vald.org

Næsta bankahrun 3

4. júlí 2011 | Jóhannes Björn

Það var súrrealísk augnablik þegar gríska þingið samþykkti neyðarskilmála erlendra kröfuhafa. Táragasstybbuna lagði langt frá þinghúsinu, sem líktist meira vígvelli en virðulegri embættismannastofnun, og erlendir fréttamenn fluttu gleðitíðindin með sérstök gleraugu á nefinu til þess að verja augun fyrir eitrinu. Markaðir út um allan heim fögnuðu og evran styrktist … í augnablikinu.

Stjórnmálamenn og bankaelítan vita vel að Grikkland er gjaldþrota. Skuldabagginn er kominn yfir 170% þjóðarframleiðslu (þeir ráða kannski við 70%) í hagkerfi sem er að dragast saman ef ekki hrynja. Það er aðeins verið að fresta hinu óumflýjanlega af nokkrum ástæðum.

Fresturinn gefur völdum útlendingum tækifæri til þess að fara ránshendi um Grikkland. Sölulistinn er langur: Fjöldi banka, 39 flugvellir, 850 hafnir, hraðbrautir, nokkur orkuver, spilavíti og gríska lottóið. Gamli draumur Hitlers um „aukið lífsrými“ aría rætist svo væntanlega þegar Þjóðverjar fá nokkrar eyjar á brunaútsölu. Grikkir verða brátt eins og útlendingar í eigin landi þegar þeir borga útlendingum flugvallaskatta, hafnargjöld, vegatolla, orkureikninga, vexti og jafnvel aðgangseyri til að nota strandirnar.

Það er skelfilegt til þess að hugsa að Ísland hefði hugsanlega verið lítið betur sett ef ríkisstjórninni hefði tekist að þröngva fyrsta Icesave-samningnum í gegn. Sá myllusteinn hefði sennilega orðið þjóðinni ofviða og smámsaman ýtt hagkerfinu yfir brúnina.

Grikkland má ekki fara á hausinn strax vegna þess að Portúgal og Spánn fylgja þá fljótlega á eftir. Hugmyndin er að bíða eins lengi og unnt er í þeirri von að almennur hagvöxtur taki við sér og bankarnir rétti sig af. En þetta eru draumórar. Bankakerfi Spánar, sem dæmi, er tæknilega gjaldþrota. Það felur feikilegt tap í bókhaldinu í formi verðlausra fasteignalána. Fasteignamarkaðurinn er í rúst, autt húsnæði út um allt og verðið hefur lækkað um helming. Spánverjar eru varla byrjaðir að afskrifa þessa einstöku fasteignabólu sem bankakerfið ber fulla ábyrgð á. Það er enginn efnahagslegur uppgangur í sjónmáli sem leysir vandamál Spánar, Portúgals og Írlands. Þessi lönd ásamt Ítalíu og jafnvel Belgíu verða mjög líklega komin í gjörgæslu innan 12 mánaða.

Stuttu eftir bankahrunið 2007–2008 hófu nýfrjálshyggjuöflin áróðursherferð þar sem því var haldið fram að orsaka hrunsins væri að leita hjá fátæku fólki! Líkt og Íslendingar keyptu sér flatskjái hafði bandarískur pöpull keypt sér allt of dýrt húsnæði. Bankarnir lánuðu þessum fátæklingum, sögðu nýfrjálshyggjumenn,vegna þess að ákveðnum reglum hafði verið breytt í stjórnartíð Clinton. Þessar ljósaperur útskýrðu þó aldrei hvernig á því stóð að mest öll Evrópa upplifði sömu fasteignabólu.

Þessi furðulegi málflutningur fékk töluverðan hljómgrunn og barst meira að segja alla leið til Íslands. Sannleikurinn er hins vegar sá að það hafa aldrei verið settar reglur í Bandaríkjunum sem fyrirskipa bönkum að lána fólki sem ekki getur staðið í skilum. Reglugerðin sem nýfrjálshyggjupostularnir vísuðu til—yfirlýsing sem var leiðbeinandi en ekki bindandi—leiðbeindi bönkum að hafna ekki fólki sem gat staðið í skilum, eingöngu vegna uppruna þess eða búsetu. Enginn banki var neyddur til þess að veita óábyrg lán.

Orsakir bankakreppunnar voru í raun óskaplega einfaldar. Bankarnir gátu endurselt lánabunka (vöndla), aftur og aftur, alveg sama hvaða rusl flaut með, og þeim stóð því nákvæmlega á sama um hvort lántakar voru borgunarmenn fyrir skuldunum eða ekki. Þessi starfsemi bankanna hækkaði fasteignaverð óeðlilega, sem aftur gaf þeim tækifæri til þess að selja fleiri lán.

Umræðan um vandamál Grikklands hefur verið á svipuðum nótum og þjóðsagan um hvernig fátækt fólk kollvarpaði fjármálakerfi heimsins. Fjölmiðlar endurtaka sömu tugguna í síbylju: Gríska stjórnkerfið er spillt, fólk svíkur undan skatti, fer of snemma á eftirlaun og því skal þjóðin fá að og borga.

En hegðun Grikkja hefur aldrei verið neitt leyndarmál og bankarnir sem lánuðu landinu peninga vissu þetta allt saman. Goldman fékk meira að segja hundruð milljóna dollara í þóknun fyrir að fegra bókhald ríkisins. Það eru forréttindi að fá að reka banka. Helsta hlutverk þeirra og skilda er að meta áhættu. Það er augljóst að áhættumat er langmikilvægasti þátturinn á öllum sviðum bankastarfsemi. BANKAR SEM ERU ÓHÆFIR UM AÐ META ÁHÆTTU EIGA SKILIÐ AÐ TAPA PENINGUM.

Bankakreppan í heiminum byrjaði vegna ofurskulda í kerfinu og hún leysist ekki fyrr en grynnt hefur verið á þessum skuldum. Það leysir engan vanda að bæta við skuldirnar og færa þær síðan yfir á herðar almennings. Við erum að upplifa stéttabaráttu þar sem örlítil elíta er að velta sínu eigin tapi yfir á alla aðra og ætlar í þokkabót að græða á öllu klúðrinu.

Flestir hlutlausir aðilar vita að það hefði verið heillavænlegast fyrir Bandaríkin og Evrópu, strax í upphafi kreppunnar, að fara sænsku leiðina—setja alla sjúka banka í gjörgæslu, selja ruslapappíra á slikk og selja síðan þessa sömu banka (nú verðmætari án ruslapappíra) á opnum markaði—og hlutirnir litu miklu betur út í dag. En sænska leiðin felur í sér að skulda- og hlutabréfaeigendur gjaldþrota banka tapa miklu—og þannig eiga hlutirnir að vera—en sama elíta og mokar peningum í stjórnmálamenn, bæði til hægri og vinstri, vildi náttúrulega ekki slík málalok.

Þótt bankakerfið hafi stolið beint og óbeint, og velt eigin gjaldþroti yfir á almenning, þá þýðir það ekki að kerfið haldi velli. Með því að ýta vandanum á undan sér með auknum skuldum er aðeins verið að halda á sér hita með því að pissa í skóinn. Önnur bankakreppa skellur á þegar (1) einhver þjóð lýsir beint eða óbeint yfir gjaldþroti, (2) bandaríska hagkerfið siglir inn í nýja efnahagslægð eða (3) kínverska hagkerfið frýs tímabundið.

Eins og Íslendingar vita af biturri reynslu þá felur mikill hagvöxtur margar syndir. Gríðarlegur hagvöxtur í Kína hefur falið spillingu sem á sér enga hliðstæðu á Vesturlöndum eða hjá iðnvæddum ríkjum Asíu. Þegar kínverskir bankar lána ríkisfyrirtækjum, oft vegna afskipta pólitíkusa, líta forstjórar fyrirtækjanna á það sem beina styrki frekar en lán. Það hvarflar ekki að þeim að endurgreiða þessa peninga. Spilling á öllum sviðum atvinnulífsins er alltaf að koma betur í ljós og á eftir að verða miklu augljósari þegar hagkerfið hægir á sér.

John Paulson, sem rekur frægan áhættusjóð, tapaði nýlega $720 milljónum þegar hann fjárfesti í Sino-Forest, fyrirtæki sem virðist hafa farið mjög frjálslega með allar tölur. Forbes varpaði fram spurningunni hvort þetta væri mesti þjófnaður allra tíma. Mörg minni kínversk fyrirtæki hafa nýlega verið staðin að því að hagræða bókhaldinu—og þau hafa hrunið. Porter Stansberry, þekktur fjármálaráðgjafi, segir í nýjasta fréttabréfi sínu að hann hafi rannsakað ótal kínversk fyrirtæki, en aðeins fundið örfá sem hann treystir.

Uppgangurinn í Kína síðan 2009 hefur verið keyrður áfram með seðlaprentun og lánum á innanlandsmarkaði. Skortsölumaðurinn fægi, Jim Chanos, segir að þessa stundina sé verið að byggja 2,78 milljarða m² skrifstofu- og verslunarhúsnæðis í Kína. Íbúðarhúsnæði rís á svipuðum hraða.

Samkvæmt skýrslu ráðgjafafyrirtækis, McKinsey & Company, ætla gamlingjarnir í miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins að flytja 350 milljónir einstaklinga úr sveitum landsins í borgir á næstu árum. Hátt í 200 nýjar borgir verða reistar fyrir 2030—fimm milljónir húsa og 50.000 skýjakljúfar—og borgarbúar munu þá telja um einn milljarð. Mannkynið hefur aldrei séð neitt í líkingu við þessa miðstýringu og vonandi endar hún betur en tilraun Mao 1958–1961, sem kaldhæðnislega gekk undir nafninu Risastökk fram á við. Sú tilraun til að miðstýra landbúnaði landsins hefði átt að heita Mestu fjöldamorð aldarinnar því hún kostaði tugmilljónir einstaklinga lífið.

Með allt þetta í huga kemur ekki á óvart að Kína, sem sér um 9,4% framleiðslu jarðarinnar, notar óeðlilega mikið af hráefnum heimsins; t.d. 53% sementsframleiðslunnar, 47% alls járngrýtis og nærri helming allrar kolaframleiðslu heimsins. Það er augljóst að efnahagslægð í Kína, sem ekki virðist langt undan, á eftir að hafa víðtæk áhrif á allt efnahagslíf heimsins. Alls konar hráefni hrapa í verði, Ástralíudalurinn lækkar, tengd hlutabréf hrapa í verði, vogunarsjóðir tapa og margir bankar fara á hausinn.

Framhald …