vald.org

Ræða haldin 26. september á fundi Hagsmunasamtaka heimilanna

29. september 2011 | Jóhannes Björn

Góðir fundargestir:

Þegar einn færasti sérfræðingur heimsins í bankasvindli, William Black, kom til Íslands eftir hrun, benti hann á að bankar sem ár eftir ár þenjast út meira en 20%–30% séu í eðli sínu Ponzi-bankar og glæpastofnanir. Eðlileg bankastarfsemi býður ekki upp á svona útþenslu. Samkvæmt þessari skilgreiningu voru einkavæddir (svo maður noti kurteislegt orð yfir þetta) íslenskir bankar strax í upphafi Ponzi-bankar. Það er líka spurning hvort nýju bankarnir hafi reynst eitthvað skárri.

Klúður bankamála er algjört og við fáum ekki einu sinni að vita hvaða aðilar eiga nýju bankana. Þeir fengu lánasöfn gömlu bankanna á hálfvirði og—það er kominn tími til þess að kalla hlutina sínum réttu nöfnum—þeir stálu peningunum. Glimrandi gróði bankanna þessa stundina er ekki til kominn vegna aukinna útlána eða fjármálasnilldar bankastjóranna—NEI, gróðinn er tekinn beint frá 26.000 einstaklingum sem eru komnir í greiðsluþrot. Haustið 2008 varð algjör forsendubrestur og lán sem ruku skyndilega upp um helming áttu að afskrifast í stórum stíl. Þess vegna voru lánasöfnin seld á hálfvirði … en bankarnir stungu peningunum ykkar beint í eigin vasa. Núna er e.t.v. síðasta tækifærið sem gefst—áður en ofurbónusar og annað bruðl lætur þá gufa upp—til þess að ná þessum peningum til baka.

Það er átakanlegt að horfa upp á ráðherra og aðrar tildurdúfur kerfisins klappa sjálfum sér á bakið í fjölmiðlum. Já, íslensku ofurmennin eru aftur farin að skáka öðrum þjóðum! Sannleikurinn er hins vegar sá, að óverulegur hagvöxtur hefur verið kreistur út með því að fórna tugþúsundum einstaklinga og ganga á séreignarsparnað þjóðarinnar.

Með hliðsjón af aðgerðum stjórnmálamanna síðan haustið 2008, þá getum við slegið því föstu að pólitíska stéttin hafi strax í upphafi hruns tekið þá ákvörðun að fórna skuldsettum heimilum landsins. Ráðamenn hafa aldrei lyft fingri nema að vera nauðbeygðir til þess. 110% leiðin, sem dæmi, er loddaraleikur og saga verð- og gjaldeyristryggðra lána sorgarleikur.

Óréttlætið er hrikalegt og siðferðið á núllinu. Kerfið slær skjaldborg um sjálft sig og neitar að færa eðlilegar fórnir. Það segir okkur allt um siðgæðisvitund ráðamanna að öxin er látin ganga á gamalmennum, börnum og sjúklingum á meðan kostnaður við utanríkisþjónustuna tvöfaldast. Ef við lokuðum 90% allra sendiráða strax á morgun þá tæki enginn eftir því nema dekurliðið sem er á framfæri skattgreiðenda úti um allan heim. Við gætum hins vegar sparað háar upphæðir og látið ganga til velferðarmála. Sendiherra eða sjúkrarými—valið er varla erfitt.

Verkin tala og pólitíska stéttin á Íslandi er búin að sýna hvað eftir annað að hún framkvæmir ekkert raunhæft í málefnum heimilanna fyrr en fólkið sýnir samstöðu og vissa hörku. Búsáhaldabyltingin þvingaði fram kosningar og núverandi stjórn svaf á vanda heimilanna … þar til þúsundir mótmæltu og létu eggjum rigna yfir þingheim. Það kom reyndar lítið út úr því dæmi nema málþóf og þyrnirósarsvefninn ræður nú aftur för.

Góðir fundargestir, þess vegna verðum við öll að mæta á Austurvöll 1. október og ræsa liðið. Hagkerfið þolir einfaldlega ekki fjöldagjaldþrot einstaklinga og vaxandi landflótta. Við verðum að taka í taumana strax!