetna um ríki stórkhansins, og enginn þorir að neita þeim viðtöku af ótta um líf sitt.

„… Þegar kaupmenn koma til Kambaliks með stórar lestir af dýrmætum varningi, þá leggja þeir vörur sínar fyrir fætur hans hátignar. Keisarinn lætur tólf tilkvadda menn, reynda og samvizkusama, virða vörurnar nákvæmlega til kaups, með hæfilegum ágóða. Því næst er kaupmönnunum greidd öll upphæðin í peningaseðlum. Kaupmennirnir hafa ekkert við þetta að athuga, því að fyrir seðlana geta þeir alls staðar keypt hverjar þær vörur, sem þeir þurfa fyrir markaðinn í heimalandi sínu.

„… Ef einhver vill afla sér gulls eða silfurs, skarpgripa eða perlna til þess að vinna úr í einum eða öðrum tilgangi, þá fer hann í myntsláttu keisarans og fær það, sem hann þarfnast, í skiptum fyrir pappírsseðlana. Allur her keisararans fær mála sinn greiddan í seðlum, sem koma þeim af sama gagni og gull eða silfur væri. Nú hafið þið heyrt, hvernig og hvers vegna stórkhaninn ræður yfir meiri auðæfum en nokkur annar einvaldur í heiminum.“

MARCO POLO—FERÐASAGA HANS ENDURSÖGÐ AF AAGE KRARUP NIELSEN, bls. 84, 102–103, ísl. útgáfa 1940

Auðvitað gat eyðsluseggur á borð við Kublai Kahn ekki setið á sér að framleiða of mikið af pappír og þrálát verðbólga hélt innreið sína. Eftirmenn hans héldu áfram á sömu braut og 1378 þurfti að greiða 1.31 pappírs caixas fyrir einn kopar caixas. Sjötíu árum síðar, árið 1448, þurfti að greiða 333 pappírs caixas fyrir einn úr kopar.]

Áratugum saman hefur almenningur á Íslandi og annars staðar horft með vaxandi undrun á útþenslu bankakerfisins. Við höfum orðið vitni að hvernig bankar, sem margir hverjir hafa byrjað með rýra sjóði og búið við þröngan húsakost, hafa á nokkrum árum unnið sig upp í að verða stórveldi með tug- og hundruð milljarða veltu—skartandi háhýsum og útibúum út um allar jarðir. Við höfum einnig orðið vitni að hvernig sífellt fleiri hendur ljá þessu ríki í ríkinu starfskrafta sína, þannig að í fiskimannaþjóðfélaginu sitja nú fleiri einstaklingar og telja peninga en sjómennirnir eru sem afla þeirra.

Gott dæmi um þessa þróun kemur fram í ársskýrslu Iðnaðarbankans 1977. Þar er stuttlega rakin 25 ára saga bankans og upphafi hans lýst á þennan myndræna hátt:

„Upphaf Iðnaðarbankans var látlaust. Fyrstu húsakynnin voru gluggalaus kjallari, þar sem bókhald og lögfræðingur höfðu aðsetur, lítill afgreiðslusalur á jarðhæð og eitt herbergi á annarri hæð.

„Mjór er mikils vísir, segir málshátturinn, og hefur það sannast á Iðnaðarbanka Íslands h.f. Í dag eru höfuðstöðvar bankans í glæsilegu húsi við Lækjargötu í Reykjavík. Í höfuðborginni rekur bankinn þar að auki þrjú útibú. Á Akureyri, í Hafnarfirði og á Selfossi starfrækir hann eitt útibú á hverjum stað. Séð hefur verið fyrir framtíðar þörfum aðalbankans og útibúsins á Akureyri með verðmætum lóðarkaupum.“[1]

Ekki geta mörg fyrirtæki á Íslandi státað af slíkum vexti á aðeins 25 árum. Samt hefur vöxtur Iðnaðarbankans h.f. verið hægari en hinna bankanna [vegna stórbruna þegar aðalbankinn brann]. Um áramótin 1977/78 starfræktu Landsbankinn, Útvegsbankinn, Búnaðarbankinn, Samvinnubankinn og Verslunarbankinn samtals hvorki meira né minna en 65 útibú. Og stöðugt bætast ný í hópinn.

Hvernig fara allir þessir bankar að því að ávaxta pund sitt jafn ríkulega og raun ber vitni? Ekki þarf að ganga lengi um marmarasali þeirra og virða fyrir sér tækjakost og starfsmannafjölda (eða blaða í ársskýrslum þeirra) til að sjá að gróðinn stafar ekki af rekstrarhagræðingu. Ekki ætti óðaverðbólga og almenn upplausn í efnahagsmálum heldur að hjálpa upp á sakirnar. Hvar liggur þá hundurinn grafinn?

Flestir bankamenn mundu svara spurningunni um gróða bankans á þessa leið: Almenningur og fyrirtæki leggja peninga inn í bankana gegn vöxtum. Bankarnir lána síðan þessa sömu peninga gegn hærri vöxtum. Mismunurinn er álagning bankans. Einfalt?

Já, þetta er nógu einfalt og hefur reyndar verið endurtekið látlaust í meira en 200 ár. Gallinn er aðeins sá að ÞETTA ER EKKI SATT. Þegar málið er skoðað í heild, þá kemur í ljós að bankarnir lána ALDREI sparifé almennings. Öll lán og yfirdráttalán þýða einfaldlega að nýir peningar í umferð hafa séð dagsins ljós.

Þessar síðustu fullyrðingar kunna að koma flatt upp a marga, og þá sérstaklega bankamenn af „gamla skólanum.“ Hér er þó ekki verið að tala um hluti sem eru alveg óþekktir. Þeim hefur einfaldlega ekki verið haldið á lofti á æðstu stöðum. En sem betur fer eru staðreyndir þessa máls bæði einfaldar og auðsannaðar.

Flest höfum við vaxið úr grasi með ákaflega óljósar hugmyndir um peninga (þökk sé hagfræðinni, sem hefur tekist að gera þennan einfalda hlut svo flókinn). Við vitum þó að stjórnvöld eða einhver banki hefur einkarétt á að gefa út seðla og mynt, og við lítum á þessa seðla og mynd sem undirstöðu allra viðskipta. Þarna verður okkur fyrst fótaskortur.

Staðreyndin er sú, að hinir lögboðnu peningar—seðlar og mynt—eru notaðir til að þekja innan við 5% greiðslna í viðskiptalífinu Meira en 95% allra viðskipta fara fram með tékkum eða hliðstæðum færslum á milli skuldaliða. Því má segja að tékkar séu peningar sem bankinn býr til—peningar sem notaðir eru á nákvæmlega sama hátt og þeir lögboðnu. Þetta fyrirkomulag gerir bankanum kleift að lána níu til tíu sinnum hærri upphæðir en raunveruleg seðlaeign hans segir til um. [Í dag eru þetta aðallega rafrænar færslur.]

Árið 1977 voru gefnir út 7.542.000 tékkar á Íslandi að andvirði tæplega 678 milljarða kr.[2] Á sama ári voru seðlar og mynt í umferð að meðaltali litlir átta milljarðar (6.3 í ársbyrjun og 9.2 í árslok!).[3]

Þessar tölur eru í sjálfu sér næg sönnun fyrir að bankarnir lána hvorki eigið fé né sparifé almennings. Hvernig í ósköpunum ættu þessir átta milljarðar af löglegum peningum að standa undir veltu sem nálgast þúsund milljarða?

Í ársskýrslu Samvinnubankans 1977 (sem er lítill banki í samanburði við t.d. Landsbankann), segir: „Heildarvelta bankans nam á árinu 149,6 milljörðum og hafði aukist um 37,2%“[4] Þetta er aðeins einn meðalbanki.

Sir Edward Holden, yngri, breskur bankaeigandi, sagði eitt sinn:

„Bankarekstur er lítið annað en vinna við bókfærslu, þ.e. að flytja innistæður frá einum manni til annars. Tilfærslurnar fara fram með tékkum. Tékkar eru gjaldmiðill (ekki lögboðnir peningar). Gjaldmiðill er peningar.“

Við skulum líta á tæknilega hlið bankalána, hvernig bankarnir búa til peninga úr engu. Segjum að fyrirtækið Þöngull h/f fái lánaðar 10 milljónir hjá viðskiptabanka sínum. Upphæðin er færð inn á reikning fyrirtækisins; peningar sjást ekki. Þegar Þöngull h/f síðan losar sig við þessa upphæð, gerist það með tékkum sem lenda í yfir 95% tilfella inn á reikningum annarra aðila (það skiptir ekki máli þótt þessir reikningar séu að einhverju leyti í öðrum bönkum, vegna þess að reikningshafar þeirra gefa einnig út tékka sem lenda í viðskiptabanka Þönguls h/f). Bankakerfið hefur aukið veltuna um 10 milljónir og er vöxtunum ríkara.

Merkilegast við lán Þönguls h/f er þó hvaða meðferð það fær í bókhaldi bankans. Upphæðin, í þessu tilfelli 10 milljónir, verður fyrst til þegar bankinn færir hana inn á reikning fyrirtækisins. Á efnahagsreikningi bankans kemur hún fram sem eign (Bankinn á þessa peninga hjá Þöngli h/f) og einnig sem skuld (bankinn skuldar Þöngli h/f þá upphæð sem er á ávísanareikning fyrirtækisins). Þegar Þöngull h/f borgar lánið, hverfur upphæðin úr bókhaldinu og vextirnir sitja einir eftir. Tíu milljónirnar voru aldrei til. Eina sem gerist varðandi bankann er að hlutfall lána og eignar löglegra peninga verður hagstæðara þegar lánið er endurgreitt.

Við skulum búa til einfalt dæmi sem sýnir hvernig þetta gengur fyrir sig í bókhaldinu. Hugsum okkur að Íslandsbanki standi þannig 1. janúar:

Eignir
kr. 50

Skuldir
kr. 50

Annan janúar fær Þöngull h/f lánaðar 1000 krónur sem eru lagðar inn á reikning fyrirtækisins. Þá lítur dæmið þannig út:

Eignir
kr. 1050

Skuldir
kr. 1050

Bankinn hefur búið til 1000 kr. sem fara í umferð í formi tékka. Hann þarf ekki að eiga nema 5% (eða minna) af löglegum peningum. Segjum að Þöngull h/f borgi lánið strax næsta dag, 3ja janúar, og noti til þess m.a. alla peninga sem hann hefur á reikningi sínum í bankanum. Þá lítur efnahagsreikningur bankans þannig út:

Eignir
kr. 50 (plús vextir)

Skuldir
kr. 50

Raunverulega hafa aðeins tveir hlutir gerst. 1) Bankinn hefur grætt vexti, en situr að öðru leyti í sömu sporunum, og 2) velta bankakerfisins hefur aukist um 1000 kr. (sem Þöngull h/f borgaði væntanlega öðrum aðilum á meðan láninu var velt). Engin furða þótt prófessor Soddy, eðlisfræðingur við Oxford háskóla, spyrji:

„Er það mögulegt á þessum tímum vantrúar á efnisleg kraftaverk að dubba upp stofnanir, sem þykjast lána peninga, en lána þá ekki, heldur búa þá til? Og þegar þeim er endurgreitt, afmá þá? Og hafa því náð tökum á því efnislega óhugsandi kraftaverki, ekki aðeins að fá eitthvað fyrir ekkert, heldur einnig að uppskera af því óþrjótandi vexti?“

Í fjórtándu útgáfu alfræðibókarinnar Encyclopædia Britannica, undir fyrirsögninni Banking and Credit, getur að líta þessar fróðlegu línur:

„Bankar búa til lánsfé. Það væri skyssa að ætla að lánsfé banka verði til að einhverju teljandi marki vegna innlána í þá.“[5]

Marriner Eccles, fyrrum formaður stjórnarnefndar Federal Reserve System (alríkisseðlabankakerfi USA), kemur inn á þessi sömu atriði er hann segir:

„Bankarnir geta búið til og afmáð peninga. Lán banka eru peningar. Með þeim peningum framkvæmum við flest viðskipti okkar, ekki með þeim peningum sem við venjulega hugsum okkur peninga.“

Ein broslegasta sönnunin fyrir því að bankar lána ekki sparifé viðskiptavina sinna er þessi: Hefur nokkur lesenda upplifað að innistæða hans í banka hafi verið lækkuð til þess að bankinn geti lánað hana? Hvernig ætti bókhaldið að ganga upp ef allir halda sínum fullu innistæðum á sama tíma og bankinn lánar þær?

Ársskýrslur allra banka leggja ríka áherslu á eitt atriði: Innlán (peningastreymi inn í bankana) eru hærri en útlán. Þetta er venjulega sett upp í súlur sem eiga að sanna regluna: „bankar lána sparifé viðskiptavinanna.“ Þessi uppsetning er villandi vegna þeirra augljósu sanninda að bankakerfið er uppspretta allra peninga. Allir peningar sem lagðir eru inn á banka hafa einhvern tíma verið lánaðir út úr banka. Chamber's Encyclopædia, annað hefti (1950), undir fyrirsögninni Banking and Credit, segir um þetta atriði:

„… bankalán skapa innistæður. Sköpunin á sér stað þegar andvirði lánsins er lagt inn á reikning viðskiptavinarins, eða, þegar annar háttur er hafður á, þegar skuld eins viðskiptavinar verður innistæða annars.“[6]

R.G. Hawtrey, sem eitt sinn var háttsettur starfsmaður í breska fjármálaráðuneytinu, segir í bók sinni, Trade Depression and the Way Out: „Þegar banki lánar þá býr hann til peninga úr engu.“ Og í annarri bók, The Art of Central Banking, segir Hawtrey:

„Þegar banki lánar þá býr hann til peninga. Á móti þeirri upphæð sem bætist við eignir hans vegur innlegg sem bætist við skuldir hans. En aðrir lánadrottnar búa ekki yfir þessu dularfulla valdi að skapa sér gjaldmiðil úr engu. Það sem þeir lána verða að vera peningar sem þeir hafa eignast í gegnum viðskipti sín.“

Og loks skulum við vitna í John Maynard Keynes, bankastjóra Englandsbanka á stríðsárunum, sem sagði: „Það getur ekki nokkur vafi leikið á að allar innistæður eru skapaðar af bönkunum.“[7]

Hér skulum við staldra við augnablik og draga saman í nokkrar setningar helstu atriðin sem hafa komið fram. Við höfum séð að:

  1. Yfir 95% allra viðskipta fara fram með tékkum, ekki lögboðnum peningum.
  2. Þess vegna er bankakerfið í aðstöðu til að lána 9–10 sinnum hærri upphæðir en peningaeign þess segir til um.
  3. Bankarnir lána ekki sparifé almennings, heldur búa þeir til nýja peninga í hvert skipti sem þeir lána.
  4. Þegar banki fær lán endurgreitt, þá hverfur það úr bókhaldinu. Vextirnir sitja einir eftir.
  5. Allar innistæður voru í upphafi bankalán.

Öll þessi atriði hafa eitthvað að gera með að skapa sér auð úr engu. Þó er óupptalið eitt atriði enn sem fellur undu sömu skilgreiningu og er e.t.v. skemmtilegast (tæknilega séð) af þeim öllum. Þegar bankarnir kaupa lóðir, byggja marmarahallir, kaupa skrifstofuvélar, borga kaup og yfirleitt fjárfesta á einhvern hátt, þá kostar það þá sama og ekki neitt. Þegar litið er til lengri tíma, alls ekki neitt. Þetta er þó bundið því skilyrði (ef maður lítur á hvern einstakan banka fyrir sig) að bankarnir fjárfesti nokkuð jafnt og í hlutfalli við veltuna (sem þeir venjulega gera).

Gerum dæmið einfalt og hugsum okkur að aðeins væru starfandi tveir bankar á Íslandi, banki A, sem veltir 600 milljörðum, og banki B, sem veltir 300 milljörðum. Við sjáum að banki A er helmingi stærri en banki B. Það þýðir að hann getur leyft sér helmingi meiri fjárfestingar.

Nú byggir banki A marmarahöll sem kostar 600 milljónir. Hann borgar fjölda aðila fyrir verkið með því að gefa út tékka á sjálfan sig. Þessir tékkar eru, að sjálfsögðu, tilbúnir peningar sem jafnast út í bókhaldinu með því að færa andvirði marmarahallarinnar til eignar. Vegna þess að banki A veltir 2/3 alls fjármagns í landinu, koma 400 milljónir af þeim 600 sem hann gaf út inn í hann aftur og auka veltuna. Á sama tíma fara tékkar fyrir 200 milljónir inn í banka B.

Banki B hefur ekki setið auðum höndum. Hann hefur byggt minni marmarahöll sem hann borgar í tékkum, samtals 300 milljónir. En af því að hann veltir aðeins 1/3 af heildar fjármagninu, þá skila aðeins 100 milljónir sér til baka; 200 fara inn í banka A. Um áramót gera banki A og banki B upp reikningana. A skuldar B 200 milljónir og B skuldar A 200 milljónir. Marmarahallirnar kostuðu ekki neitt!

Á sama hátt getur banki keypt ríkisskuldabréf og önnur verðbréf. Hann borgar þau með tékkum. Í bókhaldinu kemur andvirði tékkanna fram sem skuld, en andvirði bréfanna sem eign. Með öðrum orðum, þegar banki kaupir eitthvað, hvort sem það er ritvél eða marmarahöll, þá kostar það ekki meira en að færa tölur inn í eigin bækur.

Auðvitað gætu bankarnir reynt að klóra í bakkann og haldið því fram að þeir keyptu marmarahallirnar fyrir gróðann eða peninga úr eigin sjóðum. Þær fullyrðingar fá ekki staðist vegna þess að bankinn missir ekki neitt. Sjóðirnir standa óhaggaðir eftir sem áður.

Reginald McKenna, forseti stjórnarnefndar Midland Bank, kom inn á þetta atriði er hann ávarpaði hluthafa bankans, þann 25. janúar 1925—skráð í bók hans Post-War Banking:

„Magn peninga í umferð breytist aðeins með tilliti til aðgerða bankanna við að auka eða minnka innistæður og fjárfestingar þeirra. Við vitum hvernig þetta gengur fyrir sig. Öll lán, yfirdráttarheimildir og allar fjárfestingar bankanna skapa innistæður, en allar endurgreiðslur lána, yfirdráttarheimilda og sölur bankanna afmá innistæður.“

Það liggur í hlutarins eðli, að þegar blaðra er þanin út á þann máta sem hér hefur verið lýst, þá eru bankarnir stöðugt í þörf fyrir nýja seðla úr prentvélunum. Seðlamagnið má aldrei fara mikið niður fyrir 5% af veltunni. Seðlakaup bankanna eru jafn áreynslulaus fyrir þá og aðrar fjárfestingar. Sjáum hvað ársskýrsla Seðlabankans hefur að segja um svokallaða ríkisvíxla:

„Til að forðast yfirdráttarlán í Seðlabanka, sem bera 1% vexti af hæstu skuld á hverjum 10 dögum, geta bankar og sparisjóðir ávaxtað lausafé sitt með kaupum á ríkisvíxlum í stað þess að festa það í almennum útlánum, þegar aðeins er um tímabundna aukningu lausafjár að ræða. Víxlarnir eru gefnir út snemma árs, þegar saman fer mikil lánsfjárþörf ríkissjóðs og lausafjármyndun innlánsstofnana. Þeir bera venjulega víxilvexti auk 1 1/2% þóknunar og eru endurseljanlegir Seðlabankanum fyrirvaralaust … Árið 1977 seldust víxlar fyrir um 600 m.kr. til sparisjóða, og einn banki átti um 1.700 m.kr. (1.7 milljarða) í ríkisvíxlum í tvo mánuði.“[8]

Þýdd og endursögð hljóðar þessi málsgrein þannig: Bönkum og sparisjóðum stendur til boða að skrifa tékka á sjálfa sig og leggja inn í Seðlabankann. Í staðinn er viðkomandi banka eða sparisjóði færð til eignar sama upphæð (plús vextir og þóknun) sem skuld ríkissjóðs (fólksins). Þessa upphæð er hægt að taka fyrirvaralaust út úr Seðlabankanum í formi nýrra seðla. Hver einstök milljón sem banki eða sparisjóður eignast í löglegum seðlum gefur möguleika á að lána 9–10 milljónir. Ríkissjóður fær sitt án þess að bankarnir borgi nokkuð. Nýir peningar hafa séð dagsins ljós. [Hér er verið að fjalla um lokað hagkerfi eins og það var á Íslandi fyrstu áratugina eftir stríð.]

Til að skilja þetta skrýtna fyrirkomulag fullkomlega verðum við að hverfa nokkur hundruð ár aftur í tímann og sjá hvernig það varð upphaflega til.

Innbrot og rán á þjóðvegum voru mjög algeng á Englandi áður en Sir Robert Peel kom þar á fót skipulagðri lögreglu árið 1835. Af þessum sökum kaus fólk að koma gulli sínu fyrir á öruggum stað og snéri sér til gullsmiðanna, en þeir voru einu aðilarnir sem réðu yfir nægilega sterkbyggðum geymslum. Þegar fólk lagði inn gullið sitt fékk það vottorð eða ávísun fyrir innistæðunni. Smámsaman þróuðust þessar ávísanir upp í að verða virkur gjaldmiðill. Svo lengi sem fólk treysti greiðslugetu viðkomandi gullsmiðs, þá var því sama hvort það fékk greitt í ávísun frá honum eða gulli. Færri og færri kusu að meðhöndla hið raunverulega gull, því auðvitað var pappírinn bæði léttari og meðfærilegri til allra viðskipta, svo ekki sé talað um öryggið gagnvart þjófum.

Ekki leið á löngu áður en gullsmiðirnir gerðu sér grein fyrir þeirri frábæru stöðu sem þeir voru komnir í. Vegna þess hve fáir vitjuðu um gullið sitt voru þeir í aðstöðu til að gefa út pappíra fyrir 9–10 sinnum hærri upphæðum en gulleign þeirra sagði til um. Hver 1000 sterlingspund í gulli gáfu möguleika á að lána 9000–10.000 á vöxtum. Í bókinni Anatomy of Credit, segir Garet Garrett um þetta fyrirkomulag:

„Hvernig getur banki lánað allt að nífalt meira fjármagn en peningaeign hans segir til um? Kannski er auðveldast að útskýra það með því að segja söguna um gömlu gullsmiðina, sem fengu gull til varðveislu, og gáfu út ávísanir fyrir því.

Þessar ávísanir, staðgenglar gullsins, byrjuðu að ganga á milli fólks sem peningar. Þegar gullsmiðirnir sáu þetta, og að fólk handfjatlaði sjálft gullið sjaldan eða vildi það aftur, að því tilskildu að það tryði að það væn öruggt, þá hófu þeir að gefa út pappírsgjaldmiðil sem hægt var að skipta í gull, án þess að eiga gull fyrir honum.“

Á dögum Cromwells var byrjað að kalla gullsmiðina „bankamenn.“ Árið 1694 bundust nokkrir slíkir samtökum og fengu einkaleyfi, gegn því að lána ríkinu 1.2 milljónir sterlingspunda, til að stofna Englandsbanka (þjóðnýttur 1946). Þetta fyrirkomulag breiddist fljótlega út um allan hinn siðmenntaða heim.

Eftir að fallið var frá gulltryggingu seðla má segja að nýir seðlar úr prentvélunum hafa komið í stað gulls og tékkarnir í stað seðla. Og vegna þess hve miklu auðveldara og fljótlegra það er að prenta peninga en að grafa eftir gulli, þá hefur útþensla bankakerfisins orðið eins og raun ber vitni. Annar fylgifiskur vitleysunnar er svo auðvitað verðbólgan.

Einu sinni fóru öll viðskipti fram með vöruskiptum. Rófurnar kostuðu þetta mörg egg, eggin þetta margar baunir o.s.frv. En vöruskipti eru þunglamalegur viðskiptamáti og með vaxandi verslun varð einhver fyrirferðarminni gjaldmiðill að koma til. Í flestum tilfellum varð gull (og oft silfur) fyrir valinu. Hvers vegna gull? Gull er endingargott, mátulega sjaldgæft til að vera verðmætt og, það sem er mikilvægast af öllu, það kemur inn á markaðinn í það litlum mæli (vegna þess hve dýrt og seinlegt er að ná því úr jörðu) að það er nær aldrei verðbólguhvetjandi (undantekning varð á þessu á sextándu öld þegar Spánverjar jusu amerísku gulli yfir Evrópu).

Verðbólga heldur alltaf innreið sína þegar fallið er frá gulltryggingu seðla. Í ríki Kubla Khan, Frakklandi 1789–1796,[9] Englandi 1797–1821,[10] Bandaríkjunum 1775–1781,[11] Þýskalandi eftir báðar heimstyrjaldirnar og flestum ríkjum heimsins í dag, sjáum við hvernig pappírinn (óstuddur) býður verðbólgunni heim. Hvers vegna?

Verðgildi ógulltryggðra seðla ræðst af hlutfalli (magni) þeirra á móti vöru og þjónustu í landinu. Ef magn peninga, vöru og þjónustu stendur í stað, þá stendur verðlag í stað. Ef peningamagnið eykst og magn vöru og þjónustu stendur í stað, þá verður verðbólga. Þegar fjármagn í umferð er aukið með bankalánum, prentun peningaseðla eða yfirdráttarheimildum, þá eykst vara og þjónusta í þjóðfélaginu oftast ekki að sama skapi (vegna þess að innlendir jafnt, sem erlendir bankar eru of ákafir við að skapa sér auð úr engu). Útkoman verður því verðbólga. Meira peningamagn er fyrir hendi til að kaupa sama magn vöru og þjónustu. Þegar þessir gervipeningar síast inn í efnahagskerfið er krafist fleiri seðla fyrir sama magn vöru og þjónustu.

Með þetta í huga er fróðlegt að sjá hvað Antony Sutton hefur að segja um yfirdráttarlán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins:

„Grundvallareðli yfirdráttarlánanna er að þau eru ímyndunar- eða platpeningar. Raunverulega eru þau færslur inn á tölvur … Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn getur búið til yfirdráttarlán sem hljóðar upp á eina milljón eða 500 milljarða á tíu mínútum með einfaldri tölvuinnfærslu … í janúar 1975, sem dæmi, þá hækkaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn yfirdráttarlán aðildarríkjanna um 40% eftir tíu mínútna umræður.“[12]

Hver borgar þá brúsann þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býr til peninga a þennan hátt? Það gera handhafar dollaraseðla, fólkið sem var svo saklaust að selja vinnu sína eða önnur verðmæti fyrir þennan pappír, þegar verðbólgan minnkar verðgildi þeirra. Sjóðurinn býr nefnilega til dollara (þ.e. lánunum er oftast skipt í dollara).

Út frá þessum bollaleggingum getum við búið til mjög einfalda skilgreiningu á verðbólgu: Verðbólga er sjúkdómur sem myndast í hagkerfinu þegar þeir peningar sem réttir hafa verið út skila sér ekki aftur í samsvarandi aukningu vöru og þjónustu. Hvernig ætti slíkt jafnvægi að geta haldist í hagkerfi þar sem bankarnir eiga allt sitt undir að framleiða peninga? [Fyrir 1980 voru vextir af lánum LÆGRI en verðbólgustigið. Einstaklingar sem hefðu stundað svona viðskipti hefðu farið beint á hausinn, en verðbólgan kallaði stöðugt á meira peningamagn í umferð sem bankarnir síðan lánuðu.]

Er þessi starfsemi bankanna, að búa til peninga úr engu og auka þannig peningamagn í umferð (sem þýðir rýrnun þeirra peninga sem fyrir eru ef vara og þjónusta eykst ekki að sama skapi), lögleg? Getur banki sem lánar peninga sem ekki eru til krafist þess að fá endurgreitt?

Eitt slíkt mál kom upp í Bandaríkjunum árið 1967. Jerome Daly, sem hafði fengið $14.000 lán hjá First National Bank of Montgomery, Minnesota, neitaði að endurgreiða. Þar sem lánið var tryggt í fasteign að Fairview Beach, Scott Country í Minnesota, hóf bankinn málssókn fyrir undirrétti í Scott Country og krafðist eignarinnar. Dómari í málinu var Martin V. Mahoney.

Vörn Daly var einföld: Bankinn átti engan rétt á eign hans vegna þess að hann (bankinn) hafði ekki, þegar hann lánaði, lagt fram nein raunveruleg verðmæti sem réttlættu eignarupptöku. Fjórtán þúsund dollararnir voru hvorki í gulli eða einu sinni löglegum peningum; þeir voru búnir til með bókfærslu. Lögmaður bankans svaraði því til að hér væri um hefðbundin vinnubrögð að ræða, en gat ekki bent á neina lagagrein sem réttlætti þau.

Dómur féll í málinu 7. desember 1968. Bankinn tapaði! Í úrskurði sínum sagði Mahoney dómari meðal annars:

„Sækjandi viðurkenndi að hann, ásamt Federal Reserve Bank of Minneapolis … hafi búið til alla upphæðina $14.000 í peningum eða bókfærðu láni. Peningarnir og lánið urðu fyrst til þegar þeir (bankarnir) bjuggu þá til. Morgan (fyrir hönd bankans) viðurkenndi að engin bandarísk lög eða samþykktir veittu honum rétt til að gera þetta … Kviðdómurinn komst að þeirri niðurstöðu, að engin lögleg greiðsla hefði átt sér stað, og ég samþykki. Guð einn getur skapað verðmæti úr engu.“

Sé niðurstaða dómsins merkileg, þá var sú ákvörðun First National Bank of Montgomery að áfrýja ekki til æðri dómstóla jafnvel enn merkilegri. Bankinn kaus heldur að tapa $14.000 en að eiga á hættu að tapa öllu sínu (og setja 5000 aðra banka í landinu á höfuðið). Fróðlegt væri að sjá hliðstætt mál afgreitt í íslenska dómskerfinu.

Auðvelt er að geta sér til um framþróun efnahagsmála í heimi þar sem bankarnir hafa komið sér í þá aðstöðu að vera eina uppspretta peninga án þess að láta nokkuð í staðinn.

Peningar eru blóðið sem streymir í þjóðarlíkamanum. Allar framkvæmdir krefjast peninga sem bankarnir búa til úr engu. Á meðan almenningur vinnur myrkranna á milli við að skapa raunveruleg verðmæti færir bankinn tölur í bækur sínar og verður ríkari.

Ein hörmulegasta afleiðing þessa kerfis er vaxandi skuldabaggi sem hvílir á herðum almennings. Segja má með nokkurri sanngirni, að því meiri raunveruleg verðmætasköpun sem á sér stað (vegagerð, brýr og önnur mannvirki), þeim mun fátækara verður fólkið og bankarnir ríkari. Þegar þetta er skrifað skuldar hvert einasta mannsbarn á Íslandi, eftir mestu framkvæmdaár í sögu landsins, eina milljón í erlendar skuldir. Árið 1975 skulduðu Bandaríkjamenn litla 100.000.000.000 (100 milljarða) dollara.

Hvernig endar þetta?

Það er auðvelt dæmi ef við gleymum peningum um stund og hugsum okkur að eini löglegi gjaldmiðillinn á Íslandi (eða heiminum) sé t.d. Coca-Cola, og að ein verksmiðja hafi einkarétt á að framleiða það og lána með vöxtum. Það liggur í augum uppi að við getum ekki framkvæmt neitt án þess að fá lánað hjá Coca-Cola til að borga fyrir hráefni og vinnu. Þegar lánið er endurgreitt, segjum lán upp á 1000 flöskur, þá þarf að greiða 300 í vexti. Hvaðan komu þessar 300 flöskur? Auðvitað frá einu uppsprettu Coca-Cola, verksmiðjunni. Hvernig komust þær í umferð? Þær voru búnar til og settar í umferð í formi láns sem bar vexti. Já, en með þessu móti hlýtur Coca-Cola verksmiðjan að eignast alla hluti þegar fram líða stundir? Tja …

[1] Ársskýrsla Iðnaðarbankans 1977, bls. 2.

[2] Ársskýrsla Seðlabankans 1977. bls. 100.

[3] Ársskýrsla Seðlabankans 1977. bls. 79, 99.

[4] Ársskýrsla Samvinnubankans 1977, bls. 3.

[5] Encyclopædia Britannica, 14. útgáfa, 3ja hefti, bls. 48.

[6] Chamber's Encyclopædia, annað hefti, bls. 99, 1950.

[7] John Maynard Keynes, A Treatise on Money, Volume 1, THE PURE THEORY OF MONEY, 1958.

[8] Ársskýrsla Seðlabankans 1977, bls. 45–46.

[9] Andrew Dickson White, FIAT MONEY INFLATION IN FRANCE, 1914.

[10] Edwin Cannan, THE PAPER POUND, 1919.

[11] William M. Gouge, A SHORT HISTORY OF PAPER MONEY AND BANKING IN THE UNITED STATES, 1833.

[12] Antony C. Sutton, THE WAR ON GOLD, bls. 145, 150, 205, 1977.

Það eru alltaf mikil forréttindi að fá að reka banka. Starfsleyfi til þess að reka banka í lokuðu hagkerfi eins og Ísland bjó við í áratugi eftir seinna stríð jafnaðist á við að eiga gullnámu. Óðaverðbólga kallaði sífellt á meira peningamagn í umferð sem bankakerfið lánaði út. Opið hagkerfi, þar sem erlendir gjaldmiðlar koma líka við sögu, kallar á aðrar leikreglur, en öll grundvallarlögmál eru þau sömu. Tækifærið til þess að búa til peninga úr engu færist þá að hluta yfir á stærri banka í útlöndum.

Atburðir síðustu þriggja ára hafa sýnt okkur óþyrmilega að bankaelítan hefur enn heljartök á seðlabönkum og ríkisstjórnum landanna. Eftir glæpsamlegt atferli—þar sem ruslapappírum var vöðlað í fjárfestingapakka og fasteignaverðið þannig blásið út í mörgum löndum—var ruslið sett inn í seðlabanka ríkjanna og fólkinu réttur reikninginn. Bankamenn sem með réttu áttu að vera gjaldþrota borguðu sjálfum sér síðan milljarða í bónusgreiðslur.

Sex stærstu bankar Bandaríkjanna settu hagkerfi heimsins á hausinn með hjálp nokkra breskra og svissneskra banka. Samkvæmt leikreglum sem gilda í frjálsu hagkerfi áttu þessir sex bankar að fara í skiptameðferð. Þeir áttu að koma út úr þeirri meðferð bæði minni og heilbrigðari. En elítan sem hefur stjórnað þessum bönkum í marga áratugi lét ekki góða krísu ganga sér úr greipum. Keyptir pólitíkusar og seðlabankinn hlupu undir bagga með vægast sagt skelfilegum afleiðingum. Árið 1990 voru þessir sex bankar með 9% allra innistæðna í Bandaríkjunum—í dag er talan komin í 36%. Óréttlætið er algjört. Þrátt fyrir að fara tæknilega á hausinn hafa nokkrir bankar náð undir sig miklu stærri hluta markaðarins. Yfir 9000 bankar sem ekkert brutu af sér eru líka verr staddir vegna þess að þeir þurfa að borga miklu hærri tryggingagjöld … vegna hruns stóru bankanna!

Hvernig fer fyrir kerfi þar sem vanhæfir stigamenn eru verðlaunaðir á meðan skikkanlegum bankaeigendum er refsað? Og svo er það stóra spurningin hvort skattgreiðendur geti borgað reikninginn? Þegar Ronald Reagan tók við völdum voru þjóðarskuldir Bandaríkjanna undir einni trilljón dollara. Obama á eftir að auka þjóðarskuldirnar um yfir sex trilljónir á aðeins fjórum árum. Kostnaður vegna bankahrunsins og efnahagslægðarinnar sem fylgdi í kjölfarið vega þungt í þessu dæmi.

Framhald …