vald.org

Tökum öll þátt í undirskriftasöfnun Hagsmunasamtaka heimilanna

31. júlí 2011 | Jóhannes Björn

Hagsmunasamtök heimilanna standa fyrir undirskriftasöfnun þar sem krafist er almennra og réttlátra leiðréttinga á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnáms verðtryggingar. Það er gífurlega mikilvægt að þjóðin sendi stjórnvöldum skýlaus skilaboð um að óréttlæti lánamála verði ekki lengur þolað.

Embættisbáknið og fjórflokkurinn hafa sýnt okkur svart á hvítu að ekkert breytist og engu óréttlæti er hægt að hagga nema almenningur sýni samstöðu og beiti afli. Báknið starfar fyrst og fremst fyrir báknið sjálft—yfirlýsingar til hægri eða vinstri eru aukaatriði—og þess vegna er t.d. sjúkrahúsum fórnað frekar en að skera niður rándýra utanríkisþjónustu sem þjónar sáralitlum tilgangi.

Þetta eru leikreglurnar og fjórflokkurinn á ekki eftir að gera neitt raunhæft í lánamálum tugþúsunda Íslendinga fyrr en honum er ógnað með samstilltu afli. Á meðan verðtryggingin stendur óbreytt hefur bankakerfið byssuleyfi á almenning og rænir hann kerfisbundið. Verðtryggingin verður að hverfa.

Framferði stjórnvalda og dómstóla—jafnvel eftir að gjaldeyristryggð lán voru réttilega dæmd ólögleg—hefur verið svívirðilegt. Aðeins í bananalýðveldi er hægt að breyta skilmálum lána eftir á. Þá er 110% leiðin lélegur brandari, sérstaklega eftir að verðbólgan tók fjörkipp.

Öll innheimtumál eru líka í ótrúlegum ólestri og þjóðinni til skammar. Það er engu líkara en að einstaklingur sem glatar fasteign eða bíl sé réttlaus gagnvart alls konar kostnaði sem er klínt á hann (t.d. lögfræði- og okurvaxtakostnaði) og hann geti ekki spyrnt fótum við hreinum þjófnaði sem á sér stað þegar bíllinn eru metinn langt undir eðlilegu gangverði. Það er ótrúlegt að löggjafinn skuli ekki fyrir löngu verið búinn að taka í taumana.

Verðtrygging lána er glapræði. Á áratugunum fyrir 1980 ríkti algjör óstjórn á íslenskum fjármálamarkaði. Verðbólgan æddi áfram og ráðamenn annað hvort skildu ekki hvað var að gerast eða vildu ekki skilja það. Í staðinn fyrir að beita raunhæfum lausnum, t.d. draga úr útlánum bankanna með hærri bindiskyldu, þá var kerfið sett á sjálfstýringu með verðtryggingunni. Þetta var taktísk viðurkenning valdamanna á þeirri staðreynd að þeir kunnu ekki að stjórna hagkerfinu.

Hagkerfi sem leyfir verðtryggingu lána getur ekki talist frjálst eða á nokkurn hátt eðlilegt. Eins og alltaf þegar menn búa til annarlegar lausnir þá láta slæmar afleiðingar ekki á sér standa.

Verðtryggingin átti stóran þátt í að fasteignaverð hækkaði allt of ört árum saman. Þegar fólk í nágrannalöndum okkar kaupir sér þak yfir höfuðið ráða mánaðartekjur þess algjörlega ferðinni þegar boðið er í húsnæði. Ef eyðslutekjur hjóna (eftir skatta) eru 400.000 kr. á mánuði þá er algeng regla að gera ráð fyrir að þau geti endurborgað lán sem ber 120.000 kr. mánaðargreiðslur (um 30% ráðstöfunartekna). Það er lán upp á um 20 milljónir á 6% föstum vöxtum til 30 ára. Ef vextir hækka upp í 8% þá lækkar lánshæfni hjónanna niður í 16,4 milljónir. Við sjáum þarna innbyggt viðnám gegn okurvöxtum. Eftirspurn eftir lánum dregst strax saman ef hærri vaxtakostnaður kemur strax fram.

Verðtrygging lána lækkar mánaðargreiðslurnar óeðlilega vegna þess að verðbólgan—sem aðrar þjóðir reikna beint inn í föst lán með hærri prósentu—bætist við höfuðstólinn og er því ekki eðlilegur hluti mánaðarlegrar greiðslubyrðar. Fólk býður því hærri upphæðir í húsnæðið heldur en það raunverulega getur borgað. Timburmennirnir hlaðast bara upp á hinum endanum. Íslenska verðtryggingin hélt sennilega verði íbúðarhúsnæðis 10–15% of háu árum saman—og þá er ekki einu sinni farið að reikna út þátt verðtryggingarinnar í að skapa bólu á fasteignamarkaði.

Verðtryggingin er byggð á röngum forsendum vegna þess að hún kemur í veg fyrir að framboð og eftirspurn lækki eða hækki vexti þegar það á að gerast. Hún felur raunverulegan kostnað og eykur greiðslubyrðina þegar spurt er að leikslokum. Verðtryggingin er auglýst sem eitthvað gustukaverk en hún þjónar aðeins okurlánurum.

Það er engin tilviljun að verðtryggð húsnæðislán þekkjast varla á byggðu bóli. Þetta er nánast séríslenskt fyrirbæri. Fyrir utan allt sem hér hefur verið týnt til, þá má benda á mörg önnur tæknileg atriði sem, séð frá bæjardyrum hagfræðinnar, gera verðtrygginguna að viðundri.

Lánastefna bankakerfisins á hverjum tíma hefur mikil áhrif á þróun verðbólgu—oft úrslitaáhrif. Ef flest lán bankakerfisins eru verðtryggð þá þurfa bankarnir ekki að taka mið af verðbólgu eða verðbólguvæntingum nema af litlu leyti. Kerfið getur óttalaust farið offari og keyrt verðbólguna upp—áhættulaust!

Bankakerfi verðtryggingarinnar getur grætt með því að veðja á móti íslensku krónunni með framvirkum samningum, fellt hana og þannig orsakað meiri verðbólgu. Þessi gróði væri ekki fyrir hendi ef kerfið sæti uppi með samsvarandi tap á óverðtryggðum lánum.

Verðtryggingin hækkar vexti vegna þess að bankakerfið er matað sjálfkrafa. Það er enginn hvati í kerfinu til þess að lækka venjulega vexti í samkeppni við þá verðtryggðu eða skapa eðlilegan endursölumarkað fyrir bankalán. Eina kerfið sem eitthvað vit er í er peningahringrás þar sem allir aðilar keppast við að halda verðbólgu í skefjum.

Verðtryggingin hneppir venjulegt fólk í þrældóm og það vinnur lungann úr lífinu eins og hamstur í hjóli fyrir bankakerfið. Þetta er lénsskipulag nútímans og ber að leggja niður strax. Myndum afl sem stjórnvöld verða að beygja sig undir—sendum þessu nýja íslenska aðli a.m.k. 40.000 undirskriftir.