vald.org

Næsta bankahrun 4

14. ágúst 2011 | Jóhannes Björn

Kerfisvandinn sem ýtti bankakerfinu yfir hengiflugið haustið 2008 var aldrei leystur. Það voru ofurskuldir sem settu hagkerfi Evrópu og Bandaríkjanna á hliðina. Vandanum var aðeins slegið á frest með því að framleiða miklu meiri skuldir. Þetta voru—og eru enn—skammtímalausnir sem minna á drykkjusjúkling sem heldur timburmönnum í skefjum dag eftir dag með enn meira brennivínsþambi, en á einhverjum tímapunkti hætta allar gervilausnir að virka. Næsta bankahrun er hafið.

Aðgerðir stjórnvalda í Evrópu hafa hingað til miðað að því einu að bjarga ákveðnum bönkum. Þegar talað er um að „bjarga“ Grikklandi og fleiri löndum með lánapökkum er aðeins verið að bjarga bönkum sem árum saman voru á lánafylleríi. Raunverulega er aðeins verið að færa gjaldþrot bankakerfisins yfir á herðar almennings. Frekar en að gera upp nokkra stórbanka er þumalskrúfan stillt og lífskjör almennings færð áratugi aftur í tímann. Á meðan fólkið er mergsogið stíga seðlabankastjórar Bandaríkjanna og Evrulands trylltan dans við prentvélarnar og framleiða trilljónir til að tryggja að örlítil elíta sleppi taplaus fyrir horn.

Óréttlætið er fullkomið. Sex risabankar settu bandaríska hagkerfið á hausinn 2008. Þeim var öllum bjargað, bæði af skattgreiðendum og seðlabanka landsins, en 12 mánuðum síðar borguðu stafsmenn sömu banka sjálfum sér hærri bónusa en áður höfðu þekkst. Í dag eru þessar sex peningastofnanir með stærri sneið af markaðinum (talið í innistæðum) en þær höfðu fyrir hrun. Það endar aldrei vel þegar skussar eða glæpamenn eru verðlaunaðir á kostnað allra annarra … líkt og er að gerast á Íslandi þar sem bankakerfið gefur gjaldþrota fyrirtækjum forskot með stuðningi sem ekki samrýmist samkeppnisreglum og hlýtur að vera ólöglegur.

Þrátt fyrir endalausan straum frétta s.l. tvö ár um vöxt og betri horfur í hagkerfum Bandaríkjanna og Evrópu, þá hefur þessi auglýsti hagvöxtur aðallega verið byggður á sjónhverfingum. Við höfum ekki séð neinn „lífrænan“ efnahagsbata. Við höfum hins vegar séð mestu peningaframleiðslu á Vesturlöndum síðan Þjóðverjar notuðu hjólbörur undir seðla 1923. Endanlegt markmið manna sem stjórna þessum aðgerðum er að koma skuldunum elítunnar yfir á sauðsvartan almenning, bæði beint og með hjálp verðbólgu. Innantóm loforð um hagvöxt og væntanlega atvinnusköpun þjóna þeim eina tilgangi að róa fólkið á meðan það er rænt. U.þ.b. 80% allra fréttafjölmiðla í Bandaríkjunum tilheyra sex risafyrirtækjum og ástandið er ekki mikið heilbrigðara í Evrópu.

Samkvæmt tölum frá U.S. Bureau of Economic jókst þjóðarframleiðsla BNA um 4,26% frá 2007 til 2010. Á sama tímabili hækkuðu þjóðarskuldirnar um 61,6%. Nýjar skuldir upp á margar trilljónir dollara rétt héldu í horfinu, en þær eiga eftir að reynast meiri háttar dragbítur á hagvöxt þegar skuldadagarnir renna upp. Atvinnuleysi í BNA er meira en það var fyrir fjórum árum og það eru 6.95 milljón færri störf í hagkerfinu, en á sama tímabili hefur vinnufæru fólki fjölgað um sex milljónir. Sáralítill hagvöxtur síðustu ára hefur aðallega skilað sér til ríkasta 1% landsins á meðan flestir aðrir eru fátækari.

Sennilega er hagvöxtur nú þegar neikvæður bæði í BNA og Evrópu. Það er mjög erfitt að sjá hvernig þessi efnahagssvæði komast hjá meiri háttar hruni á næstu mánuðum. Seðlabankar hafa breitt handafli og haldið vöxtum í sögulegu lágmarki á meðan þeir á sama tíma hafa mokað peningum í bankakerfið. Hinn fullkomni stormur kemur fljótlega, þegar mikil lánsþörf og hækkandi vextir haldast í hendur, því hagkerfið þarf að endurfjármagna ævintýralegar upphæðir á næstunni.

Bandaríska ríkið þarf að endurfjármagna og slá ný lán upp á sex til sjö trilljónir dollara á næstu tveim árum. Á sama tímabili þurfa 90 stærstu bankar Evrópu endurfjármögnun upp á €5 trilljónir á meðan ríkisstjórnir Evrulands verða að slá um €2 trilljónir. Hagkerfi jarðarinnar er að hægja á sér og frjáls peningamarkaður verður ekki í neinni aðstöðu til að fjármagna svona upphæðir—og örugglega ekki á sömu tombóluvöxtum og tíðkast hafa undanfarið. Allt of miklar skuldir eru að drepa kerfið og nú ætla seðlabankarnir að bæta hressilega við þær.

Nokkur Evrópuríki eru búin að banna fjárfestum að veðja á lækkun hlutabréfa ákveðinna banka. Þegar pólitíkusar byrja að banna skortsölur vitum við að hrun er á næsta leiti. Þeir vilja leiða athygli heimsins frá þeirri staðreynd að stjórnvöld sjálf klúðruðu málunum. Sökinni er klínt á svokallaða spákaupmenn, sem eru að miklum meirihluta fjárfestingadeildir banka og sterkir vogunarsjóðir.

Bann við skortsölum virkar hins vegar aldrei nema í nokkra daga eða vikur. Á seinni hluta 2008 bönnuðu 17 lönd skortsölur en í mars 2009 höfðu hlutabréf heimsins fallið niður í meðalverð ársins 2003. Venjulegar skortsölur eru eðlilegar á hlutabréfamarkaði og t.d. nauðsynleg vörn sem bankarnir sjálfir nota þegar þeir lána á millibankamarkaði. Ef banki A lánar banka B milljarð þá „shortar“ hann banka B um leið til að verja sig fyrir hugsanlegu gjaldþroti hans. Bann við skortsölum virkar því eins og dragbítur á millibankaviðskipi. Pólitíkusarnir stóla á að fólk rugli saman venjulegum skortsölum (þar sem t.d. banki A í fyrrnefndu dæmi verður samtímis að fá lánuð sömu hlutabréf og hann veðjar gegn) við naktar skortsölur eða afleiðubrask, sem vissulega flokkast undir hrein veðmál.

Hagvöxtur á Evrópusvæðinu er sennilega neikvæður þessa stundina eða verður það mjög fljótlega. Þegar skuldugar þjóðir hlaða upp enn meiri skuldum, hækka skatta og draga úr almennri neyslu þýðir það enn frekari samdrátt. Kjósendur í N-Evrópu horfa ekki upp á það mikið lengur að fjárhagslegu öryggi þeirra sé stefnt í voða vegna gjaldþrota ríkja sunnar í álfunni. Púðurtunnan er komin að því að springa.