vald.org

Hvað næst?

5. september 2011 | Jóhannes Björn

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu, og þá sérstaklega bréf í bönkum, hafa verið í frjálsu falli upp á síðkastið og vandinn er svo risavaxinn að það má bráðum fara að afskrifa Evruland í sinni núverandi mynd. Úrlausnir sem geta bjargað gjaldþrota ríkjum og fallvöltum bönkum kalla á pólitískar aðgerðir sem ríkari þjóðir á svæðinu geta sennilega ekki framkvæmt.

Gjaldþrot Grikklands er staðreynd sem stjórnmálamenn einir kjósa að horfa fram hjá. Markaðirnir eru búnir að afskrifa 50% skulda landsins og kostnaður við að gefa út ríkisskuldabréf, önnur en þau sem Seðlabanki Evrópu kaupir, er orðinn yfirþyrmandi. Samkvæmt tölum frá Barclays Capital dregst hagvöxtur Grikklands saman um 5,7% á þessu ári.

Stærstu bankar Evrópu eru í mikilli klemmu og hlutabréfin hafa hríðfallið á síðustu vikum. UniCredit (Ítalía), BPN (Frakkland), Dexia (Belgía) og Societe Generale (franskur banki, sem samkvæmt sumum heimildum er trekktur upp 50X og samanstendur því mest af lofti) hafa t.d. aðeins afskrifað 21% grískra skulda á meðan markaðurinn verðleggur þessa pappíra á hálfvirði. Hlutabréf Royal Bank of Scotland féllu um 12,3% s.l. mánudag á meðan bréf Deutsche Banka hröpuðu um 8,9% á þessum eina degi.

Eftir formlegt gjaldþrot Grikklands beinast spjótin strax að Spáni, Portúgal og Ítalíu. Seðlabanki Evrópu getur ekki endalaust keypt ríkisskuldabréf þessara ríkja. Ítalía þarf t.d. (samkvæmt Daily Telegraph) að endurfjármagna lán upp á 62 billjónir evra fyrir lok september.

Það er einfaldlega staðreynd að bankakerfi Evrópu þolir ekki neitt í líkingu við afskriftirnar sem nú þegar eru í gangi … og því síður trilljónirnar sem brátt koma á færibandi. Ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Co. telur að evrópskir bankar þurfi peningainnspýtingu upp á 3,5 til 5 trilljónir evra til þess að mæta skilmálum Basel III samkomulagsins.

Írland hefur tímabundið vikið úr dagsljósinu vegna vonarneista um einhvern hagvöxt þar um slóðir, en framleiðslan hefur verið að dragast saman í þrjá mánuði í röð og atvinnuleysið er komið upp í 14,4%. Væntingar á Írlandi um aukinn útflutning eru óraunhæfar vegna þess að hagkerfi Evrópu, Bandaríkjanna og fleiri landa eru að dragast saman. Örlítill hagvöxtur á Írlandi kemur til vegna þess að það er verið að drepa beljuna sem mjólkar fyrir heimilið. Niðurskurður og aukin skattheimta laga bókhaldið tímabundið, en stóra fréttin er sú að tekjur af virðisaukaskatti eru að dragast saman—þótt hann hafi verið hækkaður. Þetta er vítahringur þar sem samdráttur kallar á enn meiri samdrátt.

Atburðarásin á Írlandi er ömurleg og langlundargeð fólksins (fyrir utan þá sem flýja land) ótrúlegt. Almenningur fékk allar skuldir bankakerfisins beint í hausinn og nú hefur atvinnumálaráðherra landsins, Richard Bruton—karakter sem hefði sæmt sér vel í sögum Charles Dickens—ákveðið að leyfa nokkurs konar uppboð á vinnumarkaði sem eiga eftir að lækka laun í landinu enn frekar. Í þessu kapphlaupi niður á botninn fá fyrirtæki leyfi til þess að ráða fólk í vinnu sem undirbýður þá sem núna halda þessum störfum.

Þýskaland ber ægishjálm yfir Evrópu og er eina ríkið sem getur haft frumvæðið þegar vandamál álfunnar eru leyst. Besta raunhæfa lausnin í sjónmáli er að búa til nýja tegund ríkisskuldabréfs, evrubréf, sem öll lönd ESB gefa út í sameiningu. Skuldabréf af þessu tagi myndi lækka vexti í flestum löndum sem nota evru, en hækka þá nokkuð í Þýskalandi. Miðað við framgöngu þýskra kjósenda upp á síðkastið þá er með öllu óvíst að þeir leyfi þessa lausn.

Ef evruskuldabréf verður ekki í sjónmáli á næstunni hlýtur gengi evrunnar að falla töluvert. Í þeirri stöðu gætu þýskir kjósendur krafist stöðugleika með endurkomu marksins. Önnur lausn á fjármálavandanum sem hefur verið rædd—að rétt sé að miðstýra hagstjórn allra aðildarríkja ESB í miklu meira mæli (í raun svipta þjóðirnar efnahagslegu sjálfstæði)—er allt of seinvirk í þessu sérstaka tilfelli. Fyrst þyrfti öll aðildarríkin að kjósa um svo veigamiklar breytingar.

Sú staðreynd að valdamiklir menn hafa í fúlustu alvöru bryddað upp á svo rótækum hugmyndum um efnahagslega frelsisskerðingu hjá fullvalda ríkjum ætti að fá Íslendinga til þess að íhuga málið vandlega.